fbpx Sex landa sýn | Vita

Sex landa sýn

Frá Amsterdam til Rómar

Siglingunni frestað um ár

Ný ferð áætluð 9. september 2022

Hafa samband

Myndagallerí

Sex landa sýn. Frá Amsterdam til Rómar 

Ný ferð áætluð  9. september 2022  
Celebrity Reflection 

Fararstjórar:  Svanhildur Davíðsdóttir og Karl Rafnsson

Amsterdam, Hollandi – Brugge, Belgíu – Le Havre (París), Frakklandi – Bilbao, Spáni – Lissabon, Portúgal Cadiz (Sevilla), Malaga og Cartagena, Spáni – Róm, Ítalíu.


celebrity_reflection_20.jpg

Stutt ferðalýsing
Flogið að morgni 1. September til Amsterdam, þar sem gist er í þrjár nætur fyrir siglingu. Þann 4. September er siglt af stað með Celebrity Reflection. Fyrsta stopp er Brugge og daginn eftir er komið til Le Havre í Frakklandi, eftir einn dag á siglingu er  komið til Bilbao á Spáni þar sem skipið liggur við bryggju eina nótt, eftir annan dag á siglingu er komið til Lissabon. Næsta dag er komið til Cadiz sem er hafnarborg við Sevilla, eftir að það er siglt um Gibraltasund inn í Miðjarðarhafið.  Siglt er norður með strönd Spánar og farið í land í Malaga og síðan til Cartagena. Einn dagur á sjó áður en komið er til Civitavecchia á Ítalíu og ekið til Rómar þar sem síðustu þremur dögunum er eitt í þessari ferð.

Flugtafla

Flug Dagur Brottför kl. Koma  kl.
FI 500 1. september Keflavík 07:40 Amsterdam 12:55
SK 682 19. september Róm 11:25 Kaupmannahöfn 14:00
FI 217 19. september Kaupmannahöfn 22:35 Keflavík 23:50

Siglingarleið

Dagur Áfangastaður Koma Brottför 
4.september Amsterdam, Hollandi   17:00
5.september Brugge (Zeebrugge) Belgíu 07:00 16:00
6.september París ( Le Havre), Frakklandi 07:00 21:00
7.september Á siglingu    
8.september Bilbao, Spáni  09:30   
9.september Bilbao, Spáni   17:00
10.september Á siglingu    
11.september Lissabon, Portúgal 07:00 17:00
12.september Sevilla (Cadiz), Spáni 09:30 19:00
13.september Malaga, Spáni 07:00 19:00
14.september Cartagena, Spáni 09:00 18:00
15.september Á siglingu    
16.september Róm (Civitavecchia), Ítalíu 05:00  

celebrity_reflection_4000x1595.jpg

Celebrity Reflection  var smíðað 2012 og er nýjasta og einnig stærsta skipið í Solstice klassanum. Skipið er 16 hæðir, 125.000 rúmlestir, um 319 metrar á lengd og með rými fyrir 3046 farþega.
Á efsta þilfari sem er það 16. er Solstice dekkið, þar sem hægt er að njóta útsýnisins meðan legið er á sólbekk og slakað á.
Næst efsta þilfarið með skokkbraut, setustofum, veitingastað og bar, allt með miklu útsýni. 14. þilfarið er með sundlaugum, sundlaugarbar, sólbekkjum og heilsulindinni Aquaspa. Þar eru nuddpottar, gufa, sauna og endalausir möguleikar á ýmsum dekur- og heilsubætandi meðferðum. Entertainment þilfarið er með veitingastaði, listmunasölur, kaffihús, ísbúðir o.fl.  Á Promenade þilfarinu eru litlar verslanir, vínbarir og spilavíti.
Kvöldverður eru borin fram í aðal veitingasal skipsins, sem er á tveimur hæðum. Fleiri veitingastaðir eru um borð eins og Murano sem er með úrval alþjóðlegra rétta á matseðlinum og Tuscan Grille , sem býður ítalska rétti og lúxus steikur. Bóka þarf borð og greiða þjónustugjald á sérrétta veitingastöðum skipsins, gjaldið er frá 20 – 50 usd á mann, fer eftir stöðum.
Barir og setustofur eru um allt skip og þegar kvölda tekur eru glæsilegar sýningar og uppákomur í leikhúsinu, sem er á þremur hæðum.
Vínspesíallistar frá vínræktarhéruðunum í Napa Valley eru á barnum Cellar Masters og kenna ykkur  að þekkja göfug vín og velja það besta um borð.


