fbpx Gönguferð um paradísareyjuna Madeira | Vita

Gönguferð um paradísareyjuna Madeira

Stórfengleg fjallaeyja

UPPSELT

Þessi ferð er uppseld. Vinsamlegast hafið samband til að fá nánari upplýsingar. Hægt er að senda okkur tölvupóst á info@vita.is. Síminn er 570-4444.

Hafa samband

Myndagallerí

Ævintýralegar gönguferðir í stórbrotnu umhverfi

12. – 21. maí
Fararstjóri er Tjörvi Schiöth

Madeira er stórfengleg fjallaeyja sem er sérstaklega kjörin fyrir ævintýralegar gönguferðir. Gönguleiðirnar á eyjunni eru tiltölulega auðveldar miðað við það sem við þekkjum í óbyggðum Íslands, en þar er mikið af þægilegum göngustígum sem eru steyptar vatnsrásir nefndar „Levadas“ á portúgölsku. Þessar Levada-gönguleiðir þræða sig í gegnum fjöllin og dalina um alla eyjuna, þar sem þær bera vatn frá rigningarsvæðum hátt uppi í fjöllunum niður á akrana þar sem heimamenn rækta sykurreyr og alla heimsins suðræna ávexti. Þetta  eru kjörnir göngustígar, þar sem auðvelt og greiðfært er að ganga á þeim hátt uppi í fjöllunum og beint í gegnum heittempraða frumskóga, en lárviðarfrumskógurinn sem þekur norðurhluta eyjunnar Madeira er einstakur á heimsvísu og fyrir vikið er hann skrásettur á heimsminjaskrá UNESCO.


madeira_portugal_20.jpg

Þar sem eyjan er frekar lítil og auðvelt er að ferðast um hana, þá er ekki langt að fara frá hótelinu í höfuðborginni Funchal til að komast á vit ævintýranna. Eftir aðeins stuttan akstur er komið hátt upp í fjöllin, en hægt er að keyra alla leið á upp næsthæsta tind eyjunnar, Pico do Arieiro (1818 m). Þaðan er hægt að ganga á greiðfærum Levada-vatnsrásum inn í töfraveröld djúpra grænna dala innan um tignarlega kletta og fjallatinda, þakta í lárviðarfrumskógum. Levada-gönguleiðirnar, sem Madeira hefur upp á að bjóða, eru þess vegna tilvaldar fyrir göngufólk sem vill komast hátt upp í fjöll og í stórfenglegt landslag. Stígarnir eru steyptir eða hlaðnir og nánast alveg sléttir margra kílómetra langar leiðir, svo ekki þarf að hækka eða lækka sig mikið eins og t.d. þegar gengið er á Esjuna, en slíkt gerir göngurnar á Madeira tiltölulega auðveldar og þægilegar.


