fbpx Ævintýri í Himalaya | Vita

Ævintýri í Himalaya

Nepal og Bútan

Frestað um ár

Fyrirhuguð ferð á sama tíma á næsta ári. Vinsamlega hafið samband til að fá nánari upplýsingar. Hægt er að senda okkur tölvupóst á [email protected] eða hringja í síma 570-4444.

Hafa samband

Myndagallerí

Ævintýri í Himalaya
Konungsríkin Nepal og Bútan

22. október – 5. nóvember
Frestum um ár. Fyrirhuguð er ferð á svipuðum tíma haustið 2021
Fararstjóri: Sr. Þórhallur Heimisson

Þessi einstaka ferð, þar sem við sækjum heim þak heimsins, hefst í Nepal. Í Nepal upplifum við stórbrotna náttúru landisins, hrikaleg fjöllin og dulmagnaða skógana, heimsækjum m.a. Chitwan þjóðgarðinn, sjáum hof, fólk og fíla og dveljum í höfuðborginni Kathmandu.
Að lokinni dvölinni í Nepal er flogið beint með Drekafluginu, Royal Bhutan Airlines, til borgarinnar Paro í Bútan. Nú tekur við mögnuð upplifun af menningu og umhverfi lands, sem fáir hafa sótt heim og erfitt er að lýsa með orðum. Fararstjóri er sr. Þórhallur Heimisson, sem leiddi ógleymanlega ferð Íslendinga um þessar slóðir árið 2016.

nepal_og_butan_patan_2.jpg

Nepal
Nepal er kallað þak heimsins. Hér er að finna Everest og sjö aðra af hæstu tindum jarðarinnar. Enda sækir landið heim fjallgöngufólk frá öllum heiminum.  Himalajafjallgarðurinn teygir sig eftir endilöngum norðurhluta konungsríkisins Nepal. Fegurð og margbreytileiki náttúrunnar er óvíða meiri en meðal snæviþakinna tindanna. En um leið er maðurinn lítill þar andspænis hrikaleika jöklanna. Og Nepal er ekki bara fjöll og snjór og stórfenglegri tindar. Í suðri er að finna grónar sléttur þar sem hrísgrjónaakrar teygja úr sér og mangotré takast á við þéttvaxinn frumskóg. Í dalverpunum er hitabeltisloftslag.  Frá sléttunni og á leið upp á hæstu tinda verða á vegi ferðalangs krókódílar, musteri, snjóhlébarðar og kartöfluakrar. Hæðarmunurinn frá lægsta punkti landsins og upp á efstu tinda er ótrúlegir 8700 metrar. Og samt er landið aðeins um 120 kílómetra breitt.
Margbreytileiki náttúrunnar endurspeglast í fjölbreytileika mannlífsins. Í Nepal eru talaðar meira en 40 þjóðtungur. Hindúisminn er megin átrúnaður landsmanna. 85% Nepala eru hindúar. En í fjöllunum fylgja margir búddismanum í öllum sínu myndum og syðst á sléttunum er að finna múslíma. Íbúar landsins eru um 30.000.000 en 90 % þeirra búa á landsbyggðinni . Flestir búa við frumstæðar aðstæður og rækta hrísgrjón sér til matar. Eins og fólk hefur alltaf gert í Nepal.
Norðan Himalajafjallanna er Kína næsti nágranni en í suðri Indland. Nepal hefur í aldanna rás tekist að halda friðinn við þessa voldugu nágranna sína. Og um leið hafa bæði þessi heimsveldi sett mark sitt á menningu Nepal.
Nepal hefur upp á ótrúlega margt að bjóða. Ef þú elskar ævintýri, fallega náttúru og einstaka menningu, er Nepal landið þitt.


