fbpx Egyptaland - fljótasigling á Níl | Vita

Egyptaland - fljótasigling á Níl

Vafið dulúð náttúru og sögu

UPPSELT

Þessi ferð er uppseld. Vinsamlegast hafið samband til að fá nánari upplýsingar. Hægt er að senda okkur tölvupóst á info@vita.is. Síminn er 570-4444.

Hafa samband

Myndagallerí

Egyptaland - sigling á Níl

Kairó - Luxor - Aswan - Abu Simbel - Alexandría
4. - 17. október

Fararstjóri: Sr. Þórhallur Heimisson

Að ferðast til Egyptalands er að halda á vit menningar sem teygir sig meira en 5000 ár aftur í tímann og er jafn fjölbreytt eins og landslagið og náttúran og umhverfið sem hana mótaði og mótar enn. Um leið er egypska menningin jafn lifandi og spennandi og margbreytileg í dag eins og hún hefur verið um aldir.
Hér er að finna Pýramídana, musteri Faraóana, Egypska safnið í Kaíró, dal konunganna í Luxor, ánna Níl, múslíma, koptísku kirkjuna, ægifagra eyðimörkina og markaðina þar sem öllu ægir saman, en í Egyptalandi búa í dag um 100.000.000. Hér eru fornminjar á hverju götuhorni og undir hverjum steini. Frá Egyptalandi komu margar sögupersónur bæði Biblíunnar og Kóransins. Á meðan Evrópubúar lifðu í hellum, veiddu með steinöxum og vöfðu sig dýrafelldum til hita, blómstraði hin forna menning Egypta. Stórkostlegar hallir, musteri og hof voru reist guðunumm til dýrðar, til að viðhalda skipulagi heimsins og til að leiðbeina sálunum á leið til dauðraríkisins -  og myndletrið færði sögur og helgisagnir Egypta á papýrus.

egyptaland_pyramidar.jpg  

Níl var virkjuð og áveituskurðir grafnir til að vökva frjósamt landið. Hingað streymdi auður í árþúsundir. Á siglingu um Níl gefst ferðalang tækifæri til að upplifa leyndardóma landsins og til að hoppa í land og skoða musterin í Edfu, Luxor og stórvirki Ramsesar II faraós við Abu Simbel – að ekki sé minnst á hinar rómversku menjar, en Júlíus Sesar lagði Egyptaland undir Róm og breytti því í matarkistu heimsveldisins um aldir. Hér var Gamla testamentið fyrst þýtt á grísku fyrir eitt elsta samfélag gyðinga í heiminum utan Ísrael. Hér er að finna kjarnaland hinnar kristnu menningar. Frá Al Qahira – Kaíró – Hinni sigursælu borg – ríktu kalífarnir yfir óendanlegu heimsveldi. Tyrkir, Frakkar, Bretar, Þjóðverjar, allir börðust þeir um Egyptaland og reyndu að ríkja yfir því.
Og þannig mætti lengi telja. En umfram allt er Egyptaland vafið dulúð náttúrunnar, ægifagurt, allt frá kóralrifum Rauða hafsins til óendanlegra tindrandi vídda eyðimerkurinnar þar sem tíbráin lyftir landinu og himinn og jörð verða eitt.

egyptaland_loftbelgur.jpg 

Föstudagur 4. október.  Keflavík - Kairó.
Flogið frá Íslandi kl. 10:50 og millilent í London. Komið til Kaíró kl. 23:20 þar sem egypskur leiðsögumaður tekur á móti okkur og fylgir okkur á hótelið. Við gistum á hóteli við flugvöllinn þessa fyrstu nótt þar sem við leggjum af stað í býtið næsta morgun og fljúgum til Luxor.
Máltíðir: M

