fbpx Grand Indókína er algjör ævintýraferð! Ógleymanleg upplifun.

Grand Indókína

Vietnam, Laos og Kambódía

Ferðir
Flug
Báðar leiðir
Aðra leið

Myndagallerí

Víetnam, Laos og Kambódía 

Ævintýri og unaður í mat og drykk.
Fararstjóri: Héðinn Svarfdal Björnsson

Í Suðaustur Asíu má finna sex lönd á meginlandinu sunnan við Indland og Kína, en sameiginlega hafa þau gjarnan verið nefnd‚ Indókína‘.


Indókína_Oriental_Kamputsea.jpg

Í þessari spennandi ferð á vegum VITA munum við sækja heim þrjú þeirra:  Víetnam, Kambódíu og Laos.
Við munum njóta gómsætra matarhefða í bjarma rauðra silkilampa og framandi menningarheima hvarvetna, ásamt því að bera saman þys borgarlífsins við fagra náttúruna í kring.
Sérstaklega má nefna tveggja daga siglingu um Halong-flóann í Víetnam sem á sennilega eftir að hverfa afar seint úr minni, en þar rísa upp úr sléttum, grænleitum sjónum þúsundir kalksteinsklettar þaktir dökkgrænum gróðri. 
Einnig munum við kynnast flóknum tungumálum, stríðshrjáðri sögu og friðsælum trúarbrögðum með fjarrænum styttum og veglegum hofum. Á rólegri stundum á milli dagskrárliða getur svo hreinlega verið upplifun að tylla sér með hressingu og fylgjast með ólíkum siðum og lífsmynstri en við eigum að venjast í vesturlöndum.
Á ferð okkar um þessi þrjú framandi lönd, sem hafa orðið fyrir mismiklum áhrifum frá Indlandi og Kína, verður boðið upp á fjölbreytta dagskrá og er morgunmatur ávallt innifalinn á hótelunum ásamt mörgum öðrum máltíðum (sjá ferðalýsingu hér að neðan). Samhliða er áhersla lögð á að ferðalangar hafi líka einhvern frjálsan tíma aflögu til að njóta sín eftir eigin höfði, enda lagt upp með að ferðin verði þægileg með möguleika á að hvílast í góðu yfirlæti á lúxushótelum á milli eftirminnilegra ævintýra í Indókína.

Flugtímar

Flugnúmer Dags Flugvöllur Brottför Flugvöllur Lending
FI 306 1. febrúar Keflavík 07:35 Stokkhólmur 11:40
TG 961 1. febrúar Stokkhólmur 13:30 Bangkok 05:45+1
TG 550 2. febrúar Bangkok 07:45 Ho Chi Minh 09:15
VJ 646 4. febrúar Ho Chi Minh 08:00 Danang 09:20
VN1546 7. febrúar Hue 15:46 Hanoi 18:05
QV 314 11. febrúar Hanoi 19:10 Laos 20:30
QV 525 15. febrúar Laos 11:40 Kambódía 13:40
TG 2591 18. febrúar Siem Reap 20:45 Bangkok 21:50
TG 960 19. febrúar Bangkok 01:25 Stokkhólmur 06:55
FI  307 19. febrúar Stokkhólmur 13:20 Keflavík 15:30

Leiðarlýsing

Laugardagur 1. febrúar. Flogið frá Íslandi. 
Lagt af stað með Icelandair kl. 07:35 til Stokkhólms og lent kl. 12:20. Flogið frá Stokkhólmi kl. 13:30 með Thai Airways
Kvöldverður framborinn í flugi. Nótt um borð í flugi Thai Airways. 


