fbpx Sigling - Miðjarðarhaf frá Barcelona

Fegurstu eyjar Miðjarðarhafsins

Siglt frá Barcelona

UPPSELT

Þessi ferð er uppseld. Vinsamlegast hafið samband til að fá nánari upplýsingar. Hægt er að senda okkur tölvupóst á info@vita.is. Síminn er 570-4444.

Hafa samband

Myndagallerí

MIÐJARÐARHAFIÐ FRÁ BARCELONA

Celebrity Infinity
26. maí  - 11. júní 2019
Fararstjóri: Þóra Valsteinsdóttir

Barcelona og Palma de Mallorca, Spáni  - Sikiley, Ítalíu -  Mykonos, Aþena, Santorini og Ródos, Grikklandi - Valetta, Möltu og Barcelona, Spáni.

Stutt ferðalýsing 
Flogið í morgunflugi til Barcelona með millilendingu í London og lent um kl. 20:00 í Barcelona þar sem gist er í 3 nætur. Ekið að skipshlið, stigið um borð í Celebrity Infinity og siglt til Palma á Mallorca. Eftir dag á siglingu er komið til Messínu á Sikiley. Síðan er annar siglingardagur uns komið er til Grikklands; þar er fyrst stoppað á hinni sólbjörtu Mykonos með sín hvítu hús, þá er það hin eilífa Aþena með Háborgina, þ.e. Akrópólís; svo liggur leiðin til eyjarinnar Santorini sem er ógleymanleg en eftir það er stefnan tekin á Ródos.  Þaðan er siglt til Valletta á Möltu.
Við fáum síðan annan dag á siglingu áður en komið er til hafnar í Barcelona. Eftir morgunverð, kveðjum við skipið og förum með rútu í stutta ferð um borgina, áður en farið er á hótelið. Að lokum er ein nótt í Barcelona og síðan flogið heim á leið aftur með millilendingu í London.


celebrity_infinity.jpg

Celebrity Infinity
Celebrity Inifnity er í svokölluðum „Millenium" flokki hjá Celebrity Cruises, sem er næsthæsti klassi skipafélagsins. Innréttingar skipsins einkennast af marmara, klassískum viðarinnréttingum og gleri. Allur aðbúnaður og vistarverur bera vott um gæði og glæsileika.
Celebrity Infinity fór í sína jómfrúarferð árið 2001 og var allt tekið í gegn árið 2011. Skipið er 91.000 lestir tæplega 300 metrar á lengd og með rými fyrir liðlega 2.000 farþega. Aquaspa er heilsulind með nuddpottum, gufu, sauna, persneskum garði og sólarium með glerþaki. Ótal sérfræðingar bjóða ýmsar dekur- og heilsubætandi meðferðir gegn gjaldi.
Klefarnir eru ýmist með tvíbreiðu rúmi eða tveimur rúmum, setkrók með sófa og skrifborði, minibar, öryggishólfi og sjónvarpi. Hægt er að bóka skoðunarferðir, horfa á kvikmyndir og panta herbergisþjónustu í klefann í gegnum sjónvarpið. Baðherbergi er með sturtu, snyrtivörum, baðsloppum og hárþurrku. Sængurfötin eru ofin úr egypskri bómull og herbergisþjónusta er til reiðu allan sólarhringinn.
Á efsta þilfarinu er skokkbrautin, þar sem hægt er að ganga eða hlaupa hringinn um skipið. Unaðslegur hitabeltisgarður er í útsýnisturninum. "The Conservatory" og á sólarþilfarinu er sundlaug, sólbekkir og barir.
Kvöldverður eru borinn fram í aðal veitingasal skipsins, sem heitir Olympic og er á tveimur hæðum. Við sérstök tækifæri er gaman að bóka borð á Qsine veitingastaðnum, þar sem gestir velja sér matseðilinn með Ipad.
Barir eru um allt skip og þegar kvöldar taka við glæsilegar sýningar og uppákomur í flottu 4ra hæða leikhúsi. Ótal afþreyingarmöguleikar, að ógleymdri fyrsta flokks þjónustunni sem fæst um borð, gera siglingu með Celebrity Milennium ógleymanlega.

