Granada helgarferð

Einkaferð Moggaklúbbsins

Ferðir
Flug
Báðar leiðir
Aðra leið

Myndagallerí

Dulúð, fegurð og flamenkó 

Beint flug með Icelandair
Helgarferð, 29. mars - 1. apríl 2019
Fararstjórar: Kristinn R. Ólafsson og Brynjar Karlsson.

Það er óhætt að fullyrða að á sama hátt og Sevilla er þekkt fyrir að vera opna, létta og líflega borgin í Andalúsíuhéraði sé Granada sú borg héraðsins sem er sveipuð hvað mestri dulúð, fegurð og leynd. Granada er borg andstæðnanna, háskólaborg með heimsborgarbrag sem ber þess þó skýr merki að hafa verið síðasta vígi Máranna í vesturhluta Evrópu. Ótrúlega rík af miðaldasögu og ekki má gleyma Alhambrahöllinni, þeir sem heimsækja hana gleyma því seint. Hér borgar sig að leggja ferðahandbókinni og leyfa innsæinu að ráða ferðinni.
Fikrið ykkur upp eftir ævagömlum steinilögðum strætum Albaicín og njótið útsýnisins yfir Realejo-hverfið þar sem hvítkölkuð hús og afgirtir garðar renna saman í hreint magnað  púsluspil. Í borginni mætast ómótstæðileg fegurð ef horft er í eins áttina og forljótar byggingar í niðurníðslu þaktar veggjakroti ef horft er í hina. Ókeypis tapasréttir á gamaldags krám á hverju horni, frumleg götulistaverk og sjóðheitur flamenkó. Ótrúlega falleg og ögrandi í senn, hrein og bein en samt svo leyndardómsfull þar sem hún situr sem fastast í skjóli Sierra Nevada fjallgarðsins á suðurhluta Spánar. 
Um borgina allar má finna minjar frá ýmsum tímum mannkynssögunnar og því er nóg að skoða. Grafhýsi kaþólsku konungsfjölskyldnanna, gamaldags krár örlátar á tapasrétti, tehúsin þar sem arabísk ungmenni hittast yfir vatnspípum og iðandi næturlíf sveipað uppreisnaranda ungu kynslóðarinnar.
Það er engin hætta á öðru en að Granada heilli þig upp úr skónum, svo margt hefur hún upp á að bjóða. Að koma orðum yfir hvað það er nákvæmlega við borgina sem nær þessum tökum þeim sem hana heimsækja er annað mál. En kannski skiptir það ekki öllu ... við mælum með því að þú leyfir þér að slaka á og njótir alls þess sem þessi ómótstæðilega borg hefur upp á bjóða. Besti tíminn til að sækja borgina heim er á vorin og haustin, þegar sólin vermir grund og kætir geð og hitastigið er akkúrat passlegt.

Albaicín

Gamla márahverfið Albaicín stendur á hæðinni á móti Alhambrahöllinni. Þrátt fyrir að borgaryfirvöld hefðu mátt standa sig betur í að halda húsakosti við og setja strangari reglur um stíl á nýbyggingum svífur andi Máranna frá því fyrir 500 árum enn yfir vötnum. Það er gaman að rölta um steinilögð strætin á milli hvítkalkaðra húsanna eða setjast að snæðingi og virða fyrir sér mannlífið við eitt af ófáum torgum þessa heillandi borgarhluta. Það er sama hvert litið er, útsýnið er ægifagurt, víða glittir í Alhambrahöllina á milli húsanna og fjallahringinn í fjarlægð. Mexíkóska ljóðskáldið Francisco A. de Icaza hafði fegurðina hér í huga þegar hann orti: Dale limosna, mujer, que no hay en la vida nada como la pena de ser ciego en Granada. Sem í grófri þýðingu gæti útlagst: Gefðu honum ölmusu, kona, því að ekkert er þungbærara en að vera blindur í Granada. Þessar línur eru oft málaðar á granadíska leirmuni, sem þekkja má af sterkbláu mynstri á hvítum grunni og eru til sölu víða um borgina. Þeir, sem leggja leið sína að útsýnisstaðnum Mirador de San Nicolás, skilja hvað skáldið átti við.