egyptaland_luxor_hof_obeliskur.jpg 

Laugardagur 5. október.  Kairo - Luxor. 
Vöknum eldsnemma og fljúgum síðan beint í flug til Lúxor en flugið tekur um eina klukkustund.  Frá flugvellinum í Luxor er ekið niður að ánni Níl þar sem borinn verður fram morgunverður á veitingastað með útsýni yfir ána. Við hvílumst þar þangað til tími er kominn til að stíga um borð í H/M Sonesta Moon Goddess sem er kl. 11:00. Við komum okkur vel fyrir í káetunum, skoðum farkostinn og borðum hádegisverð um borð. Sigling á Níl, lengsta fljóti í heimi, er ein dásamleg til að skoða leyndardóma Egyptalands sem allstaðar eru örskotsferð frá árbakkanum. Um leið er sjálf siglingin einstök upplifun sem erfitt er að koma í orð. Eftir hádegisverð ökum við að hinum frægu musterum í Lúxor og Karnak. Í Karnak er að finna einstakt svæði mustera og einsteinunga sem voru helguð Faraóunum, fornkonungum Egypta, og hinni svokölluðu Thebísku þrenningu. Háguðir hennar voru Amun, kona hans Mu og sonur þeirra Mut. Amun var sólguðinn, tilbeðinn sem Amun-Ra, Mu var gyðja jarðarinnar og Mut, tunglguðinn. Dýrð Karnak var sem mest á öldunum frá því um 1500 f.kr og fram undir 1200 f.kr. Musterissvæðið þekur um 2 ferkílómetra. Frægasta musterið er musteri Amun-Ra. Lúxor musterið er byggt af faraóunum Amenhotep og Ramses II sem voru uppi um 1400-1200 fyrir Krist. Líklegast er Ramses II sá sem Móses og gyðingar glímdu við forðum daga. Þær byggingar sem Amenhotep og Ramses II byggðu eru reistar á mun eldri grunni og haldið var áfram að byggja við musterissvæðið allt fram á daga Rómverja. Lúxor og Karnak tengjast með hinni svokölluðu “Breiðgötu Sfinxana”. Heimsókn til Lúxor og Karnak er eins og að ferðast í tímavél þúsundir ára aftur í tímann.Eftir skoðunarferðir dagsins höldum við aftur um borð í skipið og borðum þar kvöldverð. Gist er við bryggju.
Máltíðir: M,H,K

egyptaland_luxor.jpg 

Sunnudagur 6. október. Luxor - Dalur konunganna og siglt til Edfu.
Að loknum morgunverði um borð höldum við yfir á Vestur bakka Nílar við Lúxor. Vestur bakki Lúxor var einn helsti grafreitur faraóanna allt frá því um 2100 fyrir Krist, en það voru faraóar Nýja ríkisins svokallaða, um 1500 – 1000 fyrir Krist, sem gerðu hinn einangraða dal við fjallið Al Qurn, eða Hornið, að sínum hinnsta dvalarstað. Þaðan kemur hið fræga nafn hans “Dalur konunganna”.  Í dalnum er að finna 63 stórkostleg konungleg grafhýsi frá tímum Nýja ríkisins. Þar á meðal er hin frægu grafhýsi faraóanna Tutankhamun, Set I. og Ramsesar VI. Við munum einnig skoða grafhýsi Hatshepsut við Deir el-Bahir, en það er eitt glæstasta grafhýsi Egyptalands hins forna.  Hatshepsut var kona sem ríkti sem faraó um 1480-1460 fyrir Krist. Við kveðjum síðan Dal konunganna, höldum um borð í skipið þar sem bíður okkar hádegisverður, og hefjum síðan siglinguna niður Níl. Um borð njótum við þess sem fyrir augu ber, snæðum kvöldverð og endurnærumst.
Áfram er siglt um nóttina til Edfu.
Máltíðir: M,H,K

egyptaland_dalur konunganna_hof.jpg 

Mánudagur 7. október. Skoðunarferð um Edfu - siglt til Kom Ombo og áfram til Aswan.
Eftir morgunverð er haldið í land við Edfu sem er um 60.000 manna borg á bökkum Nílar. Þar nærri er musteri Hórusar, sólarguðsins. Þangað er ferðinni heitið og ferðast er á hestvögnum. Hórus var sonur Ósírisar og Ísisar, æðstu guða Egypta til forna, og frá honum eru komin verndaraugun sem finna má sem skartgripi um allt austanvert Miðjarðarhaf. Byrjað var að reisa musterið um 230 fyrir Krist eftir að hinir grísku Ptolomear tóku völd í Egyptalandi og því var ekki lokið fyrr en á valdatíma Kleópötru. Er þetta eitt best varðveitta musteri Egyptalands. Það stendur eins og mörg önnur á rústum eldri mustera. Á svæðinu hafa fundist leyfar pýramída sem eru 5000 ára gamlir og enginn veit til hvers voru reistir.
Deginum lýkur með kvöldverði um borð í skipinu á meðan siglt er áfram til Aswan þar sem lagt er að bryggju um nóttina.
Máltíðir: M,H,K