icelandair_ri_6523_2.jpg

Sunnudagur 2. febrúar. Lent í Bangkok og flug áfram til Saígon í Víetnam. 
Síðdegisferð um Ho Chi Minh (Saígon)
Lent kl. 05:45 í Bangkok eftir að borinn var fram morgunverður í fluginu og farið í lokafluglegginn kl 07:45 til Ho Chi Minh City (áður Saígon) þar sem lent er 09:15. 
Við komuna er ekið að hótelinu. Eftir að farþegar hafa komið sér fyrir á hótelinu og gefist tækifæri til að hvílast ögn er snæddur hádegisverður áður en lagt er í síðdegisferð um miðborgina. 
Komið verður við í helstu nýlendubyggingum borgarinnar: gamla pósthúsið, Continental-hótelið, Óperuhúsið og Ráðhúsið. Farið verður um Dong Khoi götu og á Dan Sinh markaðinn, en hann er eini markaðurinn sem enn selur muni og eftirlíkingar frá Víetnamstríðinu og jafnvel minjar frá hinu franska Indókína. Hotel de Ville, Notre Dame kirkjan, Óperuhúsið og gamla pósthúsið eru einhverjar virðulegustu og mest einkennandi byggingar nýlendutímans. En þá eru ónefnd kólóníal hótelin. Frægast er að sjálfsögðu Continental hótelið sem er leiksvið margra kvikmynda t.d. The Quiet American en þar bjó yfirleitt, Graham Greene, höfund upprunalegu bókarinnar. 
Ferðin endar á viðkomu í Stríðsminjasafninu þar sem saga Ameríska stríðsins er rifjuð upp en öll könnum við vel við það stríð sem vesturlöndin nefndu Víetnamstríðið.
Saígon heitir í raun Ho Chi Minh borg eftir frelsishetju Norður-Víetnama og kommúnistaleiðtoganum. Jafnt heimamenn sem flestir gestir tala enn um Saígon, enda hét borgin því nafni allt til 1976.
Umhverfið einkennist af arfleifð nýlendutíma Frakka sem stýrðu Franska Indókína (Víetnam, Kambódía og Laos) frá Saígon og skipulögðu borgina að franskri fyrirmynd. Boulevard-breiðstræti með vel snyrtum gróðurreitum á veglegum umferðareyjum og gosbrunna og myndastyttuhólmum. Breið hringtorg með þúsundum mótorhjóla í skipulögðu kaosi sem liðast áfram slysalaust samkvæmt aksturslagi sem virðist byggjast meira á dulvitund en aðgát og athygli. 
Ekki eru mörg ár síðan reiðhjól og þríhjól með farþegavagni voru algengustu farartækin í Saígon en í landi sem státar af einhverri hröðustu efnahagsuppbyggingu í heimi ríða nú flestir mótorfák. Það er samt einhver ljúfur sveitablær yfir Saígon. Kannski eru það einkennandi breiðbarða basthattarnir sem sjást enn víða og minna á hrísgrjónaekrur. Getur líka verið sölufólkið sem gengur með varning sinn í tágarkörfum hangandi á herðaslá. Það eru líka sérkennileg hægindi á gangstéttunum þar sem fólk situr flötum beinum eða á plaststólum og selur varning sinn. Stundum er það bara að virða fyrir sér mannlífið og ösina. 
Ólík mörgum Asískum borgum er Saígon ekki torfær gangandi vegfarendum og hún dregur gesti sína út kvöld sem morgna til verslunarferða og skemmtunar. Með breiðum götum og umfangsmiklum gangstéttum skapast götulíf sem minnir oft meira á Suður Evrópu en Asíu.
Evrópskar byggingar og stíll nýlendutímans með frönskum elegans og asískum blæ gefur Saígon einstakan brag. 
Sameiginlegur kvöldverður og gisting í deluxe herbergjum á Northern hotel í Saigon.
Innifalið: Hádegis- og kvöldverður.


northern_hotel_saigon.jpg

Mánudagur 3. febrúar. Ferð um Cu Chi göngin og hof Cao Dai. 
Cu Chi er stórmerkilegt net neðanjarðargangna sem gerð voru af Víetnömskum stjórnarandstæðingum (Viet Cong) meðan þeir börðust fyrir sjálfstæði við heri Suður Víetnam og Bandaríkjamanna og bandamanna þeirra.
Göngin nýttu hermennirnir til að komast óséðir um víðfeðmt svæði, en auk þess voru þarna hýbýli þeirra, fundarstaðir, sjúkraskýli o.fl. Það er fullyrt að göngin hafi verið veigamikill þáttur í endanlegum sigri Norður Víetnama og uppgjöf og flótta Bandaríkjamanna frá Víetnam.
En lífið var erfitt í þessum göngum. Raki og loftleysi og barátta við skordýr og meindýr einkenndu daglegt líf fólks. Fleiri létust þar úr malaríu en fyrir byssukúlum og sagt var að allir þeir sem dvöldu í göngunum hefðu verið haldnir iðraormum eða öðrum innvortis sníkjudýrum.
Bandaríkjamenn, og ekki síst Ástralskir bandamenn þeirra í Víetnamstríðinu reyndu allt til að uppræta göngin og eyðileggja þetta magnaða net, t.d. var 30 tonnum af sprengjum varpað á svæðið 7. Janúar 1966 og 8000 hermenn fóru um sveitirnar í leit að göngunum og til þess að eyðileggja þau, en án árangurs. Er þetta til marks um útsjónarsemi, elju og hörku Víet Cong manna.
Komið verður til miðborgar Saígon tímanlega fyrir kvöldverð og ekki úr vegi að rölta aðeins um nágrenni hótelsins.
Gist aðra nótt í Saigon.
Innifalið: Morgun-, hádegis og kvöldverður.