Sacromonte

Bretar bera kúluhatt á höfði með dagblað við hönd, Svisslendingar smíða úr, klífa alpana jóðlandi á tírólabuxum, Ameríkanar eru með læti, háma í sig hamborgara og keyra um á kádilják. Nokkurn veginn svona er hefðbundna ímyndin af þessum þjóðum. Ímynd Spánverja er blóðheit dökkhærð senjóríta sem dansar flamenkó með rauða rós á milli tannanna og nautaat í bakgrunni. Sacromonte-hverfið á sinn þátt í að ýta undir þessa ímynd. Sígaunarnir settust hér að fyrir 600 árum og bjuggu sér heimili í hellunum í hæðunum sem gaman er að skoða og þar komu þeir saman í dans og tónlist. Hefðir og siðir Máranna og blóðhiti og lífsstíll sígaunanna mættust og úr varð flamenkó.

Alhambrahöll

Eins og í flestum suðurevrópskum borgum eru kirkjur, söfn og áhugaverðir staðir á hverju strái í borginni. Það sem Granada hefur þó fram yfir þær flestar er ein glæsilegasta bygging álfunnar, hin stórbrotna Alhambrahöll, sem margir vilja meina að sé eitt af, ef ekki sjö þá í það minnsta tíu, undrum veraldar. Innan Alhambra eru íburðarmiklar hallarbyggingar, stórfenglegir garðar og virki sem byggð voru á mörg hundruð ára tímabili. Hér var aðsetur íslamskra konunga um aldir og hver um sig lagði sitt af mörkum til að bæta í íburðinn og fegra garðana. Í Kóraninum er himnaríki lýst sem görðum með rennandi vatni og með það í huga er ekki svo fráleitt að ímynda sér að með byggingu Alhambra hafi Márarnir ætlað að skapa það sem kæmist næst himnaríki á jörðu. Höllin er langvinsælasti áfangastaður ferðamanna á Spáni, tvær milljónir manna skoða hana á ári, 8.500 á degi hverjum. Héðan fer enginn ósnortinn.

Næturlífið

Næturlífið er fjörugt í Granada, þeir yngstu sækja barina í Pedro Alarcón en þeir sem eru komnir aðeins yfir tvítugt velja frekar staðina í nágrenni við Plaza Nueva og Calle Elvira, þó að þessi aðgreining minnki stöðugt með árunum. Áður fyrr dunaði djassinn og blúsinn á hverjum bar en eins og í miðbæ Reykjavíkur hafa borgaryfirvöld í Granada ákveðið að taka tillit til kvartana íbúanna um hávaðamengun. Víða er þó boðið upp á lifandi tónlist og besta leiðin til að kynna sér hvar, er á plakötunum sem límd eru upp um veggi víða um borgina, einna helst þó í Pata Palo, bak við Ráðhúsið á Gran Vía, eða einfaldlega spyrjast fyrir um það á börunum. Ef allt annað bregst er alltaf hægt að stóla á góðan djass og sjóðheitan flamenkó á Eshavira-klúbbnum í Calle Elvira.

Sjá nánari ferðalýsingu
Ferðir
Flug
Báðar leiðir
Aðra leið
 • Veðrið

 • Flugtími

  Kef íkon mynd af flugvél GRX

  4 klst.

  Morgunflug

 • Gjaldmiðill

  Evra

  Gengi

Gististaðir

Kort

Sjá alla gististaði
Sjá Kortasýn Sjá gististaði

Við notum vefkökur (e.cookies) t.d. til að greina umferð um vefinn og til að bæta upplifun notanda á síðunni. Með því að halda áfram að vafra um síðuna samþykkir þú vefkökuskilmála VITA

Nánari upplýsingar um vefkökunotkun