egyptaland_aswan_nil.jpg 

Þriðjudagur 8. október.  Aswan, stíflan mikla á Níl og Philea eyja.
Aswan borg stendur við Aswan stífluna, sem reist var  á árunum 1960 – 1970 til að ná stjórn á árlegum flóðum Nílar. Aswan er einn heitasti og þurrasti staður á jarðríki. Borgin sjálf er iðandi verslunarborg með mörkuðum og veitingahúsum og gefst hér einstakt tækifæri til að skoða líf heimamanna. Sjálf stíflan er gríðarlegt mannvirki, 4000 m löng, 980 m breið og 111 metra há. Stífluvatnið sem kennt er við Nasser forseta færði stóran hluta neðri Núbíu undir vatn og 120.000 manns voru fluttir frá heimkynnum sínum vegna þessara framkvæmda. Núbía var hið forna meningarríki sem stóð milli Egyptalands og Súdan. Að loknum morgunverði um borð kveðjum er farið frá borði með farangurinn og haldið í skoðunarferð upp að Aswan stíflunni miklu. Komið er í Ísis musterið á Philea eyju, en það er frá því um 200 fyrir Krist. Þar er að finna Philae einsteinunginn með egypskum híróglýfum, eða myndleri, og grískum texta, sem varð til þess, ásamt Rosettu steininum svokallaða, að hægt var að þýða hið forna táknmál Egypta.
Kvöldverður og gisting á hótel Mövenpick Resort í Aswan.
Máltíðir: M,K

egyptaland_2.jpg 

Miðvikudagur 9. október  - Aswan og sigling með seglbátum, Feluccha
Hálf dags sigling með Feluccha seglbátum. Komið er við á á Fílaeynni þar sem er að finna forn musteri, meðal annars leyfar af elstu pýramídum Egyptalands frá því um 3000 fyrir Krist.
Njótum dagsins  og andrúmsloftsins í þessum hluta Egyptalands áður en prógrammið í Kairó og Alexandríu tekur við.
Gisting á hótel Mövenpick Resort í Aswan, en kvöldverður á eigin vegum
Máltíðir: M

egyptaland_abu_simbel.jpg 

Fimmtudagur 10. október.  Afslöppun í Aswan eða ferð að Abu Simbel
Slökun í Aswan, en einnig er hægt að kaupa sér ferð að musterissvæðinu við Abu Simbal með fararstjóranum. Slíka ferð þarf að greiða sérstaklega.Við Abu Simbal gefst tækifæri til að skoða hin ægifögru musteri Nefertiti drottningar og Ramsesar II sem fundust um 1813. Þá voru þau næstum alveg hulin sandi. Árið 1960 voru musterin flutt í heilu lagi og staðsett þar sem þau nú eru, til að bjarga þeim undan hækkandi vatni Nílar þegar Aswan stíflan var byggð. Það  var Ramses II sem lét byggja musterin um 1200 fyrir Krist.
Skoðunarferðin kostar 39.500 kr og þarf að bóka um leið og ferðina.
Innifalið í ferðinni er: Akstur til og frá flugvelli, flug milli Aswan og Abu Simbel, aðgangseyrir, staðarleiðsögumaður í Abu Simbel og íslensk fararstjórn. Flugið tekur 45 mínútur,
Kvöldverður og gisting á hótel Mövenpick Resort í Aswan
Máltíðir: M,K  

 

egyptaland_nil_falukas.jpg 

Föstudagur 11. október.  Aswan - Kairo - Egypska safnið.
Kairó er höfuðborg Egyptalands og 15 stærsta borgarsvæði í heimi, með um 18.000.000 íbúa. Sú borg sem nú stendur var gerð að höfuborg undir veldi Fatamida, árið 969, en var það löngum fyrr einnig. Borgin varð snemma miðstöð  kristninnar og hélt því allt til ársins 640 þegar múslímar lögðu hana undir sig. Enn er að finna stórt samfélag kristinna í Egyptalandi, eða um 8% íbúanna. 
Frá Aswan er flogið tilbaka til Kaíró og leiðin liggur á Egypska safnið, í Múhameð Ali moskuna og á Khan el Khalili basarinn, sem er einn sá stærsti í Miðausturlöndum.
Kvöldverður og gisting á hótel Conrad í Kairó.
Máltíðir: M,H,K

egyptaland_tut_ank_amon.jpg 

Laugardagur 12. október.  Kairó - Alexandria
Eftir morgunverð í Kairó skráum við okkur út af hótelinu og ökum til Alexandríu, hinnar fornu höfuðborgar Egyptalands, þar sem við skoðum menjar frá tímum Rómverja, meðal annars súlu Pompeiusar og katakomburnar. Alexandría er önnur stærsta borg Egyptalands og er hafnarborg landsins. Hún var höfuborg í ein þúsund ár. Þar var að finna tvö af undrum veraldar, bókasafnið í Alexandríu og vitann mikla við hafnarmynnið. Alexandría var einnig háborg kristninnar um 600 ára skeið og þar var að finna eitt stærsta samfélag gyðinga utan Jerúsalem. Þar er einnig að finna stórkostlegar hvítar strandlengjur og iðandi mannlif. Skráum okkur inná hótel Hilton Alexandria Corniche þar sem við borðum kvöldverð.
Gistum þar í tvær nætur.
Máltíðir: M,H,K 

