Eyjahopp - grísku eyjarnar
Njóttu lífsins á grísku eyjunum
Myndagallerí
Eyjahopp um Grísku eyjarnar
Krít (Heraklion – Knossos – Chania) – Naxos – Mykonos – Delos – Koufonisia – Santorini
26.maí - 9. júní 2023
26. maí - Morgunflug með Icelandair til Chania. Eftir komu er ekið til Heraklion þar sem við dveljum í 3 nætur. Stoppað rétt fyrir utan bæinn Rethymnon þar sem við fáum okkur kvöldverð áður en farið verður á hótelið í Heraklion.

27. maí - Eftir morgunmat keyrum við í smástund norður fyrir bæinn þar sem höllin í Knossos stendur. Þar skoðum við þessa frægu höll sem er yfir 4000 ára gömul og var grafin upp um aldamótin 1900. Við sjáum herbergi konungs og drottningar, stiga, geymslur, veggmyndir og meira að segja skolpleiðslur. Eftir smá hvíld keyrum við til baka til höfuðstaðarins þar sem við skoðum fornminjasafnið, sem er eitt af fallegri söfnum í Grikklandi, en þar eru aldagamlir dýrgripir úr mínósku höllunum á Krít geymdir. Eftir heimsókn á safnið röltum við um gamla feneyska miðbæinn og fáum okkur hádegisverð á veitingastað nálægt höfninni.

28. maí – Frjáls dagur til að kynnast betur þessum líflega höfuðstað Krítar. Grískir og alþjóðlegir veitingastaðir eru út um allt auk kaffistaðanna sem á kvöldin lifna við og verða að fjörugum skemmtistöðum. Úrval verslana er að finna í borginni og í 20 mínútna göngufæri frá hótelinu er strönd þar sem hægt er að sleikja sólina.
29. maí – Árla morguns siglum við frá Heraklion til Santorini og komum þangað upp úr hádegi. Rúta ekur okkur á hótelið okkar í Firostefani þar sem við komum okkur fyrir. í eftirmiðdaginn förum við svo í göngutúr um Firostefani og til miðbæjarins í Fira þar sem við fáum okkur kvöldverð. Á Santorini dveljum við í 2 nætur.

Santorini er eyja sem löngum hefur verið kölluð hin fegursta í heimi. Eyjan eins og hún er í dag myndaðist í miklu sprengigosi árið 1628 f.kr., þegar helmingur eyjarinnar sökk í sæ og myndaði gíg sem er með þeim stærstu sem af er vitað. Innsiglinginn í gegnum gíginn er ógleymanleg því útsýnið upp á land er stórfenglegt þar sem tveir stærstu bæjirnir hanga utan í gígbarminum. Eyjan er fræg fyrir stórkostlegt landslag, forna sögu, þ.á.m. bæinn Akrótiri sem hvarf undir ösku í sprengigosinu mikla, og hellahúsin sem byggð eru inn í klettinn og virðast hanga í lausu lofti.

30. maí - Skoðunarferð um eyjuna. Við leggjum í hann eftir morgunverð og byrjum á því að skoða fornu borgina Akrótíri, sem grófst undir ösku frá gosinu fræga á 17. öld f.kr. alveg eins og Pompei 18 öldum síðar. Þar göngum við um götur og torg og sjáum tveggja og þriggja hæða hús sem hýstu heimili, verkstæði og verslanir. Ótrúlegur staður sem lætur engan ósnortinn. Frá Akrótiri förum við út á Akrótiri tangann þar sem við fáum okkur hádegismat að hætti Santorinibúa. Þaðan keyrum við til bæjarins Oia sem oft er kallaður perla Eyjahafsins. Þar eru göturnar mjóar og hellulagðar og húsin í táknrænum Eyjahafsstíl hanga utan í gígnum og eru eins og hrúguð hvert ofan á annað. Við gefum okkur góðan tíma til að rölta um göturnar og út að feneysku kastalarústunum þaðan sem er frábært útsýni yfir bæinn og gíginn. Komum til baka í eftirmiðdaginn.
31. maí – Siglt frá Santorini til Naxos og tekur siglingin um 2 klst. Við komum okkur fyrir á hótelinu og í eftirmiðdaginn förum við í skoðunarferð um bæinn og röltum um mjóu göturnar í gömlu virkisborginni. Við sjáum einnig hurðarkarminn fræga sem stendur á litlum tanga við bæinn. Eftir góða göngu setjumst við á fallegan stað í gamla bænum og borðum kvöldverð. Á Naxos dveljum við í 5 nætur.