Flugtafla

Dagsetning Flugnúmer Brottför Kl. Áfangastaður Kl.
26. maí BA 801 Keflavík 10:50 London Heathrow 14:55
26. maí BA 486 London Heatrow 16:40 Barcelona 19:50
11. júní BA 477 Barcelona 07:10 London Heathrow 08:35
11. júní FI 451 London Heathrow 13:05 Keflavík 15:10 

Siglingleið

Dagur Áfangastaður Koma Brottför
29. maí Barcelóna, Spáni    17:00
30. maí Palma de Mallorca, Spáni 07:00 17:00
31. maí Á siglingu    
1. júní Sikiley(Messina) Ítalíu 07:00 18:00
2. júní Á siglingu    
3. júní Mykonos, Grikklandi 07:00 20:00
4. júní Aþena (Piraeus) Grikklandi 06:00 19:00
5. júní Santorini, Grikklandi 07:00 18:00
6. júní Ródos, Grikklandi 07:00 17:00
7. júní Á siglingu    
8. júní Valletta, Möltu 08:00 16:00
9. júní Á siglingu    
10. júní Barcelóna, Spáni  06:00  

 

FERÐATILHÖGUN:


barcelona_2.jpg

Sunnudagur 26. maí - Keflavík - Barcelona
Flogið er í morgunflugi til Barcelona með British Airways, millilending í London í tæpar tvær klukkustundir og flogið áfram til Barcelóna áætluð lending er kl.  19:50 . Ekið á hótel Tryp Apolo þar sem gist er í 3 nætur.
Barcelona er á norðaustanverðum Spáni, um 145 km sunnan landamæra Spánar og Frakklands.  Gestir þyrpast til borgarinnar frá öllum heimshornum til að njóta sérstöðu hennar, menningar og fegurðar. Þegar H.C. Andersen kom til Barcelona árið 1862 lét hann svo um mælt að borgin væri „París Spánar“. Það geta margir tekið undir. Borgin er mikils háttar menningarsetur með heillandi sögu. Þar er alls staðar að finna góða veitingastaði, sjarmerandi kaffihús, minjasöfn og merkar byggingar auk stórkostlegra dæma um skreyti- og byggingarlist módernismans svo sem hann er nefndur á Spáni, þ.e. „art nouveau“ upp á frönsku og ensku eða Jungsendstíl upp á þýsku.


barcelona_3.jpg

Mánudagur 27. maí, Barcelona

Eftir morgunverð, gönguferð með fararstjóra um borgina. Gengið um hina frægu Römblu og einnig í Gotneska hverfið og niður að höfn. Frjáls tími seinni hluta dags.


barcelona_1.jpg

Þriðjudagur 28. maí, Barcelona
Frjáls dagur í Barcelona.


celebrity_infinity_millenium_flokkur_5.jpg

Miðvikudagur 29. maí, Barcelona – Celebrity Infinity
Eftir góðan morgunverð á hóteli kemur rúta og ekið er til skips. Eftir innritun er vel við hæfi að setjast niður og fá sér síðbúinn hádegisverð áður en gengið er um skipið og litið á hvað er í boði. Celebrity Infinity leggur úr höfn kl.17:00.


palma_mallorca_4.jpg

Fimmtudagur 30. maí, Palma - Mallorca
Palma er heillandi borg með breiðstræti, þröngur göngugötur, litlar og snotrar verslanir og verslunarmiðsöðina PORTO PI. Ýmis þekkt söfn eru í og við Palma, t.d. Castell de Bellver sem hýsir Sögusafn Mallorca. Byggingin sjálf er virki í gotneskum stíl frá upphafi 14. aldar á 112 metra hárri hæð þrjá kílómetra frá borginni. Í Museu de Mallorca gefur að líta mörg sagnfræðilega mikilvæg verk er lúta að borginni. Ekki má heldur gleyma safni með verkum eftir katalónska listamanninn Joan Miró sem bjó og starfaði í Palma frá 1956 til dauðadags 1983. Hin fagra dómkirkja, í gotneskum stíl,  gnæfir yfir borgina og þaðan er mikið og fagurt útsýni yfir höfnina, þar sem hundruð lystisnekkja liggja.


Celebrity Infinity, Infinity, celebrity, sigling, skemmtiferðaskip, cruise, cruiseship

Föstudagur 31. maí, dagur á siglingu
Njótið þess að skoða skipið og svo má t.d. leggjast á sólbekk við sundlaugina og smakka hina litskrúðugu og ljúffengu kokteila sem barþjónarnir blanda. Svo má fara í búðir, á málverkauppboð, eða kannski á matreiðslunámskeið, danskennslu eða sækja fyrirlestur. Matur og drykkur allan daginn, svo bíða 3ja rétta kvöldverðir og glæsilegar sýningar á kvöldin.


