fbpx Kúba | Vita

Kúba

Litrík og lífleg

Ferðir
Flug
Báðar leiðir
Aðra leið

Myndagallerí

VITA býður loksins aftur beint flug til Kúbu með Icelandair

19. - 26. nóvember 2022
Fararstjórar: Kristinn R. Ólafsson og Stefán Ásgeir Guðmundsson

Kostir í boði:

 • 7 nætur í Havana 
 • 7 nætur í Varadero
 • 4 nætur í Havana og 3 nætur í Varadero.
   

Ævintýraeyjan Kúba í suðri hefur lengi heillað gesti sem þangað koma og vilja upplifa allt það sem eyjan  hefur upp á að bjóða, hvort sem það er tónlistin, vindlarnir, rommið, hvítar strendurnar eða einfaldlega hið þægilega og afslappaða andrúmsloft sem ríkir á Kúbu.


havana-kuba

Lengstum hefur heimsókn til Kúbu verið eins og að stíga aftur í tímann inn í vel varðveitt tímahylki en á síðustu árum hefur lífið á Kúbu hægt en örugglega færst í átt til nútímans. Fortíðina er þó enn að finna í húsabyggingum, sjarmerandi götumyndinni og misvel uppgerðum fornbílunum. Á Kúbu er að finna suðupott ólíkra menningarheima þar sem gætir áhrifa bæði frá Afríku og frá Spáni og bera eyjaskeggjar þess glögglega merki. Heimsókn til Kúbu er bæði ógleymanleg og töfrum líkust.

 

kuba2.jpg

 

Havana

Heimsókn til Havana  lætur engan ósnortin enda er borgin bæði mögnuð og lífleg.  Þessi tveggja milljóna manna borg á sér einnig merkilega sögu allt frá komu Spánverja á 15. öld til umbrotatíma kúbversku byltingarinnar á 20. öld.  

Gamla Havana, Habana Vieja, er þekktasti hluti borgarinnar. Hann skartar glæsilegum arkitektúr nýlendutímans og hefur fyrir þær sakir verið settur á heimsminjarskrá UNESCO. Hvergi í Ameríku er að finna jafn heillega og sjarmerandi nýlendugötumynd þar sem allt iðar af lífi og litum. Það er sérstök tilfinning að rölta götur þess hluta borgarinnar og upplifa umhverfið og mannlífið. Sumar byggingar eru að hruni komnar meðan aðrar hafa fengið langþráða andlitslyftingu. Við uppbyggingu Gömlu Havana var ákveðnum byggingum bjargað á meðan öðrum var fargað. Þar réðu menningar- og efnahagssjónarmið för.  Andi gamla tímans lifir enn góðu lífi í göngugötum Gömlu Havana og ekkert jafnast á við að rölta Obispo-götuna með vindil í munnviki og virða fyrir sér heimamenn. Stoppa kannski við á gömlum Hemingway-slóðum eða feta í fótspor sögupersónu Graham Greene í Okkar Maður í Havana. Bóhemlíf þessara rithöfunda og annarra setja enn sterkan svip á borgina. Hemingway sat gjarnan að daiquiri-sumbli á Floridita-barnum og skrifaði þess á milli Hverjum klukkan glymur á Ambos Mundos hótelinu. Á meðan elti Graham Greene uppi rúlettuborðin og ódýrar nektakabarett-sýningar og lét sögupersónu sína, ryksugusölumanninn Mr. Wormold, þvælast inn í njósnaheim kalda stríðsins.
Ýmis falleg torg eru einnig að finna í Gömlu Havana. Byggingum í kringum Stjórnarráðstorgið hefur verið vel viðhaldið og þykir gamla Landstjórahúsið frá tímum Spánverja sérlega glæsilegt. Á torginu er oft hægt að fylgjast með fornbókasölum að störfum og stundum bregður fyrir götulistamönnum. Við dómkirkjutorgið standa listagallerí, söfn og skemmtilegur veitingastaður, El Patio, þar sem hægt er að setjast niður, hlusta á tónlist og fá sér drykk.