bhutan_butan_serferdir_serferdir_20.jpg

Bútan
Konungsríkið Bútan er afskekkt og einangrað land sem hvílir í faðmi Himalajafjalla, með stórveldin Indlandi í norðri og Kína í suðri. Um aldaraðir var landið algjörlega einangrað en hefur á síðustu áratugum opnast fyrir utanaðkomandi áhrifum þó að það haldi fast í allar sínar fornu hefðir. Land þrumudrekans, eins og Bútan heitir á heimamálinu, hóf ekki fyrr en á áttunda áratug síðustu aldar að hleypa útlendingum inn í landið. Konungsríkið gengur í erfðir og hefur Wangchuck-ættin ríkt þar frá 1907. Frá því í mars 2008 er þar þingbundið lýðræði með tveggja flokka ríkisstjórn.

Bútan er land sem kemur sífellt á óvart. Hér eru hrísgrjónin rauð á lit og chillipipar er ekki aðeins notaður sem krydd heldur sem aðalhráefnið í mat. Hér er búddisminn samofinn lífinu öllu og klaustrin jafn sjálfsagður hluti af lífinu og kjörbúðirnar í úthverfum Reykjavíkur. Eitt er þó öðruvísi og látið ykkur ekki bregða – risastórar reðurmyndir eru málaðar við útidyr margra heimila – sem verndar- og frjósemistákn. En þó að íbúarnir leggir mikla rækt við trú sína og það skíni alls staðar í gegn ber ekki að líta á Bútan sem lokað samfélag. Heimamenn eru vel að sér, vingjarnlegir, lífsglaðir og einstaklega gestrisnir.

Það er svo margt sem gerir það þess virði að leggja á sig ferðalag til Bútan. Í fyrsta lagi er það landslagið, þar sem snævi þaktir tindar Himalajafjallanna gnæfa yfir dimmum skógi vöxnum dölum og gljúfrum. En landslagið er oftar en ekki aðeins bakgrunnur fyrir stórfengleg musteri og klausturbyggingar sem taka að sér aðalhlutverkið. Hér er búddisminn samofinn öllu, byggingarlistinni, danshátíðunum og lífinu sjálfu. Ekki má gleyma vefnaðarlistinni, handverkinu, svakalegum bogfimikeppnum, háfjallagönguleiðum og undursamlegu dýralífi og gróði.

Ef hér er ekki fundin Paradís á jörðu – hvar þá?

Dagur Flug Staður Brottför Staður Dagur Koma
22.okt. SK  596 Keflavík 10:30 Köben 22.okt 15:35
22.okt. QR  164 Köben 22:35 Doha 23.okt 05:50
23.okt. QR  646 Doha 08:15 Kathmandu 23.okt. 15:25
28.okt. KB 4001 Kathmandu 09:25 Paro 28.okt. 11:10
04.nóv. KB 4000 Paro 07:00 Kathmandu 04.nóv. 08:25
04.nóv. QR  651 Kathmandu 20:35 Doha 04.nóv. 23:45
05.nóv. QR  179 Doha 01:10 Oslo 05.nóv. 06:35
05.nóv. SK 4787 Oslo 10:10 Keflavík 05.nóv. 12:05

Dagskrá og ferðatilhögun

Fimmtudagur 22. október
Brottför með SK 596 kl. 10:30 og lent í Kaupmannahöfn kl.15:35. Haldið áfram með Quatar Airlines, millilent í Doha og lent í Katmandu í Nepal kl. 15:25 næsta dag, eða 23.október.


nepal_og_butan_nepal_almennt.jpg

Föstudagur 23. október. Komið til Kathmandu
Á flugvellinum í Kathmandu bíður okkar rúta og leiðsögumaður síðan er ekið á hótelið okkar, Tibet International þar sem gist er um nóttina.