pico_do_areeiro_madeira2.jpg

Gist verður allan tímann á sama hótelinu í höfuðborginni Funchal, sem er einkar falleg og skemmtileg borg. Funchal er staðsett skammt frá flugvellinum, sunnanmegin við fjallgarðinn sem þverar alla eyjuna frá austri til vesturs. Fábrotin hvít hús borgarinnar, sem eru öll í svipuðum stíl og skreytt múrsteinsrauðum þökum, eru eins og hoggin utan í brattan fjallgarðinn sem umlykur borgina, eins og þrep ofan á hvert öðru og minna þannig á eitt gríðarstórt hringleikahús. Þaðan frá Funchal verður farið í stuttar dagsferðir, en ferðaáætlunin er þannig skipulögð að það eru frídagar á eftir öllum erfiðustu og lengstu göngunum, svo að nægur tími verður til að njóta hvíldar og fara í skoðunarferðir í borginni inni á milli gönguferðanna.
Sem dæmi um skoðunarferðir í Funchal er t.d. hægt að fara með í kláf upp í Monte og skoða þar gömlu kirkjuna, sem er staðsett hátt uppi í fjallshlíðinni, og njóta þar útsýnisins yfir borgina. Þar er einnig skrúðgarðurinn Jardim Botânico sem er verðugur að sjá, og frá Monte er svo hægt að renna sér langleiðina niður í gamla hverfið niðri við sjó, á einstökum „toboccan“ sleðum sem skauta á malbikinu niður brött stræti borgarinnar eins og rússíbanar. Þá er einnig hægt að fara upp á Cabo Girão klettinn (sem  er staðsettur ekki svo langt frá miðbænum í útjaðri borgarinnar) sem er einn hæsti þverhnípti klettur í heimi, en efst uppi á honum er hægt að ganga á glergólfi þar sem maður horfir 580 metra beint niður í sjó. Þetta glergólf er það hæsta sinnar tegundar í Evrópu.
Funchal er kjörin borg til ganga um á kvöldin og skoða sig um, og borða á veitingahúsum sem bjóða upp á ómótstæðilega portúgalska matarlist, sem og sérstaka rétti sem fyrirfinnast aðeins á Madeira, eins og tvo uppáhalds rétti heimamanna: djúpsjávarfisk (Espada) sem er borinn fram með banana- eða ástaraldinsósu, og svo kolagrilluð spjót með nautakjöti, hvítlauk og lárviðarlaufi (Espetada).
Veðurfarið á Madeira er hlýtt og þægilegt allan ársins hring. Þar er ótrúlega fjölbreytt gróðurfar með allskonar framandi og litskrúðugum plöntum, sem eru í blóma næstum allan ársins hring. Það er einstakt að heimsækja lárviðarfrumskóginn hátt uppi í fjöllunum á norðurhluta eyjunnar, en nokkrar Levada-göngur liggja einmitt þar í gegn. Það er einmitt vegna þessa gróður- og veðurfars sem að eyjan er kölluð „Perla Atlantshafsins“, og einnig er sagt að þar ríki ávallt „eilíft vor“. Meðalhitinn í maí, á meðan ferðinni stendur, er 25°C. Þetta er fullkomin veðurblíða til að slappa af og njóta sín á stuttermabol í sólinni. Hinsvegar getur mikill hiti og skínandi sól gert göngufólki dálítið erfitt fyrir. Að öðru leyti er svalara og einnig rigningarsamara hátt upp í fjöllunum, þar sem margar gönguleiðirnar eru í vel yfir 1000 m hæð.

Dagskrá

Dagur 1. Flogið til Funchal. 12. maí
Flogið frá Keflavík til Madeira í beinu flugi með Icelandair. 
Rúta frá flugvelli á Allegro þar sem gist er allan tímann.


madeira_portugal_1.jpg

Dagur 2. Frídagur. 13. maí. 
Fyrsti frídagurinn er tilvalinn til að skoða sig um í Funchal. VITA er með valkvæða skoðunarferð um Funchal og Monte.