egyptaland_alexandria_1.jpg 

Sunnudagur 13. október.  Alexandria
Deginum er varið í að heimsækja bókasafnið í Alexandríu og El Montazah höllina. Bókasafnið forna var endurborið árið 2002 þegar núverandi bókasafns bygging var tekin í notkun. Bókasafnið er einstök bygging sem hýsir fjölmörg söfn, listasmiðjur, vísindastofur. Margt er þar í boði og hægt að upplifa söguna og listina á lifandi og einstakan hátt. Við heimsækjum einnig El Montazah höllina, en hún var byggð yfir konungsfjölskylduna árið 1892. Garðar hallarinnar eru opnir almenningi. Höllin sem er byggð í tyrkneskum og feneyskum stíl hýsir mikið safn dýrgripa konungsins og sýnir vel ríkidæmi hans
Kvöldverður og gisting í Alexandríu.
Máltíðir: M,H,K

egyptaland_alexandria_2.jpg  

Mánudagur 14. október.  Alexandria - Kairó
Við borðum morgunverð og skráum okkur aftur út af hótelinu. Eftir hádegisverð ökum við aftur til Kairó þar sem hægt er að hvíla sig í sundlaugargarði hótelsins.
Sigling með kvöldverði á Níl og gist í Kairó.
Máltíðir: M,H,K

 egyptaland_pyramidar.jpg

Þriðjudagurinn 15. október.  Kairó - Pýramídarnir í Giza, Memfis og Sakkara
Að loknun morgunverði er komið að einum af mörgum hápunktum ferðarinnar, Pýramídunum og Sfinxinum í Gísa.  Pýramídarnir standa á Gísa sléttunni um 13 kílómetrum frá miðborg Kairó. Þeirra frægastir eru Keops, Kefran og Mykerinos pýramídarnir. Þetta eru stærstu byggingar sem hafa verið reistar og stærstur þeirra og þekktastur er Keops pýramídinn, byggður um 2500 árum fyrir Krist, eða fyrir 4500 árum. Hann var eitt af sjö undrum veraldar til forna og það eina þeirra sem enn stendur. Sfinxinn stóri var reistur á svipuðum tíma, en hann er byggður úr sandsteini, með ljónslíkama og manshöfuð. Undir lok skoðanaferðarinnar lítum við inn á verkstæði sem framleiðir papýrus og ilmvötn að fornum sið. Eftir hádegisverð heimsækjum við hina fornu höfuðborg í Memfis sem er um 10 km fyrir sunnan Kairó. Þar skoðum við meðal annars Sakkara pýramídan sem þar stendur, eða Tröppupýramían. Þar er einnig að finna fjölmargar aðrar grafir og pýramída, en staðurinn var grafreitur Faraóanna í ein 3000 ár. Sakkara pýramídinn er elsta varðveitta bygging í heimi, reistur um 3000 fyrir Krist.
Gisting í Kairó, kvöldverður á eigin vegum.
Máltíðir: M,H

egyptaland_1.jpg   

Miðvikudagur 16. október  - Kairó
Frjáls dagur í Kairó, en Sr. Þórhallur gæti fundið uppá einhverju skemmtilegu.
Kvöldverður á hóteli
Máltíðir: M,K

Fimmtudagurinn 17. október.
Að loknum morgunverði kveðjum við, höldum á flugvöllinn og fljúgum heim. Flogið er kl. 08:00, millilent í London og komið heim

Sjá nánari ferðalýsingu

UPPSELT

Þessi ferð er uppseld. Vinsamlegast hafið samband til að fá nánari upplýsingar. Hægt er að senda okkur tölvupóst á info@vita.is. Síminn er 570-4444.

Hafa samband
 • Veðrið

 • Flugtími

  Kef CAI

  10

  Morgunflug

 • Gjaldmiðill

  EGP

  Egypskt pund

  Gengi

Gististaðir

Kort

Sjá alla gististaði
Sjá Kortasýn Sjá gististaði

Við notum vefkökur (e.cookies) t.d. til að greina umferð um vefinn og til að bæta upplifun notanda á síðunni. Með því að halda áfram að vafra um síðuna samþykkir þú vefkökuskilmála VITA

Nánari upplýsingar um vefkökunotkun