Ævintýraferð til Portúgal

Porto, Lissabon og Algarve

Bókaðu þína ferð
Báðar leiðir
Aðra leið

Myndagallerí

Ævintýraferð

3. til 13. maí 2019
Fararstjórar: Ólöf Salmon Guðmundsdóttir og Steinar Þór Guðlaugsson

Flogið með Icelandair frá Keflavík klukkan 08:00 og lent í Faro klukkan 13:10. Rúta bíður okkar og við förum með henni beina leið á gómsætan Piri Piri kjúklinga veitingastað rétt við Faro flugvöllinn. Þar fáum okkur síðbúinn hádegisverð með tilheyrandi drykkjum.
Að loknum hádegisverði höldum við norður til Porto. Ferðin frá Faro til Porto er 4 klukkustundir og 55 mínútur þannig að þessi fyrsti ferðadagur verður nokkuð strembinn en það verður stoppað á leiðinni þar sem unnt er að fá einhverja hressingu. Við komuna til Porto tékkum við inn á Vila Galé Porto Ribeira hótelið og strax í kjölfarið bíður okkar kvöldverður á Monchique Bar Restaurant sem er við hliðina á hótelinu. 
Innifalið þennan dag: Flugið, hádegisverður með víni, rútuferðin og kvöldverður.

vila_gale_porto_ribeira_2.jpg  

Laugardagur 4. maí. Göngutúr um Porto.
Leggjum af stað með enskumælandi leiðsögumanni í göngutúr um borgina. Porto er með elstu borgum í Evrópu og á sér því langa sögu. Það verður skemmtilegt að fræðast meira um hana og sjón er sögu ríkari.
Um hádegisbil munum við kveðja leiðsögumanninn og hópurinn fær sér í kjölfarið síðbúinn hádegisverð (ekki innifalinn) á skemmtilegu veitingahúsi sem á leið okkar verður. Eftir hádegisverðinn er frjáls tími það sem eftir er dags.
Innifalið þennan dag : Gönguferð um bæinn Porto með innfæddum enskumælandi leiðsögumanni. 

porto_4.jpg  

Sunnudagur 5. maí. Skoðunarferð og vínkynningar. 
Förum í rútu frá hótelinu og leggjum upp í skoðunarferð á fallega svæðið við Duro ána. Við munum einnig fara í siglingu eftir ánni sem rennur hægt og hljótt sína leið gegnum Porto. Hádegisverð borðum við á fallegum stað og njótum þess að vera til. Förum í tvær vínkynningar yfir daginn aðra á undan bátsferðinni og hina eftir hádegisverð. Við verðum komin aftur á hótelið um fjögur leytið og eftir það er kvöldið frjálst
Innifalið þennan dag: Rútuferðin, enskumælandi leiðsögumaður, bátsferðin, hádegisverður og tvær vínkynningar. 

porto_2.jpg  

Mánudagur 6. maí. Ekið til Estoril.
Farið frá Porto og ekið til Estoril (borg á Stór-Lissabon svæðinu). Á leiðinni munum við koma við í bænum Batalha og skoða frægt og afar fallegt munkaklaustur sem þar er að finna og borða eftir það síðbúinn hádegisverð á Burrovelho veitingahúsinu sem er nálægt klaustrinu. Eftir máltíðina höldum við til Estoril og tékkum okkur inn á Vila Galé Estoril hótelið. Kvöldið er frjálst. 
Innifalið þennan dag: Rútuferðin, aðgangur inn í Batalha klaustrið, hádegisverður og vín með matnum.

batalha_monastery.jpg  

Þriðjudagur 7. maí. Skoðunarferð um Lissabon.
Þennan dag förum við í skoðunarferð um Lissabon (innan við 30 mínútna akstur er frá miðbæ Estoril til miðbæjar Lissabon). Rúta mun sækja okkur á hótelið í Estoril og fara með okkur ásamt enskumælandi leiðsögumanni um áhugaverð kennileiti borgarinnar og gefa okkur frekari innsýn inn í þessa fallegu perlu Portúgals. Staðir sem prýða munu leiðina þennan dag eru t.d. Ajuda Höllin, Jeronimos klaustrið, Christ the King (Almada) og Belém turninn.
Við munum skoða margt fleira og ná yfirgripsmikilli sýn á borgina. Hádegisverð munum við snæða á Biarro Do Avillez veitingahúsinu.
Innifalið þennan dag: Rútan, leiðsögumaðurinn, aðgangseyrir á þá staði sem við heimsækjum og hádegisverður með víni á Bairro veitingahúsinu.