funchal_madeira_5.jpg

Dagur 3. Útsýnis- og gönguferð í Nunnudalinn (Curral das Freiras). 14. maí. 
Gengið frá útsýnispallinum á Eira do Serrado niður í Curral das Freiras.
Við byrjum við á stuttri göngu- og útsýnisferð upp í hinn stórfenglega Nunnudal, sem nefnist á portúgölsku Curral das Freiras. Þetta er djúpur dalur á miðri eyjunni, umlukinn háum fjöllum og bröttum klettum, sem er frægur fyrir sína ótrúlegu fegurð. Dalurinn er
stutt frá höfuðborginni Funchal, sérstaklega eftir að jarðgöng voru lögð þangað undir fjallið, en gamli vegurinn er einn sá rosalegasti sem fyrirfinnst, og minnir einna helst á Múlaveginn gamla norður í Ólafsfirði! Þegar við göngum niður í dalinn munum við fá smjörþefinn af þessum gamla vegi sem liggur í nokkur hundruð metra hæð utan í þverhníptu klettabelti.
Byrjað er á að keyra upp í fjallskarðið sem gnæfir yfir Nunnudalnum og nefnist Eira do Serrado (í 1100 m hæð), en þetta er um 30 min bílferð frá Funchal. Þaðan er 5 min ganga á útsýnispall sem veitir stórfenglegt og undurfallegt útsýni yfir dalinn, og þar gefur að líta þorpið fríða sem liggur á dalbotninum 450 metra fyrir neðan. Uppi í Eira do Serrado eru einnig hótel, bar og minjagripabúð, þar sem hægt er að staldra við. Gengið er þaðan á greiðfærum hlöðnum göngustíg niður í þorpið, en þetta er tiltölulega stutt og létt ganga (2 klst), þrátt fyrir að vera nokkuð brött.
Þegar komið er niður í dalinn heimsækjum við svo þorpið sem ber sama nafn og dalurinn sjálfur (Curral das Freiras). Þetta er einstaklega fallegt og vinalegt þorp þar sem heimamenn taka með opnum örmum á móti ferðalöngum úti á götum og bjóða þeim inn á kaffihúsin sín. Þar eru í boði allskonar kræsingar, en sérgrein þorpsbúa er að laga allskyns mat og drykki úr kastaníuhnetum. Eftir dágott stopp í þorpinu er svo keyrt heim á hótelið í Funchal, í gegnum nýju jarðgöngin sem liggja undir fjallskarðið þaðan sem við komum.

Gangan byrjar kl. 10:00 og er til kl. 12:00.
Við þetta bætist akstur til og frá hóteli sem tekur 45 mínútur hvor leið.
Komið til baka á hótel kl. 12:45.
Vegalengd göngu: 5 km Göngutími: 2 klst
Erfiðleikastig: létt Lækkun: 450 m 
Varúð: Frekar bratt og ekki fyrir lofthrædda (en annars frekar auðveld ganga)


curral_das_freiras_madeira_1.jpg

Dagur 4. Levada-ganga í lárviðarfrumskógi upp í fjöllunum. 15. maí. 
Gengið á Levada do Furaco frá Ribeiro Frio til Portela
Á næsta göngudegi förum við í okkar fyrstu Levada-göngu. Þessi ganga er mikið lengri en sú fyrri, en fer beinustu leið 11 km á sléttri og steyptri levada-rás sem liggur utan í stórbrotinni fjallshlíð þakin í lárviðarfrumskógi. Gönguleiðin fer þannig beint í gegnum klettabelti og gróskumikinn grænan frumskóg, og það er hreint ótrúlegt hversu ævintýraleg þessi ganga er þrátt fyrir að vera svona auðveld og aðgengileg.
Byrjað er á að keyra upp í litla fjallaþorpið Ribeiro Frio sem er 30 min keyrsla frá Funchal (en nafn þessa þorps þýðir bókstaflega „kaldur lækur“). Þetta er pínulítið fallegt þorp sem er falið inni í fjallsgili, umlukið háum trjám og þykkum skógum. Merkilegt nokk eru ræktaðir silungar í þessu þorpi, þarna hátt uppi í fjöllunum, og hægt er að byrja á að skoða silunga-fiskeldið. Einnig er hægt að sjá fiskana synda í kalda læknum sem þorpið heitir eftir, en hann rennur í gegnum þorpið í steyptum vatnsrásum, niður fjallshlíðina og út í Levada-vatnsrásirnar sem við eigum svo eftir að ganga eftir.
Við byrjum á að ganga 40 min hjáleið frá Ribeiro Frio út á útsýnispallinn sem kenndur er við þorpið (Balcões de Ribeiro Frio). Þar er stórkostlegt útsýni yfir aðal fjallgarðinn á miðri eyjunni, þar sem sést vel í þrjá hæstu tindana, Pico de Arieiro, Pico das Torres og Pico Ruivo, en þeir líta saman út eins og eitt risastórt klettabelti. Við munum svo ganga á þessa tinda í fjallgöngu seinna í þessari ferð! Frá þessum útsýnispalli hjá Ribeiro Frio sést einnig til Arnarklettsins svokallaða (Penha d´Aguia), en það er einstaklega stílhreinn og fallegur grænn klettur, sem gnæfir yfir sjónum niðri við ströndina norðanmegin á eyjunni. Frá Ribero Frio (sem er í 860 m hæð) göngum við svo Levada-leiðina alla leið þar til hún endar í Portela, sem er fjallaþorp austanmegin á eyjunni í 605 m hæð. 