nepal_og_butan_temple_tiger.jpg

Laugardagur 24. október. Kathmandu - Chitiwan þjóðgarðurinn

Chitiwan þjóðgarðurinn, sem er á heimsminjaskrá UNESCO, er fyrsti og elsti þjóðgarður Nepal. Hann var áður kallaður Konunglegi Chitiwan þjóðgarðurinn. Hann var stofnaður 1973 en komst á heimsminjaskrá UNESCO árið 1984. Þjóðgarðurinn þekur yfir 932 ferkílómetra. Hann er að finna á sléttum Terai láglendisins í mið-suður Nepal, í Chitwan sýslu, þar sem hitabeltisloftslag er ríkjandi. Lægsti punktur þjóðgarðsins er í um 100 metra hæð yfir sjávarmáli, þar sem árnar hafa grafið sig niður í dölunum, en hann teygir sig upp í 815 metra í Churia hæðunum. 
Norðan og vestan við verndarsvæði þjóðgarðsins myndar vatnasvæði Narayani-Rapti fljótsins náttúruleg landamæri gagnvart mannabyggð. Næst þjóðgarðinum í austri er Parsa, verndarsvæði villtra dýra. Og suður af þjóðgarðinum er indverski tígrisþjóðgarðurinn Valmiki, sem er sérstakt verndarsvæði villtra tígrisdýra. Alls þekur Chitwan – Parsa – Valmiki verndarsvæðið í Indlandi og Nepal um 2000 ferkílómetra og með gresjunum og hitabeltisskógunum sem að því liggja, myndar svæðið í heild sinni 3500 ferkílómetra náttúruvin.

nepal_og_butan_temple_tiger_green_jungle_resort.jpg

Við gistum á Temple Tiger Green Jungle Resort sem er í Amaltarighat, nærri bökkum Narayana fljótsins og í 10 mínútna siglingarfjarlægð frá Chitwan þjóðgarðinum, 189 km suð-austur af Kathmandu og í 150 metra hæð yfir sjávarmáli.  Aðstaðan öll þar er hönnuð út frá umhverfinu og fellur vel að skóginum. Green Jungle Resort býður upp á 20 hús, einbýli og tvíbýli, með einkasvölum á hverju húsi, og er útsýni frá þeim yfir þjóðgarðinn. Innrétting öll og hönnun húsa er hugsuð út frá nepölskum þorpum og þorpsmenningu. Húsin eru smekklega skreytt í nepölskum stíl, með timburgólf og hnýtt nepölsk teppi á gólfum. Í hverju húsi er að finna notalega setustofu og stórt baðherbergi með heitu vatni sem er hitað með sólar rafhlöðum. Þök húsanna eru gerð úr stráum frá gresjunni sem er nærri og því falla húsin algerlega inn í umhverfi sitt. Frá veitingahúsi og borðsal Green Jungle Resort er gott útsýni yfir þjóðgarðinn og þar er líka hægt að njóta matar á stórum svölum sem snúa að þorpinu. Green Jungle Resort er einnig með notalega baraðstöðu, móttöku, bókasafn og lessal. Green Jungle Resort rekur eigin umhverfisvænan búgarð við hótelið þar sem allt grænmeti er staðurinn býður upp á er ræktað .

Hádegisverður er hlaðborð að hætti Nepal búa og eftir matinn förum við í fílasafarí og skoðum umhverfið. Ferðin tekur um tvær og hálfa klst.
Eftir safariferðina gefst tími til hvíldar og til að fá sér hressingu á barnum. Síðar um daginn er boðið upp á kynningu á dýrum og náttúru þjóðgarðsins í fyrirlestrarsal Green Jungle Resort fyrir þá sem vilja og gefst þá einnig tækifæri til spurninga.
Gisting á Temple Tiger Green Jungle Resort í 2 nætur.
Innifalið: Morgun-, hádegis- og kvöldverður.

nepal_og_butan_kathmandu.jpg

Sunnudagur 25. október. Ævintýralegur dagur í Chitiwan þjóðgarðinum
Eftir "continental "morgunverð er ekið að Narayana ánni og siglt með yfir. Þá tekur við jeppaferð að Temple Tiger Jungle Lodge. Þar fáum við stuttan fyrirlestur um fílana í þjóðgarðinum og eftir það er hádegisverður. Stutt gönguferð um frumskóginn, jeppasafarí, sigling á Narayana ánni og við sjáum safn og sýningu um Tharu menninguna í Nepal. Allir fá súpu í kvöldmatinn ásamt grillmat af hlaðborði. Gist á Temple Tiger Green Jungle Resort.
Innifalið: Morgun-, hádegis- og kvöldverður.


