fbpx Napólí | Vita

Napólí

Fjölbreytt og sjarmerandi

Ferðir
Flug
Báðar leiðir
Aðra leið

Myndagallerí

Napólí 

Beint flug með Icelandair
14.okt - 18.okt, 4 nætur

Fararstjórar: Guðmundur Viðar Karlsson og Stefán Á. Guðmundsson

 

Borgin

Napólí ættu allir að fá að sjá og upplifa a.m.k. einu sinni á ævinni. Þegar þú hefur séð Napólí, hefur þú séð allt. Þannig gæti hljómað í frjálslegri þýðingu ítalska máltakið „Vedi Napoli e poi muori.“ Átt er við fjölbreytileika og ómótstæðilegan sjarma þessarar suðurítölsku borgar og næsta nágrennis. Hugrenningar fara strax á flug: Við sjáum fyrir okkur marglita markaði í þröngum og krókóttum götum gamla bæjarins, opnar útidyr og þvott á snúrum milli húsa, heyrum hróp og köll og einnig milt vélarhljóð í vespum og Fíat 500 og kannski leikið á gítara og mandólín; ys og þys mannlífsins í öllum sínum tilbrigðum og tóntegundum – og finnum ilminn af pizzum sem héðan eru upprunnar. Menningarvinir geta svo hlakkað til að berja augum í borginni byggingar og listaverk frá ýmsum tímum. 

Umhverfið

Veðursæld við Napólíflóa er við brugðið og vegna fjölbreytni og frjósemi landsins og fengsælla fiskimiða var sveitin kölluð til forna campania felix eða Sæluvellir eins og Tómas Sæmundsson orðar það í ferðabók sinni. Úti á flóanum kúrir Caprí, alltaf jafn ósnortin, fersk og falleg þrátt fyrir stöðugan gestagang, og „Frá ströndinni Vesúv stoltur rís, starir sem guð yfir Paradís,“ eins og Davíð orti. Steinsnar er síðan að víðfrægum fornleifauppgreftri í Pompei þar sem endir var bundinn á lúxus og lesti fyrir tæpum tvö þúsund árum. Á stórkostlegu Museo Archeologico í Napólí má sjá óviðjafnanlegar erótískt-bersöglar freskur, mósaíkmyndir og bronsstyttur frá Pompei, aðra ómetanlega fjársjóði frá tímum Etrúra, Grikkja og Rómverja og ótal margt fleira. 

 Tónar og bókmál

Tónlistin er kannski það tjáningarform sem endurspeglar best lundarfar og lífsgleði Napólíbúa. Á 18. öld, eftir að San Carlo óperuhúsið hafði verið reist 1737, 40 árum fyrr en Scala - óperan í Mílanó, verður Napólí n.k. tónlistarhöfuðborg Evrópu. Höfuðborg hjartans kallaði Thor Vilhjálmsson borgina. Og hver kannast ekki við napólsku sönglögin O sole mio, Torna a Surriento, Santa Lucía eða Funiculí, Funiculá o.s.frv.? Bókmenntaverk á heimsmælikvarða hafa svo fært borgina nær okkur Íslendingum á undanförnum árum og áratugum: Napólísögur Elenu Ferrante nýverið um vinkonusambönd  –  og nokkrir muna enn nóvelluna  L‘arrabbiata (Sú óða) eftir Nóbelsskáldið Paul Heyse, sem kennd var í framhaldsskólum í gamla daga, og aðalpersónu hennar, hina blóðheitu „hrafntinnu“ Laurellu. 

Sagan í hnotskurn

Suður-Ítalir og Sikileyingar eiga það sammerkt að hafa þurft að þola erlend yfirráð öldum saman. Þetta hefur sett á manninn mark og mótað menningu hans. Grikkir eru taldir hafa stofnað Neapolis eða Nýjabæ um 500 f. Kr. og gríska var töluð í Napólí í eitt þúsund ár. Skákborðsgötumynstrið í gamla bæjarhlutanum er t.d. frá Grikkjum komið. Fyrir Krists burð var Napólí orðin blómlegur rómverskur bær þar sem keisararnir flatmöguðu á ströndinni í fríum sínum.  Eftir að Rómaveldi hafði gliðnað á saumunum á 5. öld voru Napólíbúar fyrst í 500 ár undir yfirráðum Austrómverska ríkisins og máttu einnig þola endurteknar innrásir Gota, Langbarða,Vandala og Mára. Síðan tók við stjórn Normana á 12. öld og svo koll af kolli stjórn Þjóðverja, Frakka, Spánverja og Austurríkismanna. Hæst reis vegur og virðing Napólí á 18. öld þegar borgin taldist um tíma vera sú næststærsta í Evrópu á eftir París. Eftir sameiningu Ítalíu á 19. öld, tóku loks nýir útlendingar, Norður-Ítalir, við taumunum. Nú er Napólí þriðja stærsta borg Ítalíu á eftir Róm og Mílanó og glímir við ýmis suðurítölsk vandamál en margt hefur breyst til batnaðar undanfarna áratugi, ekki síst í umhverfis- og siðferðismálum.

Sjá nánari ferðalýsingu
Ferðir
Flug
Báðar leiðir
Aðra leið
 • Hagnýtar upplýsingar

 • Skoðunarferðir

Gististaðir

Kort

Sjá alla gististaði
 • Veðrið

 • Flugtími

  Kef NAP

  Morgunflug

 • Gjaldmiðill

  Evra

  Gengi

Sjá Kortasýn Sjá gististaði

Við notum vefkökur (e.cookies) t.d. til að greina umferð um vefinn og til að bæta upplifun notanda á síðunni. Með því að halda áfram að vafra um síðuna samþykkir þú vefkökuskilmála VITA

Nánari upplýsingar um vefkökunotkun