chu_chi_tunnels_1.jpg

Þriðjudagur 4. febrúar. Flogið til Danang, ekið til Hoi An.
Síðdegisferð um bæinn.
Eftir morgunverð er flogið til Danang í mið-Víetnam þaðan sem ekið er í um hálftíma að gamla verslunarbænum Hoi An.  
Gömul hús með rauða silkilampa er það sem einkennir hinn sjarmerandi bæ Hoi An sem lítið hefur breyst sl. 200 ár þegar Danang tók við sem helsta verslunarhöfn í Víetnam.  Á miðöldum var Hoi An metinn af kínverjum sem mikilvægasti verslunarstaður í allri Suð-Austur Asíu og þar versluðu einnig Portúgalar, Englendingar, Indverjar og Japanir, en þeir síðastnefndu byggðu sérstaka brú sem enn stendur og telst einkenni Hoi An.  Bærinn hefur haldið sjarma sínum í gegnum aldirnar og fegurðin leynir sér ekki þegar gengið er um gamla bæinn undir rauðum ljósum silkilampanna.  Eftir að farþegar hafa komið sér fyrir á hótelinu verður farið í stutta ferð um bæinn og nágrenni hans. 
Gist í deluxe herbergjum á Hoi An Central Boutique hótelinu.
Innifalið: Morgun-, hádegis og kvöldverður.


hoi_an_vietnam.jpg

Miðvikudagur 5. febrúar. Ferð um My Son. 
My Son eru merkustu fornleifar eða rústir fornra bygginga í Víetnam og er oft líkt við Angkor, Borobudur á Jövu, Ayuttaya í Taílandi og Bagan í Búrma hvað umfang og mikilfengleika varðar. Á þeirra blómatíma voru byggingar My Son sambærilegar en því miður eru þessar rústir svipur hjá sjón eftir sprengjuregn það sem Bandaríkjamenn helltu yfir svæðið á einni viku í stríðinu. 
My Son er heitið á því svæði sem liggur í dalverpi í um 40 km fjarlægð frá Hoi An og var frá 4 til 14 öld eftir Krist helsti vettvangur trúariðkana Champa-ríkisins sem réði yfir öllu Mið-Víetnam og stórum hluta þess svæðis sem í dag tilheyrir Laos og Kambódíu. Champar voru hindúar og byggðu svokallaða Champa-turna víða í Víetnam. My Son hofin, sem reist voru guðinum Shiva til dýrðar, eru dreifð um dalinn og á mörgum turnunum eru fallegar lágmyndir, styttur o.fl.  Síðdegið frjálst.
Gist aðra nótt í Hoi An.
Innifalið: Morgun-, hádegis og kvöldverður.


my_son_vietnam_2.jpg

Fimmtudagur 6. febrúar. Frjáls dagur í Hoi An. 
Það verður ljúft að eiga einn dag á eigin vegum en með góðum ráðum fararstjórans um afþreyingu, verslun og skemmtun.
Sundlaugarbakkinn á hótelinu, fagurhvít ströndin eða ævintýraferð um Hoi An eða nágrennið verða sjálfsagt á dagskrá.
Gist þriðju nóttina í Hoi An.
Innifalið: Morgunverður


