fbpx Lanzarote | Vita

Lanzarote

Einstök náttúrufegurð

Ferðir
Flug
Báðar leiðir
Aðra leið

Myndagallerí

Lanzarote, einstök náttúrufegurð

Sú fjórða stærsta í Kanaríeyjaklasanum. Dásamlegt loftslag og notalegt umhverfi
Flogið með Icelandair

Lanzarote býður upp á ótrúlega náttúrufegurð, landslag mótað af eldgosum, fallegar strendur, afslappað andrúmsloft og afþreyingu við allra hæfi. 
Eyjan er sú fjórða stærsta í Kanaríeyjaklasanum og sú sem liggur næst Afríku, 846 ferkílómetrar að stærð og íbúarnir eru rúmlega 150 þúsund. Loftslagið er nálægt því að vera fullkomið og það rignir sjaldan. Lanzarote er eldfjallaeyja og landslagið er mótað af því, þar eru hrjóstrugar hraunbreiður og hundruð gíga en eyjarskeggjar rækta gróður af alúð og skemmtilegar andstæður myndast þar sem hraunið mætir pálmatrjám og gylltum ströndum í fallegum víkum. Þess má geta að eyjan hefur flokkast sem verndarsvæði UNESCO frá árinu 1993 vegna einstakrar náttúru.


lanzarote_el_rio.jpg

Hér er margt að sjá, eldfjallaþjóðgarður, risastórir og undurfagrir hraunhellar, lón og sjarmerandi þorp. Byggingar eru yfirleitt hvítar með bláum eða grænum þökum og hurðum, að undirlagi listamannsins og arkitektsins César Manrique og má sjá handbragð hans á listaverkum í náttúrunni um alla eyjuna. 
Nokkrir fallegir strandbæir eru á eyjunni og býður VITA gistingu í þremur, Puerto del Carmen, Playa Blanca og Costa Teguise. Höfuðstaðurinn Arrecife er lifandi og skemmtilegur, og þar er hægt að skoða söfn, skella sér í búðaferð og njóta góðs matar. 


lanzarote_papagayo2.jpg

Matargerðin á Lanzarote er fjölbreytt, meira er um fisk en kjöt og maturinn er yfirleitt ekki feitur en byggist á fersku hráefni úr heimabyggð, eftir uppskriftum sem hafa gengið mann fram af manni. Fiskurinn er eldaður á alla vegu og oft borinn fram með „mojo rojo“, sterkri rauðri sósu, eða „mojo verde“, mildari grænni sósu. Ekki má gleyma ostunum, sem heimamenn eru ákaflega stoltir af, eða víninu sem er ræktað hér og hefur fengið upprunamerkingu (D.O.).


lanzarote_arricife.jpg

Þegar kemur að afþreyingu er af nægu að taka. Göngu- og hjólaferðir eru upplagðar, vatnasport af öllu tagi er í boði, seglbrettasvif, brimbrettabrun, siglingar og köfun, svo eitthvað sé nefnt. Hægt er að æfa sveifluna á fínustu golfvöllum, skemmta sér í vatnsrennibrautum eða bara slaka á og endurnærast undir geislum sólarinnar.

Strandbæirnir

Puerto del Carmen
Bærinn hvílir á skjólgóðum stað á suðausturströnd eyjarinnar, vestur af höfuðborginni Arrecife. Puerto del Carmen er einn vinsælasti áfangastaðurinn á eyjunni enda líflegur bær með fallegar strendur, verslanir og veitingastaði, fjörugt næturlíf og afþreyingu við allra hæfi. Strandlengjan skiptist upp í nokkrar fallegar sandstrendur sem ná yfir sex kílómetra og eru Grande Beach, Los Pocillos og Matagorda þær stærstu. Við aðalgötuna Las Playas, sem teygir sig eftir endilangri strandlengjunni, og í kring eru verslanir og veitingastaðir á hverju strái og barir, spilavíti og skemmtistaðir með diskótekum, sýningum og lifandi tónlist. Vitanlega fer mikið fyrir sjósporti af öllu tagi, hér er meðal annars hægt að fara á seglbretti, siglingar og stunda stjóstangveiði og köfun.


lanzarote_puerto_del_carmen3.jpg

Playa Blanca
Playa Blanca, eða Hvíta ströndin, er einstaklega friðsæll, fallegur og fjölskylduvænn bær á suðurströndinni. Á milli klettanefja liggja hvítu sandstrendurnar Dorada og Flamingo og meðfram strandlengjunni, og eins í götunum sem liggja upp í gamla bæinn, er fjöldi verslana, veitingastaða og líflegra öldurhúsa. Við annan enda götunnar er nýuppgert hafnarsvæði með einni flottustu smábátahöfn eyjarinnar með verslunarmiðstöð og veitingastöðum. 
Í næsta nágrenni við Playa Blanca er Páfagauksströndin, Playa del Papagayo, þar sem kristaltær sjórinn gutlar við hvítan sandinn í gullfallegum víkum sem vert er að heimsækja, þó kannski frekar á bíl en tveimur jafnfljótum. Þaðan er einnig stutt í Timanfaya þjóðgarðinn, La Geria vínræktarsvæðið, Janubio-salbreiðurnar, Græna lónið, Yaiza-þorpið eða Las Breñas þar sem útsýnið yfir Playa Blanca og er ómótstæðilegt. Þess má einnig geta að Frá Playa Blanca er tilvalið að skjótast á 25-35 mínútum í skoðunarferð með ferju yfir til eyjunnar Fuertaventura.