sikiley_old_town.jpg

Laugardagur 1. júní, Messína - Sikiley
Eclipse leggst við bryggju í Messínu, en þaðan er tæpur klukkustundar akstur til hins fagra bæjar Taormínu, skammt frá Etnu, stærsta eldfjalli í Evrópu, á austurströnd Sikileyjar.  Í Taormínu er grískt-rómverskt útileikhús þaðan sem Etna blasir við.  Í Taormínu sat Laxness ungur að árum og reit Vefarann mikla frá Kasmír.  Skammt undan er sólbaðsstaðurinn Giardini Naxos en í Naxos stigu Grikkir fyrst á land á Sikiley 735 f. Krist.
Nokkru sunnar er borgin Catania við rætur Etnu þar sem berja má augum ýmsar fagrar byggingar,  einkum í barokkstíl, en einnig miðaldakastala, rómversk hringleikahús. Fyrsti háskólinn á Sikiley var stofnaður hér árið 1434. Ursino-kastalinn sem byggður var á 13. öld hýsir nú stórt safn. Á dómkirkjutorginu í hjarta borgarinnar stendur helsta og merkilegasta kennileiti borgarinnar, Fílagosbrunnurinn sem byggður var árið 1736 úr hraungrýti og skartar fornegypskri broddsúlu.
Og enn sunnar er síðan hin sögufræga borg Sýrakúsa þar sem Arkímedes (287 – 212 f. Krist) fæddist, bjó og dó. Hann var grískur stærðfræðingur, stjarnfræðingur, heimspekingur, eðlisfræðingur og vélfærðingur. Honum er eignað að hafa hugsað upp lögmálið um uppdrif hluts sem sökkt er í vökva. Lögmál Arkímedesar hljómar svo:  „Sérhver hlutur sem sökkt er að hluta til eða alveg í vökva léttist sem nemur þyngd þess vökva sem hann ryður frá sér. “
Í Sýrakúsu er einnig merkt grískt útileikhús og fleiri fornar menjar.


celebrity_infinity_millenium_flokkur_4.jpg

Sunnudagur 2. júní, dagur á siglingu
Upplagt að slaka og njóta þjónustunnar um borð á leið til grísku eyjunnar Mykonos.


mykonos_grikkland.jpg

Mánudagur 3. júní, Mykonos
Mykonos er ómótstæðileg og ein frægasta gríska eyjan. Hvít hús, dimmblátt hafið, þröngar götur og frábærar strendur. Á Mykonos er sagt að guðinn Apollo hafi fæðst. Kristinn fararstjóri fer í gönguferð með hópinn.  Verslanir og veitingastaðir á hverju götuhorni og dásamlegt að setjast niður og bragða á gríska drykknum „ouzo“ (úso) sem Grikkir rita svona: ούζο ...


athena_grikkland_11.jpg

Þriðjudagur 4.júní. september, Aþena
Aþena höfuðborg Grikklands er borg andstæðnanna. Annars vegar er borgin vestræn nútímaborg, en hins vegar minnir hún á lítið þorp þar sem mjóar götur og aldagömul hús keppast við að ná athygli vegfarandans. Saga borgarinnar nær aftur um þúsundir ára, eins og hin fögru hof á Akrópólishæð (Háborginni) bera vitni um en fallegar nýklassískar byggingar frá 19. öld eru einnig áberandi. Helst er að nefna gömlu konungshöllina, fornminjasafnið, háskólabyggingarnar og Zappeion-sýningarhöllina. Ekki má gleyma marmaraleikvanginum, Kallimarmaro, sem reistur var fyrir fyrstu Ólympíuleika nútímans. Elsta hverfið í Aþenu liggur í hæðinni fyrir neðan Akrópólis og ber heitið Plaka. Þar er alltaf mikið líf jafnt á nóttu sem degi á nýtískulegum eða hefðbundnum kaffihúsum, börum og veitingastöðum þar sem finna má allt það helsta sem borgin hefur upp á að bjóða í mat og drykk. Grísk hönnun og minjagripir eru áberandi í verslunum í gamla bænum og þar ættu allir að geta nælt sér í eitthvað sem hjartað girnist.


santorini_greece_8.jpg

Miðvikudagur 5. júní, Santorini
Santorini (Thera) er 110 kílómetrum  norðan við Krít og hefur yfir sér mikinn ævintýraljóma, vegna sérstæðrar sögu, jarðfræði, landslags og bygginga. Saga þessarar eldfjallaeyjar spannar mörg þúsund ár og er Santorini sögð geyma leyndarmálið um hið horfna Atlantis. Eyjan er í raun það sem eftir er af eldfjalli sem sprakk fyrir 3600 árum og eyddi byggð á svæðinu. Þá myndaðist stór vatnsfyllt askja umlukin mörg hundruð metra háum öskulögum. Þetta er eitt stæsta eldgos sem skráð hefur verið og flóðbylgjan sem því fylgdi hefur að öllum líkindum valdið endalokum  Minoa  menningarinnar á Krít. Sumir telja þetta eldgos grunninn að goðsögninni um Atlantis. Höfuðbær eyjarinnar Fira hangir bókstaflega á klettabrúnunum umhverfis öskjuna og eru hvítkölkuð húsin og blá hvolfþökin sérstæð sjón þegar siglt er að ströndinni eða gengið eftir brúnum öskjunnar. 