Gangan byrjar kl. 9:45 og er til kl. 15:00.
Við þetta bætist akstur til og frá hóteli sem tekur 45 mínútur hvor leið.
Komið til baka á hótel kl. 16:00.
Vegalengd göngu: 11 km Gönguími: 5 klst
Erfiðleikastig: miðlungs Lækkun: 260 m
Varúð: lofthræðsla, stutt göng í gegnum klettaveggi á leiðinni. Levada-rásin sem gengið er á getur verið mjög mjó á köflum, en allstaðar þar sem bratt er niður er leiðin tryggð með handriðum.
Innifalið nesti.


levada_madeira_3.jpg

Dagur 5. São Lourenço skaginn. 16. maí. 
Á þessum degi er haldið á austurhluta eyjunnar, en ætlunin er að ganga á São Lourenço skagann sem er austasti oddi Madeira. Þetta eru skornir sjávarklettar sem gnæfa langt út í sjó og bjóða upp á gott útsýni í allar áttir. Þaðan sést langt fram eftir fallegum grænum ströndum norðurhluta eyjunnar, og einnig sést til annarra eyja sem tilheyra Madeira-eyjaklasanum (Porto Santo og Islas Desertas).
Hérna austanmegin á eyjunni, og sérstaklega á sjálfum klettaskaganum São Lourenço, er minna gróðurfar en annarstaðar og þess vegna er landslagið hér töluvert öðruvísi á að líta en í hinum gönguleiðunum í þessari ferð. Á þessum hrjóstrugu sjávarklettum sést í litríkar bergmyndanir sem hafa mótast í gegnum aldirnar úr gamalli eldstöð, og minna að mörgu leyti á það sem við þekkjum heima á Íslandi, en litríkt klettabelti São Lourenço skagans minnir sem dæmi á Barðsnes austast á Íslandi. Þarna eru einnig athyglisverðir svartir og rauðir klettadrangar sem standa stakir upp úr sjónum og minna tvímælalaust á Reynisdranga í Vík í Mýrdal.
Keyrt er á bílastæðið þar sem gönguleiðin byrjar, en þetta er um 40 min keyrsla frá Funchal. Gengið er á göngustíg sem þverar sjávarklettana alla leið út á enda. Sumstaðar er stígurinn hoggin í bergið og myndar tröppur, og þar sem bratt er niður er oftast handrið. Gönguleiðin er lengst af í um 100 m hæð yfir sjávarmáli, og á mörgum stöðum er hægt að horfa fram af syllunni niður þverhnípta klettana, hundrað metra niður í sjó, þar sem brimið ber á klettunum í grjótfjörunni. Stígurinn á þessari leið er torfærari heldur en þægilegu steyptu Levada-stígarnir sem einkenna hinar gönguleiðirnar í þessari ferð, og þess vegna flokkast þessi ganga sem erfið. Einnig vegna þess að það er dálítið bröllt upp og niður þangað til komið er á útsýnisstaðinn á enda skagans. Gengið er til baka sömu leið á bílastæðið.