Söfn eru víða í Gömlu Havana. Byltingarsafnið stendur þó upp úr og ætti það að vera skylda allra ferðamanna sem hafa áhuga á byltingasögu Kúbu að skoða það. Safnið er staðsett í gömlu forsetahöllinni og má m.a. finna þar ýmis gögn og ljósmyndir af Fidel Kastró og félögum í fjöllunum í Sierra Maestra, þar sem þeir börðust gegn einræðisherranum Batista. Í garði á bakvið safnið er staðsettur báturinn Granma, sem skæruliðarnir komu siglandi á frá Mexikó haustið 1956 til að komast að fyrrnefndum fjöllum. Samkvæmt dagbókum argentíska byltingarmannsins Ernesto Che Guevara var þessi sjóferð martröð líkust og hann sem læknir hópsins var mestallann tímann upptekin við að deila út sjóveikistöflum meðal illa haldinna skæruliða. Che Guevara hefur síðan orðið einskonar íkon og táknmynd byltingarinnar. Rómantísk ímynd hans sést víða um borgina. Annað safn sem vert er að skoða er Nútímalistafnið. Það er staðsett við hliðin á Byltingarsafninu og hefur að geyma merkilega kúbverska myndlist frá 19. og 20. öld.  

Við gamla þinghúsið liggur breiðgatan Prado niður að minni Havanahafnar. Við götuna standa falleg hús í ýmsum stílum og þegar komið er að hafinu blasa við tvö virki, El Morro og La Cabana,  minjar frá nýlendutíma Spánverja. Havana var í þá tíð meginbirgðarstöð spænska flotans í nýja heiminum. Allur varningur til og frá nýlendum fór þarna í gegn, t.a.m. drekkhlaðnar galeiður af silfri frá Mexíkó og vopn frá Spáni.  Havana, sem ferðamaðurinn sér og nýtur í dag, er byggð á þessum auð nýlendutímans. Við sjávarsíðuna tekur við hin fræga strandgata Malecón. Heimamenn leita mikið á þessa strandgötu seint í eftirmiðdaginn, til að spjalla og daðra. Engin kaffihús eru sjávarmegin, eingöngu lágur veggur sem fólkið situr á og lætur sólarljós Karíbahafsins leika um sig. Þetta ljós er einstakt og endurkast þess af pastellituðum byggingum Malecón er ómótstæðilegt.  

Strandgatan Malecón leiðir mann svo í vestur til Vedado-hverfis sem byggðist upp úr aldamótunum 1900. Vedado er tengt glamúrlífi bandarísku yfirstéttarinnar sem sótti í næturklúbba og spilavíti stóru hótela Havana fyrir byltinguna 1959. Þar má m.a. finna hið fornfræga Hótel Nacional sem margt fyrirmennið hefur gist á og Hótel Rivera með sixtíes-umgjörð sinni. Gamlir fornbílar sjást gjarnan í kringum hótelin og sumir þeirra eru nú nýttir sem leigubílar fyrir ferðamenn. Í þessu hverfi er Háskóli Havana, þar sem Fidel Kastró stundaði lögfræðinám sitt, og Kólumbus-kirkjugarðurinn sem hýsir marga þekkta Kúbverja, m.a. skákmeistarann Capablanca. Við suðurenda Vedado er svo Byltingartorgið. Stórt og mikið opið svæði með minnismerki sjálfstæðishetjunnar José Martí öðru megin og risa-andlitsmynd af Che Guevara á innanríkisráðuneytinu hinu megin. Torgið sjálft er heldur bert og litlaust, en pólitískt mikilvægi þess er ótvírætt. Þarna hefur Fidel Kastró haldið sínar frægu löngu ræður. Vedado-hverfið er stundum vanmetið af ferðalöngum. Það er vel þess virði að staldra þar við, skoða gömlu villurnar og fá sér ís í þekktustu ísbúð borgarinnar, Coppelíu, sem kom svo eftirminnilega fram í kvikmyndin Jarðaber og Súkkulaði.

Tónlistin er eitt helsta tjáningarform heimamanna og sá menningararfur sem þekkist hvað best utan eyjunnar. Fjölmargir frábærir listamenn hafa komið frá Kúbu og tónlistastefnur þaðan hafa farið sigurför um heiminn. Nöfn á borð við Benny Moré og Bebo Valdés þekkja margir tónlistaunnendur. Ekki þarf að hafa mörg orð um hina frægu öldunga í Buena Vista Social Club sem lögðu meira segja leið sína hingað til lands á hátindi frægðar sinnar. Þvílík rödd hjá Ibrahim Ferrer. Engin furða að íslenskir tónlistamenn á borð við Bubba og Tómas R. Einarsson hafi lagt leið sína suður til að hlusta á tónlist heimamanna. Víða um borg er að finna staði þar sem gestir geta notið tónlistar Kúbu. Spilað er á kaffihúsum, stóru hótelunum og ýmsum næturklúbbum. Út frá tónlistarlegu gildi er borgin sveipuð þokka og dulúð sem á sér enga hliðstæðu.