lanzarote_playa_blanca.jpg

Costa Teguise
Costa Teguise er sjarmerandi lítill strandbær austur af höfuðborginni, aðeins 10 til 15 mínútur með bíl frá flugvellinum. Hér eru skemmtilegir veitingastaðir, verslanir og barir. Hér ættu allir í fjölskyldunni að finna afþreyingu sér að skapi, því að við bæinn er bæði golfvöllur og vatnagarður og hægt er að stunda sjósport af ýmsu tagi. Byggingarnar kringum bæjartorgið, Pueblo Marinero, eru í anda César Manrique, eins og svo margt annað á Lanzarote, og þar í kring eru skemmtilegar verslanir og veitingastaðir og útimarkaður á föstudagskvöldum. Í bænum er einnig dvalarstaður spænsku konungsfjölskyldunnar á eyjunni sem Hussein Jórdaníukonungur færði Juan Carlos konungi að gjöf.
Bærinn hefur síðari ár orðið þekktur fyrir ýmsa viðburði. Heimsmeistaramót á seglbrettum og brasilísk tónlistarhátíð fara fram í júní og Costa-tónlistarhátíðin í september. 
Það sem heillar þó mest eru strendurnar, og þá sér í lagi Cucharas-ströndin fyrir seglbrettaunnendur og Bastian-ströndin, þar sem aðgengið og skjólið frá staðvindunum hentar barnafjölskyldum sérlega vel. Jablillo er einnig gullfalleg hvít sandströnd.


lanzarote_las_cucharas.jpg

Höfuðstaðurinn Arrecife
Arrecife hefur verið höfuðstaður Lanzarote frá því um miðja 19. öld, fallegur bær þar sem margt áhugvert er að sjá og gera. Á árum áður var bærinn oft kallaður Feneyjar Atlantshafsins en helsta kennileiti Arrecife er Charco de San Ginés, sjávarlónið í hjarta bæjarins þar sem fyrstu landnemarnir á eyjunni komu sér fyrir og stunduðu fiskveiðar. Í dag er lónið notað sem skipalægi fyrir smábáta bæjarbúa. Allt umhverfi lónsins var endurhannað að hætti listamannsins César Manrique og þar er fjöldi verslana og veitingastaða og einstaklega sjarmerandi andrúmsloft.
Þeir sem hafa áhuga á menningu og listum gætu notið þess að heimsækja menningarmiðstöðina El Almacén, sem hýsir listsýningar, kvikmyndahús og bar, eða Nýlistasafnið við höfnina. Í Gula húsinu, La Casa Amarilla, sem áður var ráðhús bæjarins, eru sýningar tengdar sögu og menningu Lanzarote. Frá strandgötunni er síðan hægt að fá sér göngutúr eftir hinni 175 metra löngu Bolas-brú sem byggð var á 16. öld og liggur út í San Gabriel virkið sem í dag hýsir sögusafn bæjarins. Rétt sunnan við lónið er San Ginés kirkjan en bygging hennar hófst um 1630 og er í sama stíl og einkennir svo margar aðrar kirkjur á Kanaríeyjum, blanda af barokk og austurlenskri byggingarlist en framhliðin í nýklassískum stíl. 
Vestast í bænum er El Reducto, falleg 500 metra strandlengja með gylltum sandi sem nýtur skjóls af rifinu sem liggur út af ströndinni og er sjáanlegt með berum augum á fjöru. Meðfram ströndinni liggur göngugata með börum og veitingastöðum. Austar er nýja smábátahöfnin og þar í kring má finna ýmsa afþreyingu, hægt er að fara í siglingar setjast niður á veitingastaði eða kíkja í búðir. Almenningsgarðar eru meðfram ströndinni með fallegu útsýni yfir hafnarsvæðið. 
Þess má geta að til móts við kirkjuna, á Las Palmas torgi, er skemmtilegur handverksmarkaður alla laugardaga, og miðvikudags- og fimmtudagsmorgna er útimarkaður við norðurbakka lónsins. Þeir sem kjósa hefðbundnari verslanir ættu að leggja leið sína á aðalverslunargötuna Calle Léon y Castillo og göturnar í kring og ljúka jafnvel deginum á einum af veitingastöðunum á Calle Real.


lanzarote_arrecife2.jpg

Lesa nánar um Lanzarote
Ferðir
Flug
Báðar leiðir
Aðra leið
  • Hagnýtar upplýsingar

  • Afþreying

Gististaðir

Kort

Sjá alla gististaði
  • Veðrið

  • Gjaldmiðill

    EUR

    Gengi

Sjá Kortasýn Sjá gististaði

Kortasýn

Við notum vefkökur (e.cookies) t.d. til að greina umferð um vefinn og til að bæta upplifun notanda á síðunni. Með því að halda áfram að vafra um síðuna samþykkir þú vefkökuskilmála VITA

Nánari upplýsingar um vefkökunotkun