amsterdam_almennt_1.jpg

Ferðatilhögun

Miðvikudagur 1.september  Keflavík  - Amsterdam
Flogið með Icelandair í morgunflugi til Amsterdam  frá Keflavík áætluð lending er kl. 12:55  rútan bíður eftir hópnum og ekið er á hótel í miðborg Amsterdam  Eden Hotel þar sem gist er í þrjár nætur fyrir siglinguna.  Eftir að hafa bókað inn á hótelið og fengið sér hressingu er gengið niður að síkinu og farið í kvöldsiglingu um Amsterdam.

Amsterdam
Fáar evrópskar borgir búa yfir jafn einfaldri en um leið fágaðri fegurð og Amsterdam. Borgin er helst þekkt sem heimabær reiðhjólsins og er fræg fyrir hið nafntogaða Rauða hverfi en hún hefur upp á svo miklu meira að bjóða. Í Amsterdam færðu að uppgötva rólegan stað þar sem heimafólk upphefur gleðina sem felst í einfaldleikanum. Hér gefst tækifæri til að skoða borgina í rólegheitum og njóta þess að skoða allt það helsta í borginni. Listhneigðir sem ferðamenn munu elska að skoða verk eftir fræga listamenn eins og Van Gogh, Vermeer og Rembrant sem eru sýnd á fjölmörgum listasöfnum borgarinnar. Mikilvægur viðkomustaður er hið fræga Van Gogh safn en þar er gefin innsýn í tregafulla og ótrúlega sögu snillingsins. Það kemur kannski ekki á óvart að ein besta leiðin til að skoða borgina sé á reiðhjóli en það er mjög skemmtilegt að hjóla meðfram sýkjunum eða hjóla um borgina og leita að vindmyllum. Stoppaðu á kaffihúsi (sem þýðir eitthvað allt annað þarna um slóðir en þú átt að venjast) en þar færðu að kynnast einstakri menningu borgarinnar. Þú gætir líka eytt deginum í að rölta á milli gallería eða fara í skoðunarferð í ginverksmiðju. Það er svo sannarlega margt hægt að skoða og upplifa í Amsterdam. 


amsterdam_holland_2.jpg

Fimmtudagur 2. september Amsterdam
Eftir morgunverð er farið í hálfs dags ferð um Amsterdam. Ekið um Amsterdam vítt og breitt. Fallegar húsalengjurnar meðfram síkjunum og hallir við Dam torgið og margt fleira skoðað.


amsterdam_almennt_2.jpg

Föstudagur 3. september. Amsterdam
Frjáls dagur í hinni yndislegu Amsterdam


celebrity_reflection_1.jpg

Laugardagur 4. september. Amsterdam – Celebrity Reflection
Undir hádegi er ekið niður að höfn og farið um borð í Celebrity Reflection sem heldur af stað í siglinguna kl.17:00. Farið um borð rétt eftir hádegi og fylgst með þegar skipið siglir frá Amsterdam. Um kvöldið bíður glæsilega máltíð og skemmtun.