Gangan byrjar kl. 9:45 og er til kl. 15:00.
Við þetta bætist akstur til og frá hóteli sem tekur 45 mínútur hvor leið.
Komið til baka á hótel kl. 16:00.
Vegalengd göngu: 10 km Göngutími: 5 klst
Erfiðleikastig: erfitt Hækkun/lækkun: 400 m
Varúð: lofthræðsla
Innifalið: Nesti. Takið sundfötin með.


sao_lourenco_madeira_1.jpg

Dagur 6. Frídagur. 17. maí


funchal_madeira_2.jpg

Dagur 7. Fjallganga á Pico Ruivo, hæsta fjall Madeira (1862 m). 18. maí. 
Gengið frá Pico do Arieiro yfir á Pico Ruivo og þaðan niður í fjallaþorpið Achado do Texeira
Nú er komið að aðal fjallgöngu þessarar ferðar, en gönguleiðin frá útsýnissvæðinu á þriðja hæsta tindi Madeira, Pico do Arieiro (1818 m), yfir á hæsta tindinn, Pico Ruivo (1862m), er tilkomumikil fjallganga sem býður upp á ótrúlegt útsýni á heimsmælikvarða. Göngustígurinn er hlaðinn eða hoggin í bergið, og liggur annað hvort ofan á sjálfum klettahryggnum sem tengir fjallstindana saman, eða utan í þverhíptum klettunum, þar sem hann fer í jarðgöngum beint í gegnum klettaveggina. Á mest allri leiðinni er mörg hundruð metra fall niður báðum meginn, og útsýnið yfir fjöllin og dalina allt um kring er hreint stórfenglegt. Til vesturs sést niður í Nunnudalinn (Curral das Freiras), og yfir á Paul da Serra hálendið sem gnæfir yfir vesturhluta eyjunnar.
Á helstu stöðum er stígurinn hlaðinn, en annars er hann hoggin í bergið og fer í bröttum tröppum upp og niður klettabeltið. Allstaðar, þar sem bratt er niður, er stígurinn tryggður með handriði, svo engin hætta er á. Þessi ganga er frekar erfið vegna þess hve löng hún er og vegna þess hversu mikið þarf að brölta upp og niður steintröppur eftir endilöngum klettahryggnum á milli tveggja hæstu tinda eyjunnar. Þar sem leiðin er bröttust er búið að koma fyrir járnstigum. Ólíkt öllum hinum gönguleiðunum í þessari ferð, þá er talsvert labb upp í móti sem og niður á við, og þar með frekar mikil hækkun.
Byrjað er að keyra upp á Pico do Arieiro, þriðja hæsta tind Madeira, sem gnæfir yfir suðurhluta eyjunnar, en það er um 35 min keyrsla frá Funchal. Þarna uppi er NATO radarstöð, en einnig ágætis bílastæði og útsýnissvæði með veitingastað og sjoppu. Þaðan er svo gengið gönguleiðina umtöluðu eftir klettahryggnum alla leið yfir á Pico Ruivo, en uppi á hæsta tindinum, sem gnæfir yfir norðurhluta eyjunnar, er einnig ágætt útsýnissvæði. Þaðan er gengið á greiðfærum stíg niður í litla fjallaþorpið Achado do Texeira, norðanmegin á eyjunni (í 1600 m hæð). Þaðan er síðan 60 min akstur aftur til Funchal. 
Á leiðinni heim er hægt að stoppa við í bænum Santana á norðurströndinni og skoða þar hugguleg lítil þríhyrnd hús með stráþökum, en bærinn Santana er einmitt þekktur fyrir að varðveita þessi gamaldags hús sem einusinni voru aðal híbýli eyjaskeggja á Madeira, svipað og torfbæirnir heima á Íslandi.

Gangan byrjar kl. 9:45 og er til kl. 16:00.
Við þetta bætist akstur til og frá hóteli sem tekur 45 mínútur hvor leið.
Komið til baka á hótel kl. 17:00.
Vegalengd göngu: 10 km Göngutími: 5,5 klst
Erfiðleikastig: Erfitt, erfiðasta gangan í þessari ferð Hækkun/lækkun: Samtals 1300 m upp og niður steintröppur
Varúð: Lofthræðsla og göng (muna að taka með höfuð- eða vasaljós). Talsvert brölt upp í móti
Innifalið: Nesti.


