Gönguferð Toscana

Fjallastígar Garfagnanadalsins í Toscana

Uppselt

Þessi ferð er uppseld. Vinsamlegast hafið samband til að fá nánari upplýsingar. Hægt er að senda okkur tölvupóst á info@vita.is. Síminn er 570-4444.

Hafa samband

Myndagallerí

Fjallastígar Garfagnanadalsins í Toscana

05. - 12. júní 2017
Hefðbundinn taktur, tvö fjöll

Norðvestur Toscana er það svæði sem af mörgum er talið eitt best varðveitta leyndarmál Ítalíu. Þetta afskekkta hérað býður upp á einstaklega fjölbreytta náttúrufegurð. Stórbrotin fjallasýn blasir hvarvetna við, auðug flóra skartar sínu fegursta og mannlífið byggir enn á gömlum hefðum. Það eru liðin 13 ár síðan Göngu Hrólfur bauð upp á gönguferð á þennan spennandi stað. Þá var gist nokkra daga í fjallaskála í Apuan-ölpunum. Nú bjóðum við nýja ferð á þessar slóðir.

Lögð er áhersla á að kynnast héraðinu og fólkinu sem best. Fyrstu þrjár næturnar er gist á La Baita í fjallabænum Corfino hjá vinum okkar þeim Roberto, Möru og Martinu. Bærinn er í útjaðri Orecchiella-friðlandsins. Þar skiptist á svipmikið og klettótt fjalllendi, laufskrúðug skóglendi, grösugar sléttur og ávalar hæðir. Mjög takmörkuð byggð er í garðinum en dýralíf og blómskrúð því fjölbreyttara. Þar er gengið upp á bæjarfjallið Pania di Corfino og gamlar fjárhirðabyggðir heimsóttar. Síðan er farið á markað í bænum Castelnuovo og gengið um fallegar sveitir í dalnum þar til komið er að bændabýlinu Il Carlotto þar sem gist verður. Einnig er ekið um Garfagnanadalinn í gamalli lest, gengið um vínræktarhéröð, myndarlegur kastali heimsóttur og gengið um fallegar sveitir. Síðasti gististaðurinn í ferðinni er gistiheimilið Agriturismo La Costa  í bænum Fosciandora.

Dagur 1. Keflavík - Corfino

Flogið frá Keflavík og lent á flugvellinum í Mílanó um kl. 22.40. Ekið eins og leið liggur til þorpsins Corfino (860 m). Þetta er um fimm tíma ferð. Af torgi bæjarins er frábært útsýni yfir Garfagnanadalinn. Á gistiheimilinu La Baita, þar sem gist verður næstu þrjár nætur, tekur Roberto hótelstjóri vel á móti hópnum þó komið verði fram á nótt. Hótelið er í útjaðri þjóðgarðsins Orecchiella og við rætur fjallsins Pania di Corfino (1606 m).

Dagur 2. Gengið frá Corfino upp á fjallaengi til Campaniana.

Við tökum því rólega um morguninn. Eftir síðbúinn morgunverð er gengið frá hótelinu eftir fornum stígum sem voru lagðir af fjárhirðum sem fluttu hjarðir sínar upp á fjallsengin á vorin. Þeir bjuggu í fjárhirðaþorpinu Campaiana yfir sumarið og gættu hjarðarinnar. Þar á engjunum breiðum við úr dúknum og snæðum ljúffengan lautarverð. Eftir matinn er haldið aðra leið til baka framhjá hinum spennandi brunni Fonte de Amor  Gengið í um sex klukkustundir. Hækkun 600m, lækkun 600m.

Dagur 3. Upp á topp á Pania di Corfino

Í dag er haldið frá La Baita að fjárhirðaseljunum í Pruno en þeim hefur nú verið breytt í sumarhús. Þarna undir vesturhlíðum Pania di Corfino í útjaðri Orecchiella-friðlandsins virðast fjallshlíðarnar ókleifar. En í skriðunum leynist skemmtilegur stígur upp á fjallið sem við leitum uppi og höldum alla leið upp á topp (1606 m). Þaðan er einstakt útsýni yfir Garfagnanadalinn og yfir til Apuan-alpanna. Eftir ljúffengan lautarverð er haldið niður af fjallinu eftir þægilegum stíg sem er umvafinn björtum beykitrjám.
Gengið í sex klukkustundir, hækkun og lækkun 800 m.