brugge_brussel_10.jpg

Sunnudagur 5. september. Brugge, Belgíu
Borgin Brugge eða Bruges í Belgíu er stundum kölluð „Feneyjar norðursins“ því falleg síki og rómantísk steinlögð stræti mynda umhverfi sem svipar til hinnar fallegu ítölsku borgar. Þessi fallega borgarmynd, götur og húsasund sem hlykkjast um, sýnir gestum fullkomlega varðveittar minjar sem geyma sögu og menningu miðalda. Miðborg Brugge er á heimsminjaskrá UNESCO og ganga um þann borgarhluta með myndavélina á lofti er því nauðsynlegur hluti af upplifun þeirra sem heimsækja borgina. Þeir sem elska sögu- og menningarminjar munu njóta þess að fara í siglingu um borgina og heyra fornar belgískar sögur auk þess að ganga um 19. aldar kastala á borð við Loppem eða Wijnendale. Svo er hægt að skoða Groeninge safnið, mikilfenglegt listasafn sem inniheldur verk listamanna á borð við Jan Van Eyck og Magritte.
Sem stopp í siglingu um Norður-Evrópu hefur Belgía einnig fjölmörg tækifæri til að slaka á, hvort sem farið er í skoðunarferð um brugghús eða gengið um Markt, miðaldatorg þar sem eru góð veitinga- og kaffihús. Á torginu eru vikulegir markaðir og það er í heildina góður staður til að fylgjast með daglegu lífi. Það fullkomnar svo auðvitað hverja ferð til Belgíu að prófa bjór sem bruggaður er á svæðinu og smakka nóg af súkkulaði.


loire_tours_france.jpg

Mánudagur 6. september. París ( Le Havre) Frakkland 
Le Havre er borg í Normandy héraði í Frakklandi en héraðið er staðsett á norðurströnd landsins. Þrátt fyrir að Le Havre eigi sér langa sögu um sjómennsku er borgin í dag þekktust meðal ferðamanna fyrir að vera aðkomuleið þeirra að París. Þegar farið er með skipi til Parísar er lagt að bryggju í Le Havre sem er næststærsta höfn í Frakklandi en nafnið á borginni þýðir meira að segja „höfnin“.
Hefðbundið sjávarloftslag sem oftar en ekki er vindasamt þarna við strandlengjuna, mætir gestum sem koma við í Le Havre í siglingu um Evrópu, á leið sinni til Parísar. Þegar nálgast er höfuðborgina tekur við hlýrra og þægilegra veðurfar, sérstaklega á þeim tímum sem flest skemmtiferðaskip koma til Le Havre og Parísar, á vorin og á sumrin.


celebrity_reflection_7.jpg

Þriðjudagur 7. september. Á siglingu
Dagur til að njóta þess sem boðið er upp á í skipinu, á meðan siglt er áleiðis til Bilbao. Mikið um að vera og margt hægt að skoða og gera. Líkamsræktin eða leggjast á bekk og láta dekra við sig í nuddi eða bara njóta sólarinnar á sundlaugardekkinu. Einnig hægt að vera innandyra, sitja á kaffihúsinu eða á einhver af þeim fjölmörgu námskeiðum sem í boði eru.


bilbao_guggenheim.jpg

Miðvikudagur 8. og fimmtudagur 9.September  Bilbao, Spáni
Celebrity Reflection kemur til hafnar í Bilbao kl. 9:30 að morgni og er í höfn í tvo daga eða til kl 17:00 næsta dag.
Bilbao er fjölmennasta borg Baskalands og höfuðstaður Biskajahéraðs, á Norður-Spáni, skammt frá landamærum Frakklands.
Bilbao hefur umbreyst úr einskonar ljótum andarunga í fagran svan síðustu ár. Hún hefur fengið róttæka andlitslyftingu, gengið í gegnum mikla lýtaaðgerð þar sem borgarskipulag hefur verið bætt og ýmiskonar grunnvirki endurnýjuð. Þessar borgarbætur hafa verið drifkraftur endurreisnar og nýs lífs fyrir íbúa og gesti. Ferðaþjónusta hefur blómstrað hin síðari ár af þessum sökum. Í reynd má segja að ný Bilbao hafi þannig risið úr rústum iðnaðarkreppu níunda áratugar síðustu aldar og umbreyst í fallega og mannvæna borg. Þar ber hæst hið útlitsfagra Guggenheim-safn eftir Kanadamanninn Frank O. Gehry. En fleiri byggingarlistardjásn hafa orðið til. Ráðstefnu- og tónlistarhöllin Euskalduna er í þeim hópi. Einnig nýtt jarðlestakerfi sem breski arkitektinn Norman Foster hannaði. Santiago Calatrava, frægasti núlifandi arkitekt Spánverja, teiknaði nýja flugstöð við flugvöllinn skammt utan borgarinnar. Eftir hann er einnig Zubizuri – Hvíta brú – en hún bættist fyrir nokkrum árum við þær brýr sem liggja yfir Nervión-fljót í borginni. Á bökkum þess, skammt frá  Guggenheim og Hvítu brú, gnæfa og ný háhýsi eftir þá Arata Isozaki frá Japan og César Pelli frá Argentínu. Margt fleira er nýtt af nálinni eða uppgert og endurbætt.
Bilbao stendur í kvos meðal iðjagrænna hæða. Áðurnefnt Nervión-fljót rennur í gegnum hana. Í fljótinu gætir sjávarfalla og skipgengt er upp til borgarinnar. Fyrr á tíð var höfn þar en hún var færð til strandar.