rhodos.jpg

Fimmtudagur 6. júní, Ródos
Þegar komið er inn í einn af stærstu miðalda bæjum í Evrópu í gegnum Frelsishliðið verður fljótlega ljóst að í gamla bænum á Rhodos er að finna mismunandi menningarheimar en grísku áhrifin eru mest. Miðbærinn er lítill og auðvelt að ganga um og anda að sér angan Grikklands á meðan gríska tónlistin heyrist alls staðarl.  Grand Master höllin er vissulega hápunktur gamla bæjarins., en hún var upphaflega bisantínskt virki byggð í lok 7. aldar e.Kr. en var umbreytt í byrjun 14. aldar af riddum Jóhannesarbókar. Höllinni hefur verið breytt í safn.


celebrity_reflection_8.jpg

Föstudagur 7. júní, dagur á siglingu
Nóg að gera, borða og upplifa.  Morgunverður og hádegisverður úti eða inni. Ef einhverjir hafa ekki fengið sér hamborgara, er örugglega verið að grilla þá úti á dekki. Leikir og fjölbreyttir kokteilar við sundlaugina. Vonandi eru allir sólbrúnir og sælir á barnum fyrir mat og í matsalnum um kvöldið.


malta_shutter_6.jpg

Laugardagur 8. júní, Valletta - Möltu
Valletta er höfuðborg Möltu þar sem skipið leggst við bryggju snemma morguns. Árið 1528 afhenti Charles V af Spáni Möltu til Riddaranna af St. John. Margar áhugaverðar kalksteinsbyggingar og virkisveggir frá þeim tíma hafa varðveist vel og gera Valletta stórfenglega að upplifa í dag. Þegar farið er um borgina að aðal torginu er farið fram hjá mörgum fornum byggingum og upp að St. John‘s dómkirkjunni þar sem má sjá minjar um marga af riddurunum.


celebrity_reflection_6.jpg

Sunnudagur 9.júní, dagur á siglingu
Síðasti dagurinn í siglingunni. Njótið þess að vera um borð í þessu glæsilega skipi, mikið um að vera á síðasta degi. Hvort sem er á sundlaugardekkinu þar sem iðar allt af lífi, lifandi tónlist og líflegir þjónarnir bjóða marglita kokkteila. Innandyra er einnig mikið um að vera bæði útsölur á varningi á verslunarganginum svo eitthvað sé nefnt.


sagrada_familia_barcelona.jpg

Mánudagur 10. júní, komið til Barcelona
Eftir morgunverð í skipinu er farið frá borði og farið í skoðunarferð um Barcelóna, eftir skoðunarferðina er farið á hótel Tryp Apolo og gist í eina nótt áður en haldið er heim á leið.

Skoðunarferð í La Sagrada Familia og Güell-garðinn
La Basílica i Temple Expiatori de la Sagrada Família  (Höfuðkirkja og friðþægingarmusteri hinnar helgu fjölskyldu), þekktari sem La Sagrada Familia,  er án efa frægasta verk katalónska arkitektsins Antonis Gaudí. Hún er í raun einskonar tákn Barselónuborgar. Enn er verið að byggja hana en stefnt að því að ljúka verkinu 2026, á aldarártíð arkitektsins. Við skoðum hana bæði að utan og innan. Park Güell er garður í hlíðunum ofarlega í borginni, nefndur eftir helsta bakhjarli Gaudís, katalónska auðjöfrinum Eusebi Güell. Hugmynd þeirra með garðinum var að hanna íbúðarhverfi fyrir efnafólk í upphafi 20. aldar. Það fór hinsvegar útum þúfur en eftir stendur þessi einstaki garður. 


Barcelona.jpg

Þriðjudagur 11. júní, Barcelona - Keflavík
Flogið snemma morguns heim á leið með BA til  London og síðan með Icelandair til Keflavíkur. Áætluð lending í Keflavík er 15:10.

Sjá nánari ferðalýsingu

UPPSELT

Þessi ferð er uppseld. Vinsamlegast hafið samband til að fá nánari upplýsingar. Hægt er að senda okkur tölvupóst á info@vita.is. Síminn er 570-4444.

Hafa samband
 • Veðrið

 • Flugtími

  Kef íkon mynd af flugvél BCN

  5

  Morgunflug

 • Gjaldmiðill

  Evra

  Gengi

Gististaðir

Kort

Sjá alla gististaði
Sjá Kortasýn Sjá gististaði

Við notum vefkökur (e.cookies) t.d. til að greina umferð um vefinn og til að bæta upplifun notanda á síðunni. Með því að halda áfram að vafra um síðuna samþykkir þú vefkökuskilmála VITA

Nánari upplýsingar um vefkökunotkun