Grísku eyjarnar

Ævintýraleg ferð á Mamma Mia slóðir

 • Pakkaferðir
  +
  -
  +
  -
  +
  -

  Verð frá

  369.900 kr    * Á mann m.v. 2 í herbergi. Sjá nánar verð og innifalið.

 • Flug

Myndagallerí

Meginland Grikklands og grísku eyjarnar Skopelos, Skiathos og Alonnisos.

14. - 25. júní 2017
Fararstjóri: Þóra Valsteinsdóttir.

Það tekur alla ævina að uppgötva Grikkland en aðeins andartak að falla fyrir því, sagði Henry Miller. Svo sannarlega er landið einstök paradís, með hvítum endalausum strandlengjum, tindrandi kalksteinsfjöllum, blágrænum sjó og stórkostlegum fornleifum. Náttúrperlurnar eru óteljandi hvort sem ferðast er á meginlandinu eða eyjunum og 5000 ára saga er við hvert fótmál. Það skal engan undra þegar horft er á landslagið í Grikklandi að hér urðu til frægustu sögur veraldar um guði og menn. Þessi stórkostlega sagnaarfleifð býr í Grikkjum ásamt einstakri gestristni og ástríðu fyrir hinu góða sem lífið hefur upp á að bjóða. Sandsteinsklettarnir í Meteora, véfréttin í Delfí, 500 ára gamlir feneyskir bæir, litlar tavernur uppi í fjöllum eða við sjóinn. Smáréttirnir eru mismunandi eins og þeir eru margir, siglingar á milli eyjanna, hvítþvegnu húsin með gluggahlerunum og hurðunum í öllum regnbogans litum. Bleiku þríburablómin eru engum lík eða sýningin í leikhúsinu undir tindrandi stjörnum. Að lokum má nefna stórkostlega Akrópólís, skærblátt hafið, eða bara bros gömlu konunnar uppi í fjallaþorpinu sem er nýbúin að gefa þér nýtíndar appelsínur. 
Allt eru þetta andartök sem verða að ógleymanlegum minningum eftir heimsókn til Grikklands.

Ferðalýsing

Gist verður á þremur stöðum í þessari 11 daga ferð. Eftir fyrstu nóttina í Aþenu verður dvalið í 4 nætur í Volos sem er á meginlandinu, en Volos er laglegur strand- og hafnarbær í Þessalíusýslunni. Á leiðinni til Volos verður komið við í Maraþon til að sjá minnismerkið og gröf aþensku hermannanna sem létu lífið á vígvellinum í Maraþon í orustu við Persa á 5. öld fyrir kr. Við munum einnig koma við í Þermopylai þar sem við munum skoða myndarlega styttu af Leonidas Spartverjakonungi. Frá Volos munum við síðan ferðast næstu daga og skoða m.a. Meteora sem er þekkt fyrir einstaka sandsteinskletta. Við skoðum einnig Pelionfjöllin og strandstaðinn Damouchari þar sem Dancing queen senan í Mamma mia var kvikmynduð. Eftir dvölina í Volos munum við síðan sigla með ferju yfir til Mamma mia eyjunnar Skopelos þar sem við munum dvelja næstu 4 næturnar.
Skopelos er ein af fjórum eyjum í eyjaklasa sem kallaðar eru Skrefeyjar. Hinar eyjurnar eru Skiathos, Alonnisos og Skyros. Þessar eyjar eru hver annari fegurri enda skógi vaxnar og umkringdar túrkísbláum sjó. Á dvöl okkar á Skopelos eyjunni munum við skoða bæinn Agios Ioannis þar sem brúðkaupið í myndinni Mamma mia var kvikmyndað. Næstu daga munum við svo sigla yfir til eyjanna Skiathos og Alonnisos og skoða þær yndisfögru náttúrperlur er eyjarnar hafa að geyma. Að lokum munum við síðan dvelja í 2 nætur í Aþenu þar sem við munum skoða það helsta sem sú yndislega borg hefur upp á að bjóða ásamt því að fara saman á gríska skemmtun með söng og dansi.