hoi_an_vietnam_shutter.jpg

Föstudagur 7. febrúar. Ekið til Hue. Dagsferð. Flogið til Hanoi.
Eftir morgunverð er ekið frá Hoi An til Hue í 2-3 klst. (150 km). Við komu til borgarinnar hefst fjölbreytt skoðunarferð um Hue sem var áður höfuðstaður keisaraættar Víetnam.
Farið verður eftir bökkum Song Hong ánni (Perfume River) í gegnum fallega garða og stöðuvötn og að grafhýsum Nguyenkeisaraættarinn. Einnig verður Thien Mu Pagóðan skoðuðu. Þaðan verður ekið að Khai Dinh og borgarvirki Nguyenkeisaraveldisins, sem réði yfir Víetnam frá 1802 til 1945. Hallarhverfið var nefnd hin Forboðna fjólubláa borg og er skemmtileg blanda af glæsileika sem bera vott um forna hirðsiði, en eins er margt svo látlaust og alþýðlegt þar. 
Snæddur er hádegisverður af matseðli konunganna, en í Hue hefur varðveist einstök matargerð, en þó eru engir geldingar lengur til staðar til að prufa réttina til að tryggja að þeir séu óeitraðir, líkt og konungarnir höfðu að sið. 
Síðdegis er svo flogið frá Hue til Hanoí. Við komu verður ekið á hótel í miðborginni eftir langan, strangan en fjölbreyttan dag. 
Gist í deluxe herbergjum á hótel MK Premier í Hanoi.
Innifalið: Morgun-, hádegis og kvöldverður.


hue_vietnam_1.jpg

Laugardagur 8. febrúar. Dagur í Hanoí. Hálfdagsferð um borgina.
Eftir morgunverð er lagt af stað í kynnisferð um borgina.  Fyrsti viðkomustaður verður Einnar súlu pagóðan, sem reist var 1049 af keisaranum Ly Thai To og er í dag orðið sterkt einkenni fyrir víetnömsku þjóðina – einstakt lítið hof á súlu út í lítill tjörn. Næst er haldið í Bókmenntahofið sem var fyrsti háskóli Víetnam, byggt 1070 og er skemmtilegt dæmi um byggingalist og forsögu þjóðarinnar. Síðasti viðkomustaður verður svo Tran Quoc pagóðan og hof taóista sem nefnist Quan Thanh hofið. Sagan hefur varðveist mest og best í gömlum trúarlegum byggingum eins og þessi dagskrá gefur til kynna.
Ferðin endar síðdegis eftir góðan hádegisverð.
Gist aðra nótt í Hanoi.
Innifalið: Morgun- og hádegisverður


one_pillar_pagoda_vietnam.jpg

Sunnudagur 9. febrúar. Sigling um Halongflóa hefst.
Snæddur verður  morgunverður áður en ekið verður af stað til Halongflóa kl. 8.
Komið verður um hádegi að Bai Chay höfninni í Halong þaðan sem siglt er. Hádegisverður verður framborin þegar lagt er úr höfn og siglt út á flóann þar sem hið rómaða útsýni ber fyrir sjónir.
Síðdegis verður komið að eyjum þar sem róið er í land, hellar skoðaðir, flatmagað á ströndinni og róið á kajökum.
Fyrir sólarlag verður snúið aftur til bátsins þar sem við jafnvel dönsum  upp á dekki  inn í nóttina og æsum upp matarlystina  fyrir ljúffengan kvöldverðinn.
Eftir kvöldverð gefst  t.d. kostur á smokkfiskveiði við lukt. Barinn verður opinn þar til seint um kvöld.
Gist um borð í Aclass Stellar Cruise með öllum þægindum á Halongflóa.
Innifalið: Morgun-, hádegis og kvöldverður


Vietnam_sigling_Hanoi_halong_bay_029.jpg

Mánudagur 10. febrúar. Siglt um Halongflóa
Þeir árrisulu geta mætt í TaíChi tíma klukkan 6, annars verður  morgunverður framborinn á milli 7 og 8 en þá verður aftur róið á smærri bátum frá skipinu útá Lan Ha víkina sem þykir guðdómlega fögur og friðsæl. Aftur býðst að fleyta sér á kajak, t.d. inn í sjávarhella með dropasteinum. Snúið verður aftur í skip um 11 leitið þar sem tilvalið er að sóla sig upp á dekki eða fá sér einn kaldann á barnum áður en hádegiskræsingarnar verða fram bornar. 
Næsti viðkomu staður á flóanum verður  Ba Trai Dao þar sem sjósund og sólböð eru vinsæl á fínni sandströnd. 
Heimsókn í Van Gia veiðimannaþorpið verður í boði fyrir þá sem vilja róa á kajökunum. Komið aftur í skipið fyrir 17:00.
Kvöldverður klukkan 19:00 og ýmsar skemmtanir og samkvæmisleikir í boði.
Gist aðra nótt á bátnum Aclass Stellar Cruise á Halongflóa.
Innifalið: Morgun-, hádegis og kvöldverður.