nepal_og_butan_boudhanath_stupa.jpg

Mánudagur 26. október. Chitiwan þjóðgarðurinn - Kathmandu
Frjáls morgunn og þeir sem vilja geta farið í stutta gönguferð eða í fuglaskoðun með náttúrufræðingi. 
"Continental" morgunverður áður en ekið er til Kathmandu og tékkað inná hótel Tibet International. Hádegisverður á leiðinni.

Síðdegis er skoðunarferð til að sjá hofin Pashupatinath og Boudhanath Stupa.
Eitt af helgustu líkneskjum hindúatrúar í heiminum, Pashupatinath, er staðsett við ánna Bagmati. Þetta tveggja hæða pagoda hús inniheldur helgistein eða lingam, frjósemistákn guðsins Shiva. Þrátt fyrir að hofið sé upprunalega frá 4. öld var það ekki komið í núverandi horf fyrr en snemma á 18. öld. Hofið er þekktast fyrir gullslegin þök og silfurslegnar dyr þess. Helgimenn og vitringar sem aðhyllast lífsstíl guðsins Shiva sjást ganga um þaktir ösku og lendarskýlum. Árbakkar Bagmati eru taldir einn helgasti staðurinn fyrir líkbrennslur og þar má sjá slíkar athafnir. Þess er óskað að allir ferðamenn sýni hinum syrgjandi virðingu.

Boudhanath Stupa er eitt af stærstu hugleiðsluhofum (stupa) í heimi. Það sem er einstakt við þetta búddakennileiti er að lögun þess er átthyrnd mandala. Hundruð bænahjóla og 108 myndir af Búdda eru dreifðar um þessa gríðarstóru byggingu og gera hana enn glæsilegri. Talið er að hofið hafi verið byggt á 5. öld og sagan segir að þar séu jarðneskar leifar vitringsins Kasyap Rishi sem haldið er upp á bæði í hindúatrú og í búddatrú. Annað sem er einkennandi fyrir svæðið er að í grennd við hofið eru tæplega 50 klaustur. Það stendur í um átta kílómetra fjarlægð frá borginni og er enn eitt búddalíkneskið í dalnum sem er eitt af þeim stærstu sinnar tegundar í Asíu.
Innifalið: Morgun-, hádegis- og kvöldverður.