Flugtímar

Flugnúmer Dagsetning Flugvöllur Brottför Flugvöllur Lending
BA 801 14. júní Keflavík 11:00 London 14:50
BA 634 14. júní London 21:40 Aþena 03:15+
BA 639 25. júní Aþena 13:25 London 15:30
FI 455 25. júní London 21:10 Keflavík 23:10

Dagskrá og ferðatilhögun

Miðvikudagur 14. júní. Keflavík - London - Aþena
Flogið alla leið frá Keflavík til Aþenu með British Airways á samfelldum miða (farangur innritaður alla leið frá Keflavík til Aþenu) með millilendingu í London. Brottför er kl. 11:00 og lent í London kl. 14:50. Haldið áfram til Aþenu frá London kl. 21:40 og áætluð lending í Aþenu kl. 03:15 næsta dag.


athena_grikkland_4.jpg

   

 

Fimmtudagur 15. júní. Aþena - Maraþon - Þermopylai - Volos
Lent eftir miðnætti í Aþenu eða um kl. 03:15. Tekið á móti hópnum og ekið á hótel Divani Acropolis þar sem gist verður 1 nótt.
Eftir morgunverð hefjum við ferðina á því að keyra til Maraþon þar sem minnismerkið og gröf aþensku hermannanna stendur sem létu lífið á vígvellinum í Maraþon í orustu við Persa á 5 öld f. kr. Það var einmitt þá sem hlaupari í fullum herklæðum var sendur til Aþenu til að tilkynna konungnum um sigur og þar með varð fyrsta maraþon hlaupið til, einnig verður staldrað við á fallegum kaffistað við Maraþonvatnið en síðan haldið til Laugarskarða (Þermopylai) þar sem við munum skoða myndarlega styttu af Leonidas Spartverjakonungi, en hann leiddi 300 manna her Spartverja í gegnum skarðið og varði það í heila viku gegn miklu stærri her Persa.
Í eftirmiðdaginn munum við koma til Volos þar sem við munum dvelja næstu 4 næturnar á hótel Domotel. Volos er laglegur strand- og hafnarbær í Þessalíusýslunni.  Þaðan er hægt að ferðast í allar áttir m.a. til frægu klettanna í Meteora, Pelionskagans þar sem Grikkir til forna trúðu að væri heimkynni Kentára, og auðvitað til Skrefeyjanna sem eru staðsettar austur af skaganum. Snæddur verður kvöldverður á einum af smáréttarstöðunum við höfnina en Volos er frægur fyrir góðan mat og drykk.
Innifalið: Morgun- og kvöldverður

Föstudagur 16. júní. Volos - Meteora - Kalambaka - Volos
Árla dags höldum við til Meteora þar sem við ætlum að skoða einstaka sandsteinskletta sem eru eitt af stórkostlegustu náttúrufyrirbærum í Grikklandi og þó víðar væri leitað. Meteora þýðir "það sem hangir í lausu lofti" og klettarnir eru svo sannarlega eins og þeim hafi verið kastað af himnum ofan niður á Þessalíusléttuna.
Frá 11. til 14. öld byggðu munkar 24 klaustur uppi á toppi klettanna, en í dag eru aðeins 6 enn standandi. Við heimsækjum 2 klaustur og fræðumst um líf einsetumanna og kvenna í gegnum aldirnar. Þaðan höldum við til þorpsins Kalambaka þar sem við munum snæða hádegisverð að hætti sveitamanna.
Innifalið: Morgun- og hádegisverður


grikkland_metora.jpg

    

 

Laugardagur 17. júní. Volos - Milies- Tsagarada - Damouchari - Volos
Í dag munum við ferðast með rúmlega hundrað ára gamalli lest frá ströndinni upp í Pelionfjöllin til þorpsins Milies. Eftir stutt stopp þar förum við í rútu til þorpsins Tsagarada þar sem eitt elsta og stærsta eikartré Grikklands stendur. Þaðan höldum við á MAMMA MIA slóðir til litla strandstaðarins Damouchari. Á þessum stað var Dancing Queen senan kvikmynduð þegar aðalkvenhetjur myndarinnar tóku konurnar í sveitinni með sér út á bryggju þar sem þær hoppuðu í sjóinn. Eftir yndislega dvöl í þessari litlu vík keyrum við til baka til Volos.
Innifalið: Morgunverður

Sunnudagur 18. júní. Volos
Frjáls dagur til að njóta sólar og afslöppunar við sundlaugina eða ströndina.
Innifalið: Morgunverður


grikkland_valos.jpg

    