celebrity_reflection_5.jpg

Föstudagur 10. september. Á siglingu
Heill dagur til að njóta lífsins um borð í skipinu, sem nú siglir nú til Lissabon í Portúgal. Njótið þess að skoða skipið, leggjast á sólbekk við sundlaugina og smakka hina litskrúðugu og ljúffengu kokteila sem barþjónarnir blanda.
Einnig má fara í búðir, á málverkauppboð - eða kannski á matreiðslunámskeið, danskennslu eða sækja fyrirlestur.
Matur og drykkur allan daginn, svo bíður 3ja rétta kvöldverður og glæsileg sýning um kvöldið.


lissabon_lisbon_portugal_1.jpg

Laugardagur 11. september. Lissabon, Portúgal
Sagt er að besta leiðin til að kynnast borginni sé að villast í gamla borgarhlutanum. Dásamlegt er að rölta um hin þröngu steinlögðu stræti. Ekki er verra að detta inn á Art Noveau kaffihúsin við Rossio og Praca do Commercio eða önnur þjóðsöguleg kaffihús og horfa í kring um sig á mannlífið. Skoða forna listmuni og nútímalist á söfnum á borð við Gulbenkian safnið, Nútímalistasafnið, Berardo hönnunarsafnið og öðrum víðfrægum söfnum. Hér úir og grúir af menningu, vilji maður það við hafa. Hér eru líka allskonar verslanir út um allt, verslunarmiðstöðvar og ótrúlegir flóamarkaðir og sérbúðir í bland við hátískuna.
Að nálgast Lissabon af hafi, eða sunnan yfir "25. apríl brúna" og upplifa hvernig borgin breiðir út faðminn móti komumanni, er mynd sem enginn getur gleymt sem upplifað hefur. Þá skilur maður gælunafnið sem hún fékk á öldinni sem leið - Hvíta perlan í suðri.
Íslenskir salt- og saltfisk- kaupmenn, sem þangað sóttu voru líka metnir sem þjóðhöfðingjar - mennirnir frá eyjunni norðlægu, þaðan sem besti saltfiskurinn kom - saltfiskurinn sem skyldi verða jólamáltíðin. Gilti þá einu hvað einvaldurinn og harðstjórinn Antonio de Oliveira Salazar lagði á þjóð sína af klöfum og harðræði.
Hann ákvað að "Bacalao Islandia" skyldi verða á borðum ríkra og fátækra á jólum.