Dagur 4. Markaðsdagur og þorpin í  Garfagnanadalnum

Það er komið að því að kveðja La Baita og halda með rútu niður til Castelnuovo sem er aðal verslunar- og viðskiptamiðstöð dalsins. Öld eftir öld komu bændur og iðnaðarmenn þangað með vörur sínar og afurðir og seldu á fimmtudagsmarkaðnum. Enn í dag eru allar götur og torg þakin ýmiskonar varningi á fimmtudögum og við notum tækifærið og sláumst í hópinn með heimamönnum. Í hádeginu gefst svo tækifæri til að bragða á framleiðslu héraðsins hjá Andrea sem rekur hinn sérstæða veitingastað Il Vecchio Mulino (Gamla myllan). Eftir ljúffenga máltíð er haldið í gönguferð gegnum Castiglione di Garfagnana til Braccicorti þar sem við fáum kvöldverð en við gistum næstu tvær nætur í bændagistingu á Il Carlotto sem er býli í nágrenninu. Gengið í fjórar klukkustundir, hækkun 300 m, lækkun 150 m.

Dagur 5. Með miðaldalest – vínsmökkun og gengið um dali og vínekrur.

Frá Braccicorti er um 20 mínútna gangur til Villetta. Þaðan gengur lítil gömul lest sem þræðir fallega staði í dalnum. Við tökum okkur ferð með henni til Borgo a Mozzano sem er í neðri hluta Garfagnanadalsins. Þar er gengið um einstaklega fallegar vínekrur í blómlegum dal. Göngunni lýkur við vín- og ólífubúgarðinn Macea. Þarna búa miklir hugsjónamenn sem stunda lífræna ræktun af miklum eldmóð. Vínið sem er unnið úr þrúgunum er einstaklega gott og við fáum væntanlega að bragða á því. Eftir notalega heimsókn er haldið heim með lestinni. Gengið í um fjórar klukkustundir.

Dagur 6. Il Carlotto-Verrucole kastali - Fosciandora

Í dag er farið frá Il Carlotto og haldið gangandi um norðurhluta Garfagnanadalsins en farangurinn verður fluttur til næsta gististaðar. Leiðin liggur um falleg sveitahéruð, sem eru innrömmuð af fjallatindum Apuan-alpanna og upp að hinum forna Verrucole-kastala sem stendur á hæð í miðjum dalnum. Þar undir kastalaveggjunum er gaman að fræðast um sögu dalsins og breiða úr dúknum til lautarverðar. Frá kastalanum liggur skemmtileg gönguleið niður til bæjarins Naggio og síðan meðfram bökkum árinnar Serchio. Tvær síðustu næturnar er gist í gistiheimilinu Agriturismo La Costa  í bænum Fosciandora sem er í gömlum skemmtilegum búgarði.

Dagur 7. Gengið milli sjö þorpa

Garfagnanadalurinn er umkringdur Apuan-ölpunum í suðri og Appenínafjallgaðinum í norðri. Þennan síðasta dag erum við í nánd við Apuan-alpana, spennandi kalksteins- og marmarafjöll með mörgum frægum marmaranámum. Við höldum gangandi frá gististaðnum og njótum einstaks útsýnis til hinna úfnu tinda Apuan Alpanna og blasa Pania fjöllin sérlega vel við. Gengið er milli 7 lítilla þorpa sem eru á mörkum Lucca og Módenahérðananna og hafa orðið fyrir áhrifum frá báðum héruðunum frá miðöldum. Við fræðumst um þorpin; La Villa,Ceserana,Migiliano,Lupinaia,Treppignana,Riana e Fosciandora, um og við göngum um þau. Hvert þeirra á sína sértæðu sögu á meðan þau eru einnig mjög tengd og háð hvert öðru. Gengið um 6 tíma 15 kílómetra.

Dagur 8. Heimferðadagur

Um morguninn höfum við góðan tíma til að skoða okkur um í þorpinu Fosciandora. Milli tvö og þrjú eftir hádegi er síðan haldið með rútu til Mílanó þaðan sem flogið verður heim um kvöldið.

Ath að þessi dagskrá getur breyst lítillega vegna veðurs eða af öðrum ástæðum

Sjá nánari ferðalýsingu

Uppselt

Þessi ferð er uppseld. Vinsamlegast hafið samband til að fá nánari upplýsingar. Hægt er að senda okkur tölvupóst á info@vita.is. Síminn er 570-4444.

Hafa samband
 • Veðrið

 • Flugtími

  Kef íkon mynd af flugvél MXP

  3:50

  Eftirmiðdagsflug

 • Gjaldmiðill

  Evra

  Gengi

Sjá Kortasýn Sjá gististaði