Granada

Borg Máranna

UPPSELT

Þessi ferð er uppseld. Vinsamlegast hafið samband til að fá nánari upplýsingar. Hægt er að senda okkur tölvupóst á info@vita.is. Síminn er 570-4444.

Hafa samband

Myndagallerí

Sveipuð dulúð, fegurð og leynd

18. – 25. maí 2018
Fararstjóri  Kristinn R. Ólafsson 

Það er óhætt að fullyrða að á sama hátt og Sevilla er þekkt fyrir að vera opna, létta og líflega borgin í Andalúsíu sé Granada sú borg héraðsins sem sveipuð er hvað mestri dulúð, fegurð og leynd. Granada er borg andstæðna, háskólaborg með heimsborgarbrag sem ber þess þó skýr merki að hafa verið síðasta vígi Mára í Vestur-Evrópu. Ótrúlega rík af miðaldasögu og ekki má gleyma Alhambrahöllinni; hver sem skoðar hana gleymir því seint. Hér borgar sig að leggja ferðahandbókinni og leyfa innsæinu að ráða ferðinni.
Fikrið ykkur upp eftir ævagömlum steinlögðum strætum í Albaicín og njótið útsýnis yfir Realejo-hverfið þar sem hvítkölkuð hús og afgirtir garðar renna saman í hreint magnað púsluspil. Í borginni mætast ómótstæðileg fegurð ef horft er í eina áttina og forljótar byggingar í niðurníðslu þaktar veggjakroti ef horft er í hina. Ókeypis „smætlur“ (tapasréttir) á gamaldags krám á hverju horni, frumleg götulistaverk og sjóðheitt flamenkó. Ótrúlega falleg og ögrandi í senn, hrein og bein en samt svo leyndardómsfull þar sem hún situr sem fastast í skjóli Sierra Nevada-fjallgarðsins.
Hvívetna er að finna minjar frá ýmsum tímum mannskynssögunnar og því er nóg að skoða. Grafhýsi Ísabellu og Ferdínands, kaþólsku konungshjónanna, og dóttur þeirra og tengdasonar, þeirra Jóhönnu brjáluðu og Filippusar fagra, gamaldags krár örlátar á smætlur, tehúsin þar sem arabísk ungmenni hittast yfir vatnspípum og iðandi næturlíf sveipað uppreisnaranda ungu kynslóðarinnar.
Það er engin hætta á öðru en að Granada heilli þig upp úr skónum, svo margt hefur hún upp á að bjóða. Að koma orðum yfir hvað það er nákvæmlega við borgina sem nær þessum tökum á þeim sem til hennar koma er annað mál. En kannski skiptir það ekki öllu. Við mælum með því að þú leyfir þér að slaka á og njótir alls þess sem þessi ómótstæðilega borg hefur upp á bjóða. Besti tíminn til að sækja borgina heim er á vorin og haustin, þegar sólin vermir grund og kætir geð og hitastigið er mátulegt.

Dagskrá og ferðatilhögun

Föstudagur 18.maí - Flogið til Alicante
Flogið með Icelandair til Alicante.  Brottför er kl. 13:50 og áætluð lending kl. 19:50. Ekið  á hótel Melia Alicante þar sem gist er um nóttina. 

Laugardagur 19.maí - Ekið til Granada
Eftir morgunverð er ekið til Granada og gist á hótel Melia Granada í 6 nætur. Milli Alicante eru 350 km og áætlað að aksturinn taki um 5 klst. 
Kvöldverður á hóteli.

Sunnudagur 20.maí – skoðunarferð Alhambra og Generalife garðarnir.
Ekið um Granada-borg að fallegum útsýnisstað og þá tekur við hápunktur ferðarinnar heimsókn í Alhambra-höllina og Generalife-garðana frá tímum Mára. Við göngum þar á vit márískrar listar og austurlenskra lystisemda, sjáum m.a. hinn unaðsfagra Ljónahúsgarð og komum í Hásætissalinn þar sem við lítum sjöunda himin augum í lofti hinna sjö himna. Allsstaðar hjalar rennandi vatn í bunustokkum eða gýs úr gosbrunnum og er enn sama eyrnayndið og það var Márum forðum daga. Að baki gnæfa hin ægifögru Snæfjöll -Sierra Nevada.
Frá Alhambra er ekið að Konungskapellunni. Þar berjum við augum m.a. grafhýsi kaþólsku konungshjónanna, þ.e. Ísabellu og Ferdínands, og Jóhönnu brjáluðu, dóttur þeirra, og eiginmanns hennar, Filippusar fagra, Niðurlandaprins. Endað í miðborginni. Gengið með fararstjórum sem benda á helstu kennileiti og síðan fara allir heim á eigin vegum, þegar þeim hentar.
Ferðin tekur um 5 klst og er innifalin í verði ferðarinnar: Akstur, íslensk fararstjórn og aðgangseyrir í Alhambra og Konungskapelluna. 
Kvöldverður á veitingastað í borginni.