nepal_og_butan_kathmandu_swayambhunath_stupa.jpg

Þriðjudagur 27. október. Dagur í Kathmandu
Durbar torgið í Kathmandu var staðurinn þar sem konungar borgarinnar voru krýndir og tóku við stöðu sinni. Þar bjuggu þeir einnig og stýrðu ríki sínu þaðan en orðið Durbar þýðir höll. Segja má að torgið sé hjarta gamla bæjarins og stórkostlegasta byggingarlistaverk Kathmandu. Helstu menningarminjar Nepal eru staðsettar í eða í kringum Kathmandu dalinn en ein af þeim mikilvægustu er Durbar torgið sem oft er kallað Hanuman Dhoka Durbar Square.
Nafnið Hanuman Dhoka Durbar fær torgið frá styttunni af Hanuman sem Pratap Malla konungur kom fyrir við inngang konungshallarinnar árið 1672. Torgið er staðsett í hinum forna hluta Kathmandu og bæði hindú- og búddahof eru í grenndinni. Flestar byggingarnar eru frá 15. og 16. öld og byggðar í „pagoda“ stíl með fallegum gluggum og nákvæmlega útskornum úthliðum. Durbar torgið gefur góða innsýn í trúar- og menningarlegt líf fólks á svæðinu því þar eru fjölmörg hof og hallir. Torgið komst í heild sinni á heimsminjaskrá UNESCO árið 1979.
Næst er förinni haldið áfram að skoða Swayambhunath Stupa (Apahofið).
Á lágreistri hæð í um þriggja kílómetra fjarlægð frá Kathmandu rís gylltur spírall upp úr skóglendinu. Swayambhunath er eitt af helgustu búddahofunum (chaitya) í Nepal. Háreist, hvítt hvolfþakið og gylltur turninn sjást í margra kílómetra fjarlægð og hvaðan sem er í dalnum. Swayambhu þýðir í raun og veru „hið sjálfstæða“ en hofið er einnig þekkt sem „Apahofið“ meðal alþjóðlegra gesta. Þetta er frábær staður til að njóta útsýnisins yfir borgina.
Eftir hádegisverð er farið til borgarinnar Patan.
Stórborgin Lalitpur er staðsett í um 5 km fjarlægð frá Kathmandu en sögulega er borgin kölluð Patan. Þetta er þriðja stærsta borgin í Nepal á eftir Kathmandu og Pokhara. Patan er frábær áfangastaður fyrir þá sem kunna að meta fallega list því þar eru 55 stór hof, 136 búddaklaustur, falleg málmvinnsla og þar eru haldnar fjölmargar hátíðir.
Í hjarta borgarinnar er Patan Durbar Square sem er fullt af fornum höllum, hofum með fallega glugga, baðhús, hindúa- og búddastyttur, útskornar myndir og bronsristur. Höll Malla konunganna er eitt af merkilegustu kennileitum í Patan en innan hallargarðsins er steinhof guðsins Krishna („Krishna Mandir“). Hofið er með 21 spíru en þær eru útskornar með myndum af goðsögnum Mahabharata og Ramayana. Hofið var byggt af konungnum Siddhi Narasingha Malla á 16. öld. Konunglega baðhúsið („Tushahity“) er önnur bygging sem vekur athygli í hallargarðinum enda er það byggt úr fallegum útskornum steini og bronsi.Patan Durbar torgið er eitt af sjö kennileitum í Kathmandu dalnum sem hafa sameiginlega verið sett á heimsminjaskrá UNESCO. Við torgið er líka Patan Museum þar sem eru bronsstyttur og trúarlegir munir sem sumir hverjir ná aftur til 11. aldar.
Þjóðlegur kvöldverður og sýning á veitingastað.
Innifalið: Morgun-, hádegis- og kvöldverður.


nepal_og_butan_patan_torg.jpg

Miðvikudagur 28. október. Katmandu - Paro - Timfú
Eftir morgunverð er ekið á flugvöllinn og flogið til Paro í Bútan. Flogið er með flugfélaginu Druk Air sem er flugfélag í eigu Konungsríkisins.
Brottför flugs KB 4001 er kl. 09:25 og áætluð lending í Paro kl.11:10. Ekið til Timfú en þangað eru 60km. Flugferðin til Bhutan er ævintýri líkust því að útsýnið á leiðinni einstakt ef skyggni er gott. Erfitt er að komast betur í tæri við Himalajafjöllin. Við komuna tekur erlendur staðarleiðsögumaður á móti hópnum og haldið er beint til Timfú þar sem við fáum okkur tea áður en frjáls tími gefst til að skoða sig um í bænum.
Kvöldverður og gisting á hótel Druk í Timfú næstu 2 nætur.
Hæð yfir sjávarmáli: 2.400 metrar
Innifalið: Morgun og kvöldverður.