 

Mánudagur 19. júní. Volos - eyjan Skopelos
Um hádegisbil munum við sigla með ferju yfir til MAMMA MIA eyjunnar Skopelos, þar sem við munum dvelja næstu 4 nætur á hótel Adrina. Skopelos er ein af fjórum eyjum í eyjaklasa sem kallaðar eru Skrefeyjar. Hinar eyjarnar eri Skiaþos, Alonisos og Skyros. Þessar eyjar eru hver annari fegurri enda skógi vaxnar og umkringdar túrkís bláum sjó. Við keyrum á ströndina þar sem hótelið okkar er og um kvöldið förum við saman út að borða.
Innifalið: Morgun-, og kvöldverður


grikkland_skrefeyjar_2.jpg

    

 

Þriðjudagur 20. júní. Skopelos
Í dag munum við fara í hringferð um eyjuna þ.á.m. inn í bæinn sjálfan og til klettsins Agios Ioannis þar sem brúðkaupið í myndinni Mamma mia var kvikmyndað.
Innifalið: Morgunverður
 


grikkland_mama_mia_1.jpg

    

 

Miðvikudagur 21. júní. Skopelos - Skiathos
Förum í stutta siglingu yfir til eyjunnar Skiathos þar sem við munum rölta um bæinn til að sjá það sem hann hefur upp á að bjóða. Eftir gönguferðina verður frjáls tími til að versla og setjast niður til að fá sér drykk eða snarl.
Innifalið: Morgunverður
 


grikkland_mama_mia_8.jpg

    

 

Fimmtudagur 22. júní. Skopelos - Alonnissos
Sigling til eyjunnar Alonnissos þar sem bærinn Patitiri verður heimsóttur. Þessi bær er einhver þeirra fegurstu á öllum eyjunum með mislitum húsum, gluggahlerum og hurðum sem þríburablóm í alls konar litum umlykja og faðma. Dagurinn einkennist af útiveru þar sem við njótum að sigla meðfram ströndum eyjanna Skopelos og Alonnissos og þeir sem vilja fá kannski að stinga sér í blágrænann sjóinn.
Innifalið: Morgunverður


grikkland_skrefeyjar_3.jpg

    

 

Föstudagur 23. júní. Skopelos - Aþena
Þennan dag verður haldið til baka til meginlandsins með ferju og þaðan með rútu til Aþenu. Um kvöldið munum við borða saman á veitingastað í Plaka, elsta hverfi Aþenu með sínum þröngu göngugötum þar sem úir og grúir af veitingastöðum, kaffihúsum og verslunum. Aftur verður gist á hótel Divani Acropolis líkt og fyrstu nóttina.
Innifalið: Morgun- og kvöldverður


athena_grikkland_7.jpg

   

 

Laugardagur 24. júní. Aþena
Eftir morgunverð verður farið í skoðunarferð um Aþenu. Við munum sjá skiptingu varðanna við gömlu konungshöllina, fallegu háskólabyggingarnar, hof Seifs og ólympíuleikvanginn sem byggður var fyrir fyrstu ólympíuleika okkar tíma, árið 1896.  Síðast en ekki síst skoðum við hofin uppi á Akrópólis og röltum svo niður í Plaka til að skoða okkur um og versla ef vill. Um kvöldið munum við fara á gríska skemmtun með söng og dansi.
Innifalið: Morgun- og kvöldverður

Sunnudagur 25. júní. Heimferð
Flogið með British Airways til London og þaðan með Icelandair til Keflavíkur (tveir aðskildir miðar, þarf að ná í farangur í London og innrita áfram til Keflavíkur). Brottför frá Aþenu er áætluð kl. 13:25 og lent í London kl. 15:30.  Haldið áfram til Keflavíkur frá London kl. 21:10 og áætluð lending í Keflavík kl. 23:10.

Sjá nánari ferðalýsingu
 • Pakkaferðir
  +
  -
  +
  -
  +
  -

  Verð frá

  369.900 kr    * Á mann m.v. 2 í herbergi. Sjá nánar verð og innifalið.

 • Flug
 • Veðrið

 • Flugtími

  Kef -> ATH

  Hádegisflug

 • Gjaldmiðill

  Evra

  Gengi

Sjá Kortasýn Sjá gististaði