NAXOS er ein af eyjunum í svokölluðum Hringeyjaklasa í miðju Eyjahafinu. Naxos á sér langa sögu, en þar settust Krítverjar að fyrstir manna og það er kannski þess vegna sem eyjan minnir um margt á Krít. Eitt helsta dæmið um um forna frægð eyjunnar er stór og mikill hurðarkarmur úr marmara sem stendur við innsiglinguna, það eina sem eftir er af hofi Appollós frá 6. öld f.kr.
Yfir bænum um gnæfir einnig virki frá tímum Feneyjamanna og í virkishverfinu eru sjarmerandi mjó bogagöng og litlir inngarðar sem hýsa verslanir og veitingastaði.
Stutt er á fallega strönd er í næsta nágrenni við bæinn og dásamleg lífsreynsla er að fara með rútu upp í sveitaþorp eyjarinnar þar sem er eins og lífið hafi staðið í stað í áratugi. Naxos er fræg fyrir hlýtt viðhorf og frábæra gestrisni íbúanna sem taldir eru matreiða besta mat í Grikklandi.

1. júní - Frjáls dagur til að slappa af við sundlaugina, fara á ströndina eða rölta um bæinn.
2. júní - Eftir morgunverð verður haldið í rútuferð um eyjuna þar sem við byrjum á því að heimsækja hið forna hof frjósemigyðjunnar Demetru, en höldum síðan upp í fjöllin þar sem staldrað verður við í litlum og laglegum sveitaþorpum. Þorpið Halki var á tímabili höfuðstaður Naxos og þar er mesta ólífuframleiðsla eyjarinnar í dag. Nýklassísku húsin ogbísantínsku kirkjurnar bera vitni um forna frægð. Enn hærra uppi í fjöllum er þorpið Apiranthos, sem oft erkallað marmaraþorpið vegna steinhúsanna og gatnannasem eru allar lagðar marmara. Talið er að Kríverjar hafi byggt þorpið upp og enn má heyra gamla fólkið tala krítverska mállýsku. Apeiranthos var menningarmiðstöð eyjarinnar á miðöldum og hefur haldið þeim titli vegna allra safnanna sem þar eru í dag. Þar fáum við okkur hádegisverð og höldum síðan til baka með viðkomu í Melanes til að sjá þar Kouros styttu sem skilin var eftir í fornri námu.
3. júní - Frjáls dagur til að slappa af við sundlaugina, fara á ströndina eða rölta um bæinn.
4. júní - Sigling til Mykonos. Eftir morgunverð siglum við til Mykonos, með smá stoppi á litlu eyjunni Delos,þar sem helgistaður guðsins Apolló var til forna. Mykonos er eyja ríka fólksins í Grikklandi. Þar keppast snekkjur og villur og dýrar verslanir um að ná athygli ferðamannsins. Innlendir og erlendir leikarar og söngvarar heimsækja eyjuna á ári hverju og margir eiga þar sumarhús. Eyjan er fræg fyrir fyrir fallegu höfnina með hvítu húsunum sem eru skreytt með hurðum og gluggum á alls konar litum og litlu mjóu göturnar sem mynda eins konar völundarhús þar sem gaman er að villast. Vindmyllurnar sem gnæfa á hæðinni yfir bænum setja fallegan svip á heildarmyndina.
Við förum í gönguferð um þennan laglega bæ og síðan er frjáls tími þangað til tími er kominn til að sigla til baka.

5. júní – Siglt frá Naxos yfir til Heraklion á Krít. Þar bíður eftir okkur rúta sem keyrir okkur til Chania þar sem dvalið verður í 4 nætur

6. júní - Bæjarrölt í Chania. Eftir morgunverð förum við í rútu upp í Venizelos garðinn á Akrotiriskaganum þaðan sem er stórkostlegt útsýni yfir borgina og Chaniasýslu. Við keyrum síðan til baka og skiljum við rútuna í miðbæ Chania. Við göngum um gamla bæinn í Chania til að átta okkur á hvernig landið liggur. Við skoðum tyrkneska og feneyska hluta bæjarins en einnig markaðinn sem tekinn var í notkun árið 1913. Þessi dásamlegi bær er einn fallegasti feneyski bærinn í Miðjarðarhafinu og þó víðar væri leitað. Eftir hádegi er frjáls tími til að njóta kaffihúsanna, verslananna og veitingahúsanna sem eru út um allt. Rútan verður á sama stað þar sem hún skyldi okkur eftir til að keyra okkur heim á hótel í eftirmiðdaginn.
7. júní - Frjáls dagur til að njóta umhverfisins og slappa af við sundlaugina, fara á ströndina eða skreppa inn í Chania eða til litla bæjarins Platanias.

8. júní - Frjáls dagur. Sameiginlegur kvöldverður á veitingastað í nágrenni hótelsins.
9. júní - Heimferð.
-
Veðrið
-
Flugtími
Kef
CHQ
5 klst. og 55 mín
Morgunflug
-
Gjaldmiðill
€EUR
Gengi