nepal_og_butan_butan_stigur_i_paro.jpg

Fimmtudagur 29. október.Timfú
Hefjum daginn á að skoða Landsbókasafnið, Listaskólann, hefðbundinn ríkis rekinn spítala og förum að Minningarmusterinu.  Förum síðan að Tashichodzong-kastalanum og í Handverksmiðstöðina.
Hæð yfir sjávarmáli: 2.400 metrar
Innifalið: Morgun-, hádegis- og kvöldverður


bhutan_butan_serferdir_serferdir_22.jpg

Föstudagur 30. október.Timfú - Punakha
Að morgunverði loknum er ekið til Punakha en aksturinn tekur u.þ.b. 3 klst.  Á leið okkar munum við aka upp í Dochu-la-skarðið í 3.088 metra hæð og njóta útsýnisins yfir tinda Himalajafallgarðsins í norðvestri. Það fer þó eftir veðri hversu mikið af fjallgarðinum sést. Síðan munum við halda yfir hrísgrjónaakrana að musterinu sem kennt er við hinn guðdómlega brjálæðing, en er einnig kallað frjósemismusterið. Þá ökum við inn í Punakha-dalinn og innritum okkur á hótelið.
Kvöldverður og gisting á hótel RKPO Green Resort í tvær nætur.
Hæð yfir sjávarmáli: 1.300 metrar
Innifalið: Morgun-, hádegis- og kvöldverður


bhutan_butan_serferdir_serferdir_13.jpg

Laugardagur 31. október. Punakha
Dagurinn byrjar á gönguferð sem liggur eftir fallegri leið upp að konunglega Khamsum Yuelley Namgel musterinu sem reist var í þeim tilgangi að bægja frá neikvæðum öflum og stuðla að friði, stöðugleika, sátt og samlyndi í síbreytilegum heimi. Útsýnið frá musterinu þar sem það gnæfir yfir Punakha-dalnum er stórbrotið, yfir Mo Chhu eða Móðurána, og upp til fjallstoppanna í Gasa og tindanna handan þeirra.  
Förum í fljótasiglingu niður til Mochu þar sem við borðum hádegisverð.
Þegar allir eru orðnir saddir liggur leiðin í Paro Dzong-virkið, sem byggt var árið 1646 af Shapdrung Ngawang Namgyal, stofnanda Bútanríkis.
Hæð yfir sjávarmáli: 1.300 metrar
Innifalið: Morgun-, hádegis- og kvöldverður


bhutan_butan_serferdir_serferdir_6.jpg

Sunnudagur 1. nóvember. Punakha - Paro
Eftir morgunverð ökum við að bænum Wangdi. Við skoðum bæinn ásamt Wangdi kastala sem er þriðji elsti kastalinn í Bhutan. Kastalinn var byggður árið 1638 en brann illa árið 2012 en hefur nú verið endurbyggður.
Frá Wangdi höldum við áfram til Paro þar sem við munum snæða hádegisverð. Eftir matinn er farið í þjóðminjasafnið og við sjáum virkið í borginni.
Síðan verður boðið upp á tea inn á bútönskum bóndabæ og farið í gönguferð um miðborgina.
Hæð yfir sjávarmáli: 2.200 metrar.
Gisting á hótel Himalayan Keys Forest í 3 nætur.
Innifalið: Morgun-, hádegis- og kvöldverður


nepal_og_butan_taktshang_klaustur.jpg

Mánudagur 2. nóvember. Paro
Í dag göngum við upp að hinum merka helgistað og musteri Tigers Nest sem staðsett er ofarlega í dal Paro.  Musterið var fyrst reist árið 1692 utan um helli þar sem Guru Padmasambhava er sagður hafa hugleitt í þrjú ár, þrjá mánuði, þrjár vikur, þrjá daga og þrjár klukkustundir á 8. öld.  Á leið okkar til baka til Paro, fáum við hádegisverð. Frjáls tími síðdegis.
Innifalið: Morgun-, hádegis og kvöldverður
 