Halong bay_Vietnam_sigling_Hanoi_halong_bay_142.jpg

Þriðjudagur 11. febrúar. Sigling endar og ekið til Hanoí.  Flogið til Laos.
TaíChi fyrir morgunhana. Sagt er að sólarupprás við Halong flóa sé töfrum líkust.
Eftir morgunverð kl. 8 hefst sigling aftur heim í höfn. Farið er rólega um nýjar slóðir framhjá tígurlegum kalksteins-klettaeyjum. 
Klukkan 11 er framborinn hádegisverður og komið að landi rétt um hádegi. 
Ekið aftur til Hanoí þaðan sem flogið er til Laos. Lent í Luang Prabang undir kvöld.
Luang Prabangbær er lítill, íbúar einungis um 55.000 og þó byggðin sé lágreist er hún þétt.  Auðvelt er að komast um allt á fæti eða reiðhjóli.  Þrátt fyrir þétta byggð er bærinn einhver sá grænasti sem finnst og allt í kringum árdalinn rís þéttur skógurinn á háum fjöllum og kalksteinstindum þar sem sumstaðar sést glitta í hvítt berg.
Luang Prabang er afskekkt.  Það sýnir sig glöggt þegar flogið er að borginni. Grænar breiður svo langt sem augað eygir munstraðar af fjölbreyttum gróðri, ræktun og skógarhöggi. Inná milli sjást einstaka vegir og lítil strjál þorp. Móðurfljótið Mekong sker landið og mótar með framburði og orku sinni. Að fljótinu renna minni ár og lækir sem draga að sér byggð því enn eru árnar mikilvægar samgönguæðar. Á nýlendutíma Frakka var sagt að enginn kæmist lengra frá París en til Luang Prabang og sem dæmi um hversu afskekkt borgin var á þeim tíma að það tók jafn langan tíma að ferðast frá París til Saígon eins og frá Saígon og upp Mekong til Luang Prabang. Kvöldverður snæddur við komu.
Gist í Pioneer Suite herbergjum á hótel Luang Say Residence í Luang Prabang.
Innifalið: Morgun-, hádegis og kvöldverður.


luang_say_residence_laos_luang_prabang2.jpg

Miðvikudagur 12. febrúar. Farið um Luang Prabang og siglt að Pak Ou hellunum við Mekongfljót
Þeir sem kjósa að vakna snemma, eða um 5 að morgni, geta sameinast gestum og heimamönnum með fórnir og ölmusu fyrir búddamunka sem hvern dag ganga um bæinn og safna sínum dagskatti.
Síðar um morguninn, eftir að ferðalangar hafa notið morgunverðar, er haldið í ferð um fornan miðbæ Luang Prabang.  Fyrsti viðkomustaður er Phou Si hofið sem situr á samnefndri hæð sem mælist um 100 metrar.  Leiðin er brött en þegar upp er komið bíður ferðalanga vítt og fagurt útsýni yfir borgina og árdalinn. Frá Phou Si er haldið að Wat Zieng Thong hofinu sem oft er nefnt Gullhofið og er fallega skreytt með mósaík lágmyndum. Þetta er eitt mikilvægasta hof Laosbúa, bæði fyrir listilegt handverk og forna sögu þess. Þriðja musterið sem skoðað verður er Wat Visoun og er mun alþýðlegra en áður upptalin musteri.  Visounhofið situr við upphaf nessins þar sem Namkham beygir í vestur og landið opnast til fjalla.  Þetta hof var eyðilagt í stríðsátökum á nítjándu öld en var endurbyggt í nánast óbreyttri mynd 1898.  Á altarispallinum situr risastytta af Búdda í hugleiðslustellingunni og allt í kring er ógrynni af smærri búddastyttum af laótískum, taílenskum og búrmískum fyrirmyndum.
Snæddur verður hádegisverður áður en haldið er í siglingu á Mekongfljóti. Mekong er þriðja stærsta vatnsfall Asíu og 10. stærsta í heiminum en það er enn ótamið og ósnortið miðað við mörg önnur.  Fram til 1996 hafði fljótið hvergi verið brúað í Suðaustur Asíu. Saígon við ósa Mekong er eina iðnvædda svæðið sem er nálægt bökkum hennar. Til marks um náttúrulíf fljótsins þá er talið að einungis Amasónfljótið búi yfir fjölbreyttara lífríki en Mekong. 
Siglt verður að Pak Ou hellunum sem hafa að geyma óteljandi búddagstyttur. Þessi töfrandi staður er mikill helgireitur í huga heimamanna. Á siglingunni til baka er komið við í þorpum þar sem handverkt í silkivefnaði hefur varðveist vel og í öðru þorpi sem framleiðir úrvals hrísgjrónavín. Komið heim á hótel síðdegis.
Gist aðra nótt í Luang Prabang.
Innifalið: Morgun-, hádegis og kvöldverður.