Mánudagur 21.maí - Dagsferð til Kordóva
Kordóva (Córdoba á spænsku) er ein fegursta og sögufrægasta borg Andalúsíu og alls Spánar. Súlnaskógurinn og rauðhvítir skeifubogarnir í stórmoskunni frá miðöldum, með hina kristnu dómkirkju, eins og skrattann úr sauðarleggnum, í miðju húsi, eru skínandi dæmi þessarar dýrðar. Og utandyra er glóaldingarður moskunnar en allt um kring hvít hús miðbæjarins með blómum skreytta inngarða sína og öngstrætin þar sem sól og skuggi bregða á leik. Á steinlögðum strætunum og torgunum má nánast enn heyra fótatak allra þeirra snillinga sem settu svip sinn á staðinn allt frá tímum Rómverja. Og skammt undan líður fljótið Guadalquivir fram. Ekki furða þótt gamli borgarhlutinn hafi komist á heimsminjaskrá UNESCO 1984.
Heimsækjum stórmoskuna, göngum um fallegu göturnar í elsta hluta bæjarins þar sem frjáls tími gefst til að snæða áður en haldið er til baka.  Milli Granada og Kordóva eru 156 km.
Öll ferðin tekur 9 – 10. klst. og er innifalin í verði ferðarinnar:
Akstur, íslensk fararstjórn og aðgangseyrir í stórmoskuna, la Mezquita.
Kvöldverður á hóteli

Þriðjudagur 22.maí
Frjáls dagur í Granada borg. 

Miðvikudagur 23.maí - Dagsferð til Sevilla 
Sevilla, höfuðborg Andalúsíu á Suður-Spáni, er þróttmikil og lifandi borg sem hefur upp á margt að bjóða, m.a. byggingarlist, frábæran mat og skemmtilegar hátíðir. 
Vinsælasta hverfið fyrir ferðamenn er Santa Cruz, fegursta og mest heillandi hverfi borgarinnar. Þú getur þrætt þröngar steini lagðar götur milli kalksteinshúsa og tyllt þér niður fyrir utan bar, gætt þér á tapas og fylgst með heiminum líða hjá, eða rölt um aldagamla garða og tyllt sér á fallegan bekk.
Santa Cruz-hverfið liggur að götunum Mateos Gago, Santa María la Blanca/ San José, sem og Murillo-görðunum með Reales Alcázares-höllinni. Í Santa Cruz stóð áður hverfi gyðinga, og sumar kirknanna vorubænahús gyðinga. Frá Patio de Banderas torgi er ógleymanlegt útsýni yfir dómkirkjuna í Sevilla.
Dómkirkjan er mikilfengleg á að líta og að rúmmáli stærsta kristna kirkja veraldar. Við kirkjuna stendur kallturninn Giralda, sem márar reistu á 12 öld. Honum var síðan breytt í kirkjuturn með klukknaporti, en hann státar af 25 kirkjuklukkum og óviðjafnanlegu útsýni yfir borgina, svo það er vel þess virði að leggja á sig gönguna upp í 90 metra háan turninn. 
Við hlið kirkjunnar er höllin Reales Alcázares, sem ber listfengi mára gott vitni. Þetta er gríðarstór og glæsileg höll þar sem byggingarstíll máranna blandast skemmtilega við kristin einkenni. Mikilfengleg að utan og heillandi að innan, því að þar eru hallargarðar og fallegir skrúðgarðar, gosbrunnar og appelsínu- og sítrónulundir.
Aðalverslunargöturnar eru Sierpes og Tetuán, sem liggja samsíða. Við annan enda þeirra er La Campana og Plaza del Duque-torgið, þar sem El Corte Inglés er til húsa. Verslunarhverfið teygir anga sína inn í hliðargötur sem liggja í átt að Afalfa-torgi og nokkrar götur liggja í átt að Guadalquivir-fljóti. Á Sierpes og Tetuán eru yfirleitt bestu verslanirnar til að finna þekkt vörumerki, t.d. í Zara., og þá yfirleitt sunnudag. Einnig eru nokkrar El Corte Inglés verslanamiðstöðvar í Sevilla.
Kvöldverður á hóteli

Sevilla - borgarferð
Þegar komið er til Sevilla er ekið að að Plaza de España, kórónu 20. aldar byggingarlistar í Sevilla. Arkítektinn Aníbal González, heimamaður, hannaði byggingu við torgið í sambandi við  Íberamerísku sýninguna árið 1929. Þaðan verður haldið að Torre del Oro, Gullturninum, við Guadalquivir-fljót. Og fleira barið augum.
Þvínæst liggur leiðin í Santa Cruz hverfið, en ferð um stræti þess er veisla fyrir öll skilningarvitin. Farið verður í Dómkirkjuna í Sevilla, sem er sögð þriðja stærsta í heimi. Úr Giralda turninum, helsta kennileiti þessarar höfuðborgar Andalúsíu er óviðjafnanlegt útsýni yfir borgina - frábær endir á ógleymanlegri ferð. Milli Granada og Sevilla eru 240 km.
Ferðin öll tekur 9 – 10. klst. og er innifalin í verði ferðarinnar:
Akstur, íslensk fararstjórn og aðgangseyrir í dómkirkjuna og Giralda-turninn. 

Fimmtudagur 24.maí
Frjáls dagur í Granada borg.

Föstudagur 25.maí - heimferð
Ekið frá Granada til Alicante. Brottför flugs er kl. 20:50 og áætluð lending í Keflavík er kl. 23:20.

Sjá nánari ferðalýsingu

UPPSELT

Þessi ferð er uppseld. Vinsamlegast hafið samband til að fá nánari upplýsingar. Hægt er að senda okkur tölvupóst á info@vita.is. Síminn er 570-4444.

Hafa samband
 • Veðrið

 • Flugtími

  Kef íkon mynd af flugvél ALC

  Morgunflug

 • Gjaldmiðill

  Evra

  Gengi

Gististaðir

Kort

Sjá alla gististaði
Sjá Kortasýn Sjá gististaði