jeronimos_monastery.jpg  

Miðvikudagur 8. maí. Ævintýraferð til Sintra. 
Í dag leggjum við í ævintýraferðalag til Sintra sem er staðsett við portúgölsku rivíeruna (vel innan við 30 mínútur í rútu frá hótelinu okkar í Estoril). Í Sintra eru margar hallir og kastalar sem eru hreint augnayndi. Gamli bærinn er afar fallegur og á sér mikla sögu og er hann helsta ástæða þess að borgin er skráð á heimsminjaskrá Unesco. Við munum njóta okkar í þessu fallega umhverfi og borða hádegisverð á góðu veitingahúsi sem verður á vegi okkar þennan dag í Sintra  (hádegisverður ekki innifalinn).  Við komum til baka á hótelið okkar í eftirmiðdaginn og kvöldið er frljálst.
Innifalið þennan dag: Rútuferðin og enskumælandi innfæddur leiðsögumaður sem fer með okkur um allar helstu gersemar Sintra.

sintra_terrace.jpg  

Fimmtudagur 9. maí. Frjáls dagur.
Fararstjórar veita upplýsingar um það margvíslega sem er hægt að sjá og gera ef ferðalangar hafa ekki hug á því að vera fullkomlega í hvíld þennan dag. Til að mynda kemur skemmtiferð til Cascais strandbæjarins vel til greina ( tekur ca 10 mínútur í leigubil frá hótelinu okkar).

vila_gale_estoril_1.jpg  

Föstudagur 10. maí. Evora og Tavira. 
Förum við með rútunni frá Estoril og ökum í suður-átt í sirka 90 mínúutur gegnum  héruð sem eru þekkt sem  landbúnaðarhjarta Portúgals. Við ætlum að heimsækja Evora sem er heillandi bær á leiðinni. Evora er á heimsminjaskrá Sameinuðu Þjóðanna yfir merka staði og þegar við heimsækjum bæinn munum við skilja betur hvers vegna hann hefur hlotið þennan heiður. Þar er að finna mannvirki allt frá tímum Rómaveldis. Einnig hús sem skreytt eru með fallegum keramikflísum allt frá endurreisnartímanum (renaissance period)  en það var einmitt á þeim tíma þegar portúgalskir konungar bjuggu í Evora. Það er margt sem prýðir þennan áhugaverða bæ.
Við munum snæða hádegisverð á góðum stað í Evora og höldum að honum loknum sem leið liggur  á þriðja og siðasta hótelið okkar í þessari ferð sem er Vila Galé Albacora hótelið í bænum Tavira á suðurströnd landsins (rútuferðin frá Evora til Tavire tekur um tvo og hálfan tíma).  Kvöldið er frjálst.
Innifalið þennan dag: Rútan, hádegisverður og vín með matnum.

evora_portugal_1.jpg   

Laugardagur 11. maí. Frjáls dagur við ströndina

vila_gale_albacora_4.jpg  

Sunnudagur 12. maí. Helstu kennileiti í og við Tavira. 
Dagurinn er nokkuð frjáls en fararstjórar ætla að fara í smá ævintýraferð um nágrennið og skoða skoða helstu kennileiti í og við Tavíra. Þau sem ekki hafa hugsað sér að vera í sólbaði þennan morgun er hjartanlega velkomið að stíga með þeim út í daginn.  Hópurinn mun borða hádegisverð á góðum veitingastað á leiðinni (hádegisverður ekki innifalinn).  Um kvöldið ætlum við svo að borða saman í þægilegum gír á VG Albacora hótelinu sem við gistum á.
Innifalið þennan dag: Kvöldverður á hótelinu okkar.

tavira_1.jpg  

Mánudagur 13. maí. Brottför.
Brottför frá hótelinu verður um kl. 11:00.  Það er um 30 mínútna akstur frá Tavira til flugvallarins í Faro Vélin heim fer í loftið kl. 14:10 og við lendum í Keflavík um kl. 17:10 
Innifalið þennan dag: Rútan og flugið heim.

Porto og Duro
Porto er hafnarborg við ósa árinnar Duro, aðalborgin í norður Portúgal og sú næst stærsta í landinu öllu. Hún á sér fornar rætur og mikla sögu og er einstaklega vel varðveitt. Hún hefur ekki sama yfirbrag auðs og fágunar og Lissabon, en gamli hlutinn er fullur af sjarma. Hús með rauðum þaksteini og steinlagðar götur teygja sig upp eftir bröttum hlíðunum frá árbakka Duro. Kirkjuturnar bera við himinn. Flatbytnur dóla á ánni.  Áhrifamikið er að upplifa ótrúlega fallega bæjarmyndina og andrúmsloftið í hverfunum niðri við norðurbakka árinnar. Líf sitt á borgin að mestu að þakka púrtvínsframleiðslunni. Vínið er ræktað í Dourodalnum en flutt niður til systurbæjarins, Vila Nova de Gaia, sem stendur á suðurbakkanum andspænis Porto. Þar hafa nær öll púrtvínshúsin aðstöðu til framleiðslu, geymslu og útflutnings. Dalurinn er elsta vottaða vínræktarsvæði heims. Hlíðar hans rísa bratt upp frá bugðóttri ánni. Vínviðurinn er ræktaður á stöllum sem mótaðar hafa verið gegnum aldirnar og setja sterkan svip á dalinn. Falleg sveitasetur og ólífu- og möndlutré fylla í töfrandi myndina.