laos1.jpg

Fimmtudagur 13. febrúar. Farið um sveitir Laos, að Kuang Sy-fossunum og víðar
Eftir morgunverð er ekið út úr bænum og í átt að Kuan Sy fossunum sem eru falleg náttúruundur.  Blágrænt vatnið fellur eftir kalksteinsklettum í bolla og náttúrulegar laugar þar sem vinsælt er að baða sig og njóta náttúru og umhverfis.
Eftir hádegisverð er snúið aftur til Luanga Prabang og er síðdegið á eigin vegum.  Rétt er að nefna næturmarkaðinn í Luang Prabang þar sem einstakt handverk og ýmiss varningur er í boði.  Silki og silfur er á einstökum kjörum.  Markaðurinn hefst við sólarlag en stendur ekki lengi þar sem heimamenn taka daginn ætíð mjög snemma.
Gist þriðju nóttina í Luang Prabang.
Innifalið: Morgun- og hádegisverður


laos6.jpg

Föstudagur 14. febrúar.  Frídagur
Njótum þess að eiga notalega frídag í Luang Prabang og gistum þar um nóttina.
Innifalið: Morgunverður.


luang_say_residence_laos_luang_prabang3.jpg

Laugardagur 15.febrúar.  Morgunmarkaðurinn í Luang Prabang. Flug til Kambódíu, Siem Reap. Síðdegisferð um Angkor Wat.
Morgunmarkaður bænda í Luang Prabang er enn mátulega lágt skrifaður á listum ferðamanna að þar er gott næði til að kynnast heimamönnum, skoða framandi varning og anda að sér kyrrum morgni gamla bæjarins. Þetta er berskjaldaður veruleiki fábrotins lífs. Hænur á fæti eða nýhoggin fótur af vatnabuffaló. Lifandi slanga með hettu eða þverskorin beint á pönnuna. Samsaumaðir lifandi froskar í kippum, nýsnaraður héri hræddur í búri eða spriklandi fiskar. Steiktir silkiormar, ringlaður spói á hvolfi, hef skógarrotta eða svínablóðmör. Ef hægt er að ímynda sér dýragarð og sláturhús á sama bletti þá er það þarna. Þetta hljómar napurt og grimmt en í reynd er þetta svo ósköp eðlilegt þarna.
Eftir morgunverð er haldið á flugvöllin fyrir hádegisflug til Kambódíu. Þegar lent er í Siem Reap er haldið beint á hótel í miðbænum.
Siem Reap hefur tekið miklum breytingum síðan landið opnaðist fyrir almennum ferðalöngum fyrir um 15 árum.  Það líður varla sá mánuður sem ekki er opnað nýtt hótel í eða við bæinn og sveitaljóminn sem skein allstaðar í gegn fyrir einungis um 5 árum er að hverfa.  Þá stóðu nýreist glæsihótel við moldargötur og uxakerrur lulluðu enn um bæinn.
Khmerar eru einlæg og elskuleg þjóð, en lúin og bæld eftir áratuga ótíð.  Uppúr síðari heimstyrjöld var barist við Frakka um sjálfstæði, svo tóku við misvitrir ráðamenn, ekki batnaði ástandið með hræðilegri skálmöld Rauðu Khmeranna frá 1975 til 1978 og síðan einangrun og fátækt þeirra áratuga sem fylgdu.  Þjóðin er sem betur fer að endurheimta stolt sitt, hægt og örugglega.  Það örlar kannski á svolitlu óöryggi í samskiptum við útlendinga en glæsileg fortíð þeirra er að sjálfsögðu ekkert til að hafa minnimáttarkennd yfir.  Brosið er fallegt og viljinn til að kynnast gestum landsins og aðstoða þá í hvíetna er einlægur og laus við allan fölskva.
Við Bargötu eru margir skemmtilegir barir, eins og nafnið bendir til, auk veitingastaða, lítilla gistiheimila og nuddstofa með misvirðulegt orðspor.  Skammt frá er gamli markaðurinn; ekta asískur götubasar með látum og fjöri, nýlenduvörum í bland við tískuvarning og minjagripi, falsaða eða ekta, löglega eða þjófstolna.
Eftir góða hvíld yfir miðjan daginn á hótelinu eða á rölti um bæinn er haldið í fyrstu könnun Angkor og höfuðhofið Angkor Wat heimsótt og þess notið við sólarlag.
Angkor Wat
Höfuðdjásni Angkorborgarinnar var og er Angkor Wat sem prýðir fána Kambódíu, bjórinn og seðlana og er ótvírætt tákn og stolt Kambódíu og Khmeranna.  Hofið var byggt snemma á 12 öld á tímum konungsins Suryavarman II.  Talið er að framkvæmdirnar hafi staðaið í um 30 ár.  Hofið átti að tákna fjallið Meru, heimkynni hindúa guðanna. Hofið er skreytt með yfir 2.000 Apsara dönsurum og að innanverðu eru veggirnir þaktir lágmyndum sem sýna trúarbrögð Hindúa og þau stríð sem Suryavarman II konungur háði.
Gist í Park herbergjum á hótel Park Hyatt í Siam Reap.
Innifalið: Morgun-, hádegis og kvöldverður