 


nepal_og_butan_butan_stigur_i_paro.jpg

Þriðjudagur 3. nóvember. Paro - Haa - Paro
Eftir morgunverð munum við aka til bæjarins Haa sem hefur nýlega verið opnaður fyrir ferðamenn.  Á leið okkar munum við fara yfir Pelela skarðið sem er eitt hæsta skarð í Bútan.  Gaman er að ganga um þennan forna bæ sem innlendir sagnfræðingar halda fram að hafi að geyma mikilvægustu musterin sem kölluð eru Svarta og Hvíta musterið og voru byggð á sama tíma á 7. öld.  Snæddur verður hádegisverður áður en haldið verður til baka til Paro.
Innifalið: Morgun-, hádegis og kvöldverður


nepal_og_butan_almennt.jpg

4. nóvember. Flug frá Paro til Katmandu og áfram heim
Eftir snemmbúinn morgunverð á hótelinu er ekið út á flugvöll, þaðan sem flogið er til Katmandu. Brottför flugs KB 4000 er kl. 07:00 og áætluð lending í Kathmandu er kl. 08:25.
Ekið á hótel Tibet International.

Eftir hádegi:
Við förum í heimsókn í Kapan klaustrið, sem er bæði nunnu- og munkaklaustur. Þar er borinn fram hádegisverður að hætti heimamanna og boðið upp á kennslu í matargerð Nepalbúa. Tækifæri gefst til að heilsa upp á munkana.
Kapan klaustrið er að finna norðan við hina frægu Boudhanath stúpu. Klaustrið er rekið samkvæmt hefð hins tíbetíanska Mahajana búddisma - sem kallast stóri vegurinn á íslensku Frá klaustrinu er stórkostlegt útsýni yfir borgina. Þar búa 360 munkar, lamar eða kennarar og aðrir starfsmenn sem komnir eru frá bæði Tíbet og Nepal.
Það var lamann, eða fræðimaðurinn, Thubten Yese sem stofnaði munkaklaustrið og er klaustrið helgað hugmyndafræði hans sem gengur út á að hjálpa öllum lifandi verum að öðlast andlegan þroskast og finna sinn eigin innri kraft.
(Tekið skal fram að klaustrið getur verið lokað með litlun fyrirvara þegar hugleiðsluhátíðir standa yfir og er þá farið í heimsókn í önnur svipuð klaustur þess í stað).
Kapan nunnuklaustrið var sett á fót fyrir um tuttugu árum.  Einnig það fylgir kenningu og hugmyndafræði Thubten Yese. Mikil fjölgun hefur orðið í klaustrinu á undanförnum árum enda eru fá nunnuklaustur rekin í Nepal og á Indlandi og erfitt að komast að. 30 nunnur ganga í klaustrið á hverju ári. Helmingur þeirra eru munaðarlausar og fjölskyldulausar stúlkur.
Eftir heimsóknina í klaustrið höldum við aftur á hótelið.
Frjáls tími þangað til við höldum á alþjóðaflugvöllinn. Við brottför frá hótelinu mun khada, eða helgur maður klæddur hefðbundnum þjóðbúningi Nepalbúa, kveðja gesti með fararblessun

Síðdegis er ekið á flugvöllinn og flogið með Quatar Airways kl. 20:35 til Doha og áfram um Oslo til Keflavíkur, en þar er áætluð lending kl. 12:05 þann 5.nóvember.

Sjá nánari ferðalýsingu

Frestað um ár

Fyrirhuguð ferð á sama tíma á næsta ári. Vinsamlega hafið samband til að fá nánari upplýsingar. Hægt er að senda okkur tölvupóst á [email protected] eða hringja í síma 570-4444.

Hafa samband
  • Hagnýtar upplýsingar

  • Verð og innifalið

Gististaðir

Kort

Sjá alla gististaði
  • Veðrið

  • Flugtími

    Kef KTM

    10 KLST

    Morgunflug

Sjá Kortasýn Sjá gististaði

Við notum vefkökur (e.cookies) t.d. til að greina umferð um vefinn og til að bæta upplifun notanda á síðunni. Með því að halda áfram að vafra um síðuna samþykkir þú vefkökuskilmála VITA

Nánari upplýsingar um vefkökunotkun