Maturinn á Kúbu er því miður ekki í hæsta gæðaflokki. Helsta ástæða þess er hið sósíalíska kerfi og vöruskortur sem eyjan á við að glíma. Stóru hótelin eru þó að sækja í sig veðrið og þar er einna helst að finna máltíðir sem við á Vesturlöndum erum vön og sækjumst eftir. Fyrir þá ævintýragjörnu er alltaf spennandi að þefa uppi ný heimaveitingahús, paladares, sem eru að finna víða. Sumir eru frægari en aðrir og þarf að panta borð á slíkum stöðum. Heimaveitingahúsin hafa öll sinn sérstaka sjarma, þar sem í langflestum tilfellum er verið að borða í húsum heimamanna.

Það helsta sem hægt er að kaupa á Kúbu eru vindlar, romm, kaffi og málverk. Vindlana er öruggast að kaupa í verslunum vindlaverksmiðja eða í verslunum á hótelum. Cohiba, Romeo y Julieta, Montecristo og fleiri tegundir – allt það besta sem vindlareykingamaður getur óskað sér. Varasamt er að kaupa vindla af götusölufólki. Gæðin eru því miður ekki alltaf í fyrirrúmi þar, og oft er ekki um tóbaksblöð að ræða. Málverkum þarf að fylgja útflutningsskírteini. Venjulega eru gallerí og sölumenn meðvituð um þessa reglugerð og geta útvegað skírteini svo kaupandi lendi ekki í erfiðleikum í tollinum á leiðinni úr landi. Öryggi ferðamanna á Kúbu er mikið. Samt ber að vara fólk við að götulýsingar eru ekki alls staðar og betra er að halda sig við upplýstar götur á kvöldin. Vasaþjófnaður og veskjastuld hefur þó aukist í seinni tíð með auknum ferðamannaþunga.  

 

Varadero

Strandbærinn Varadero með sínum hvítu ströndum og ylvolga sjó er staddur í tveggja klukkustunda akstri austur af Havanaborg. Bærinn stendur á tanga þar sem mikil og glæsileg uppbygging hefur átt sér stað á síðustu árum.  Aðgrunnt er á strönd Varadero og auðvelt að vaða langt í sjó fram. Þar er hægt að stunda alls kyns sjóíþóttir: fara á sjóskíði, sigla á skútum eða að fara í stangveiði. Fyrir golfáhugamenn er frábær aðstaða  á fallegum 18 holu golfvelli. Á miðjum tanganum er bærinn þar sem finna má verslanir og veitingastaði. Ef fólk vill slíta sig burt frá ljúfa lífinu í Varadero, þá er hægt að skjótast í borgarferð til Havana. Einnig er tilvalið að fara suður til Cienfuegos og Trinidad - tveggja borga sem byggðar voru upp af afrakstri sykurframleiðslu nýlendutímans og jafnvel koma við í Svínaflóa á leiðinni. Þar mistókst and-byltingarsinnum, studdir af Bandaríkjastjórn, að komast á land árið 1961 í þeim tilgangi að reka Kastró burt frá völdum. Í Varadero og nágrenni er því allt til alls til að gera fríið ógleymanlegt.

 

 

 

 

Sjá meira
Ferðir
Flug
Báðar leiðir
Aðra leið
 • Hagnýtar upplýsingar

 • Matur og menning

 • Skoðunarferðir

Gististaðir

Sjá alla gististaði
 • Veðrið

 • Flugtími

  Kef VRA

  9 klst.

  Morgunflug

 • Gjaldmiðill

  Kúbverskur peso

  Gengi

Sjá Kortasýn Sjá gististaði

Við notum vefkökur (e.cookies) t.d. til að greina umferð um vefinn og til að bæta upplifun notanda á síðunni. Með því að halda áfram að vafra um síðuna samþykkir þú vefkökuskilmála VITA

Nánari upplýsingar um vefkökunotkun