angkor_wat_4.jpg

Sunnudagur 16. febrúar. Dagsferð um Angkor Thom og Ta Prohm.
Framundan er stór dagur í miklar upplifanir á undrum Angkor.
Angkor Thom og Ta Prohm
Byrjað er á að fara til Angkor Thom, sem var stjórnsýslumiðstöð Angkor og þar er fyrst farið um Suðurhliðið og haldið að Bayonhofinu, síðar Fílaveröndinni og Verönd holdsveika konungsins.
Þegar farið er frá Angkor Thom um Norðurhliðið er ekið hjá Preah Khan musterinu og að Ta Prohm hofinu.
Miðborgin Angkor Thom var síðasta höfuðborg Khmeraveldinsins undir stjórn Jayavarman VII.  Borgin er girt af með 8 m háum vegjjum sem liggja í ferhyrning. Aðal inngangurinn að borginni nefnist Suðurhliðið og er skreytt með fílshausum og fjórum stórum andlitum. Við volduga brú sem liggur að Suðurhliðinu eru raðir af 54 guðum öðru megin og jafnmörgum djöflum hinum megin sem halda á hinum heilaga Naga snáki.
Bayon hofið sem var byggt á 12 öld, er þekkt fyrir hina 54 turna sem allir eru skreyttir sama andlitinu, sem talið er vera af Jayavarman VII, einum merkasta konungi Angkor og þeim er stóð fyrir þessum byggingum.  Hver turn á að tákna eitt hinna 54 héraða Khmera veldisins.  Bayon hofið er síðasta hofið sem reist var í Angkor og það eina sem var frá upphafi tileinkað Búdda.
Einnig er áhugavert að skoða fílaveröndina og verönd holdsveika konungsins, en báðar eru þær skreyttar fallegum sögulegum höggmyndum.
Ta Prohm
Síðdegis er haldið að Ta Prohm eða "frumskógar-hofinu" sem kynnt var heiminum í kvikmyndinni Tomb Raider með Angelina Jolie. Ta Prohm var byggt af Jayavarman VII sem ríkti frá 1181 til 1220 og er talið að byggingu þess hafi verið lokið 1186.  Stíll þess er kenndur við Bayon og reisti konungurinn það til minningar um móður sína.
Hofið var lengst af búddískt og innan þess bjuggu og störfuðu munkar og æðri prestar við hirð konungs og er það víðfemt og umlukið veggjum sem mælast 700x1000 metrar.
Það sem er einstakt við þetta hof er t.d. það að ákveðið var að viðhalda því í þeirri mynd er það birtist vestrænum landkönnuðum í lok 19 aldar. Þó svo að miklum gróðri hafi verið rutt úr vegi og stígar lagðir til hæginda er þarna að sjá hve náttúran nær auðveldlega yfirhöndinni þrátt fyrir stórvirki mannsins. Samkvæmt steintöflum sem fundist hafa í hofinu og voru ritaðar á sanskrít á þeim tíma er hofið var í byggt tilheyrðu 3140 þorp þessu hofi og 79.365 manns þurfti til að viðhalda byggingum og halda uppi trúarathöfnum. Þar af voru 18 æðstu prestar, 2.740 æðri embættismenn, 2.202 aðstoðarmenn og minnst 615 dansarar sem störfuðu innan vébanda þess. Að sjálfsögðu bjó þetta fólk víða utan múra hofsins en svona taldist sóknin. Einnig eru upptaldar sumar eigur hofsins, t.d. 500 kíló af gulldiskum, 35 demantar, 40.620 perlur, 4.540 eðalsteinar, 876 slæður frá Kína, 512 silkirúm og 523 sólhlífar.
Komið heim á hótel eftir myrkur eftir langan og innihaldsríkan dag.
Gist aðra nótt í Siam Reap.
Innifalið: Morgun- og hádegisverður