vila_gale_porto_ribeira_1.jpg  

 
Lissabonsvæðið
Höfuðborgin Lissabon var í byrjun 16. aldar miðstöð mikils nýlenduveldis sem teygði anga sína sjóleiðis til Afríku, Asíu og Ameríku. Landið hafði hafði kastað af sér márískum yfirráðum og vísað gyðingum úr landi og útrásin mikla einkenndist af nýlenduhernaði, trúboði, og verslun með þræla og fágætar hrávörur. Auðurinn hlóðst upp í borginni, sem tók algerum stakkaskiptum og fólk af ólíkum uppruna streymdi til hennar. Í jarðskjálftanum mikla árið 1755 hrundi stór hluti borgarinnar til grunna. En hún var endurreist úr rústunum og er í dag glitrandi fögur og iðandi af lífi, frjálslynd og gestrisin. Alls staðar glittir samt í sögulegar rætur og gamlar hefðir. Lissabon er í dag ein vinsælasta ferðamannaborg Evrópu. Hér er eitthvað fyrir alla: Skemmtilegt mannlíf, áhugaverð borgarmynd og arkitektúr, frábær matur og vín og líflegt næturlíf. Umhverfi borgarinnar er fjölbreytt og áhugavert: Tagusfljótið, sendnar og suðrænar baðstrendur og þjóðgarður við Atlantshafið. Estoril og Cascais eru fallegir strandbæir vestan við borgina. Estoril var lengi sumarleyfisstaður hinna ríku og frægu og státar m.a. af spilavíti. Bærinn er eitt dýrasta búsvæðið á Lissabonsvæðinu. Þaðan er stutt ganga eftir ströndinni til útgerðarbæjarins Cascais sem iðar af sumarlífi og býður upp á fjölbreytt sjávarfang. Sintra var um aldir eftirlætisdvalarstaður aðalsins utan við höfuðborgina og sumardvalarstaður konungsfjölskyldunnar. Staðurinn er stórkostlegur. Þar má sjá gróskumikla dali, ævintýrakastala, framandi plöntur og grýtta hæðarkolla með útsýni til sjávar.

lisbon_lissabon.jpg   

Alentejo og Évora
Alentejo  er víðáttumikið og strjálbýlt landbúnaðarhérað milli Lissabon og Algarve og nær yfir þriðjung landsins. Að ferðast um svæðið er eins og að hverfa 40-50 á aftur í tímann. Sveitin er kyrrlát og lífið gengur sinn hæga vanagang. Fyrir augun bera hvítkölkuð sveitaþorp og víggirtir miðaldakastalar, korkeikur, hveitiakrar, villibómaengi og vínekrur. Búfé reikar um sléttur og hlíðar og storkar standa vaktina á símastaurum. Þetta var fátækt hérað og stundum hent gaman að íbúunum. En í dag er Alentejo að rísa úr dvala sem ört vaxandi ferðamannastaður og framsæknasta vínframleiðsluhérað landsins. Héraðshöfuðborgin Évora er einstaklega sjarmerandi. Jarðskjálftinn mikli 1755 hafði þar lítil áhrif og bæjarmyndin því vel varðveitt. Þar má sjá þröngar steinlagðar götur, fallegar byggingar og minjar um aldalanga sögu. Hún er samt ekkert safn, stúdentarnir í nútímalegum háskólanum halda meðalaldrinum niðri og fjörinu uppi.

evora_portugal-angel.jpg   

Algarvehérað og Tavira
Algarve er sumar, sól og sæla. Höfuðdjásn héraðsins er strendurnar. Hvítir sandar, marglitir sandsteinsklettar og skemmtilegir strandbarir. Mörg þekkjum við miðsvæðið frá Vilamoura til Albufeira, en færri vita hvílíkar perlur austustu og vestustu hlutar svæðisins hafa að geyma. 
Tavira er strandbær í austurhluta Algarve við mynni árinnar Formosa, miðja vegu milli Faro og spönsku landamæranna. Hann hefur haldið upprunalegum einkennum sínum vel og er einn besti staðurinn til þess að upplifa andrúmsloftið eins og það var á þessum slóðum áður en ferðamönnum fjölgaði mikið. Tavira býður upp á marga möguleika á áhugaverðum dagsferðum; strendurnar á sandrifinu utan við bæinn, fiskimannaþorpið Santa Luzia, og fallegan miðbæjarkjarna með fjölda góðra veitingahúsa. Stutt er að fara milli staða með ferjum, rútum og leigubílum.

tavira1.jpg  

Sjá nánari ferðalýsingu
Bókaðu þína ferð
Báðar leiðir
Aðra leið
  • Veðrið

Gististaðir

Sjá alla gististaði
Sjá Kortasýn Sjá gististaði

Við notum vefkökur (e.cookies) t.d. til að greina umferð um vefinn og til að bæta upplifun notanda á síðunni. Með því að halda áfram að vafra um síðuna samþykkir þú vefkökuskilmála VITA

Nánari upplýsingar um vefkökunotkun