pico_ruivo_madeira.jpg

Dagur 8. Frídagur. 19. maí

Dagur 9. Rabaçal dalurinn. 20. maí.
Levada ganga í Rabaçal dalnum á vesturhluta eyjunnar þar sem sjá má marga fallega fossa
Við endum ferðina á tiltölulega léttri og vinsælli Levada-göngu í hinum töfrandi Rabaçal dal á vesturhluta Madeira. Leiðin er ekki svo löng, eða um 9 km, og tekur 3 klst. Byrjað er á að keyra tæplega 60 min leið upp á Paul da Serra hásléttuna og stoppa þar á bílastæði (í 1278 m hæð) sem horfir yfir hinn fallega græna Rabaçal dal, en dalurinn er sá stærsti á Madeira og teygir sig langt í norðvestur átt. Frá bílastæðinu á hásléttunni er gengið á göngustíg niður á Levada ofan í dalnum sem kennd er við „25 læki“ (Levada das 25 Fontes). Gengið er á þremur mismunandi Levadas á þessari undurfallegu gönguleið, en hún liggur í gegnum lárviðarfrumskóga ofan í gróskumiklum dal hátt uppi í fjöllunum, þar sem sjá má fjöldamargar lækjaruppsrettur og einnig tignarlegustu fossa eyjunnar, sem eru staðsettir einmitt í botni Rabaçal dalsins. Þó að þeir fossar sem Madeira hefur upp á að bjóða séu ekki voðalega stórir í samanburði við þá sem við þekkjum á Íslandi, þá eru þeir einkar fallegir engu að síður, og öðruvísi á að líta, enda staðsettir í þykku grænu skóglendi. Gengið er til baka upp á bílastæðið fyrir ofan dalinn og þess vegna er samtals 320 m hæðarmunur í þessari ferð. Þaðan er keyrt aftur til baka til Funchal.

Gangan byrjar kl. 9:45 og er til kl. 15:00.
Við þetta bætist akstur til og frá hóteli sem tekur 45 mínútur hvor leið.
Komið til baka á hótel kl. 16:00.
Vegalengd göngu: 11 km Göngutími: 5 klst
Erfiðleikastig: létt Hækkun/lækkun: 320 m
Varúð: Göng og lofthræðsla
Innifalið: Nesti.


rabacal_madeira_2.jpg

Dagur 10. Síðasti dagurinn. 21. maí
Rúta frá hóteli á flugvöllinn og flogið til Keflavíkur.

Á meðan göngu stendur er ráðlagt að vera í langermabol og síðum buxum, til að koma í veg fyrir sólbruna á útlimum, en einnig vegna þess að gengið er í gegnum þykka skóga og þá geta hendur og fætur nuddast utan í trjágreinar og gróður.

Ráðlagt að taka með sér í gönguferðir:

• Gönguskó (frekar en strigaskó eða sandala)
• Sólarvörn
• Sólhatt, derhúfu eða buff
• Auka peysu, ef skyldi vera svalt uppi í fjöllunum
• Regnkápu, ef skyldi rigna
• Höfuðljós eða vasaljós, sem þarf að nota í jarðgöngum þar sem ekki er lýsing
• Ekki gleyma myndavélinni!

Sjá nánari ferðalýsingu

UPPSELT

Þessi ferð er uppseld. Vinsamlegast hafið samband til að fá nánari upplýsingar. Hægt er að senda okkur tölvupóst á info@vita.is. Síminn er 570-4444.

Hafa samband
 • Hagnýtar upplýsingar

 • Skoðunarferðir

Gististaðir

Kort

Sjá alla gististaði
 • Veðrið

 • Flugtími

  Kef FF

  4

  Morgunflug

 • Gjaldmiðill

  Evra

  Gengi

Sjá Kortasýn Sjá gististaði

Við notum vefkökur (e.cookies) t.d. til að greina umferð um vefinn og til að bæta upplifun notanda á síðunni. Með því að halda áfram að vafra um síðuna samþykkir þú vefkökuskilmála VITA

Nánari upplýsingar um vefkökunotkun