anchor_thom_kambodia_3.jpg

Mánudagur 17. febrúar. Dagsferð um Tonle Sap vatnið
Eftur morgunverð er lagt af stað í ferð um Tonle Sap vatnið þar sem siglt verður um og fljótandi þorp skoðuð og óvenjulegt lífríki og menningarsvæði vatnsins kynnt.
Þar sem Mekong rennur gegnum Kambódíu myndar fljótið Tonle Sap vatnið sem er eitt stærsta ferskvatnsveiðisvæði í heimi.  Á regntímanum rís yfirborð Mekong mikið - allt að átta metrum og við það flæðir inná uppþornað Tonle Sap vatnsvæðið í gegnum 100 km lang náttúrulegt síki.  Við það vex vatnið úr 3000 km2 í um 7500 km2.  Síðar þegar árlegir þurrkatímar hefjast skilar Tonle Sap aftur miklu vatnið til fljótsins þegar yfirboð þess verður lægra en yfirborð Tonle Sap.  Þessir miklu straumar og breytingar skapa kjör aðstæður fjölbreytts lífríkis og mikillar veiði.
Gist þriðju nóttina í Siam Reap.
Innifalið: Morgun-, hádegis og kvöldverður.


tonle_sap_kambodia_3.jpg

 

Þriðjudagur 18. febrúar. Frjáls dagur í Siam Reap.  Flogið um kvöld áleiðis heim
Annar frjáls dagur í Siam Reap áður en farið er út á flugvöll. 
Við dagslok er ekið á flugvöllinn í Siem Reap þaðan sem flogið er kl. 20:45 til Bangkok og lent þar kl. 21:55, tímanlega fyrir miðnæturflug heim til Evrópu.
Nótt um borð í breiðþotu Thai Airways.
Innifalið: Morgunverður


park_hyatt_siem_reap.jpg

Miðvikudagur 19. febrúar. Heimflug. Komið til Íslands
Flogið kl. 01:25 frá Bangkok.  Lent í Stokkhólmi kl. 06:50  Morgunverður borinn fram fyrir lendingu í Svíþjóð.
Flogið kl. 13:20 frá Stokkhólmi og lent á Keflavíkurflugvelli kl. 15:30.

Sjá nánari ferðalýsingu
Ferðir
Flug
Báðar leiðir
Aðra leið
 • Hagnýtar upplýsingar

 • Verð og innifalið

 • Hótel í ferðinni

 • Veðrið

 • Flugtími

  Kef SGN

  Morgunflug

 • Gjaldmiðill

  $

  USD

  Gengi

Gististaðir

Sjá alla gististaði
Sjá Kortasýn Sjá gististaði

Við notum vefkökur (e.cookies) t.d. til að greina umferð um vefinn og til að bæta upplifun notanda á síðunni. Með því að halda áfram að vafra um síðuna samþykkir þú vefkökuskilmála VITA

Nánari upplýsingar um vefkökunotkun