sevilla_almennt_3.jpg

Sunnudagur 12. September Sevilla (Cadiz) Spáni
Celebrity Reflection kemur til Cadis sem er falleg lítil hafnarborg staðsett á suðvestur strönd Spánar sem gaman er að heimsækja í aðeins um klukkustundar akstri frá Sevilla.
Sevilla, höfuðborg Andalúsíu á Suður-Spáni, er þróttmikil og lifandi borg sem hefur upp á margt að bjóða, m.a. byggingarlist, frábæran mat og skemmtilegar hátíðir.
Vinsælasta hverfið fyrir ferðamenn er Santa Cruz, fegursta og mest heillandi hverfi borgarinnar. Þú getur þrætt þröngar steini lagðar götur milli kalksteinshúsa og tyllt þér niður fyrir utan bar, gætt þér á tapas og fylgst með heiminum líða hjá, eða rölt um aldagamla garða og tyllt sér á fallegan bekk.
Santa Cruz hverfið liggur að Calles Mateas Gago, Santa Maria La Blanca/ San José, Jardines de Murillo og Alcázar hverfunum. Það var áður hverfi gyðinga, og sumar kirkjanna voru áður bænahús gyðinga. Frá Patio de Banderas torgi er ógleymanlegt útsýni yfir dómkirkjuna í Sevilla.
Dómkirkjan er mikilfengleg á að líta og að rúmmáli stærsta kristna kirkja veraldar. Upp úr kirkjunni stendur bænaturninn Giralda, sem márar reistu á 12 öld, en hann státar af 25 kirkjuklukkum og óviðjafnanlegu útsýni yfir borgina, svo það er vel þess virði að leggja á sig gönguna upp í 90 metra háan turninn.

 


malaga_spain_2.jpg

Mánudagur 13. september. Malaga, Spánn
Það er ekki að ástæðulausu að vinsældir Malagaborgar á Costa del Sol hafa vaxið jafnmikið undanfarið meðal ferðalanga og raun ber vitni. Í áraraðir féll þessi fagra borg í skuggann af öðrum borgum í Andalúsíu, eins og  Granada, Kordóva og Sevilla, en það er liðin tíð. Matargerðin jafnast á við það sem best gerist í Barcelona og menning og listir á við það sem við þekkjum í Madrid. Listmálarinn Picasso var fæddur í borginni og haft var eftir honum að þeir einir sem gætu kallað sig sanna kúbista hefðu fæðst í Malaga.
Margt er einstaklega áhugavert að skoða í Malaga, eins og borgarvirkið Alcazaba, dómkirkjan og nýlega uppgerði gamli bærinn eins og hann leggur sig. Þeir sem hafa hinn minnsta áhuga á listum og menningu ættu ekki að láta Picasso safnið og nútímalistasafnið CAC Malaga Contemporary Art Center fram hjá sér fara og sóldýrkendur mega ekki sleppa því að koma við á La Malagueta ströndinni. Þá er vert að nefna að útsýnið er ekki af verri endanum frá Gibralfaro kastala. Til að slaka á og njóta augnabliksins er upplagt að fá sér göngutúr eftir Paseo del Parque og telja dropana sem þyrlast upp úr gosbrunnunum eða rölta um Puerta Oscura lystigarðinn, til að njóta einfaldlega fegurðar umhverfisins.


cartagena_spain_1.jpg

Þriðjudagur 14. september. Cartagena, Spáni
Hafnarborgin Cartagena liggur á suðausturströnd Spánar, umlukin fimm hæðum sem mynda náttúrulegt hafnarstæði. Cartagena, eða Nýja-Karþagó, var höfuðvígi Karþagómanna þegar þeir réðu lögum og lofum á Spáni fyrir Krist og nefndu þeir hana því eftir höfuðborg sinni. Sagan, allt aftur til fornaldar, drýpur því af hverju strái á hafnarsvæðinu. Borgin er umlukin múrum, virkisveggir umkringja höfnina og víða má sjá rómverskar rústir.
Það er heillandi og því gott að gefa sér góðan tíma til að rölta eftir þröngum götunum sem eru svo einkennandi fyrir gamla bæjarhlutann eða slaka bara á og setjast niður á einu af kaffihúsunum, börunum eða veitingastöðunum við sjávarsíðuna.


celebrity_reflection_6.jpg

Miðvikudagur 15. september. Á siglingu
Síðasta dagsins er notið á skipinu. Hvort sem kosið er að vera úti á dekki í sólinni og láta stjana við sig og skemmta af starfsfólki skipsins eða vera innandyra þar sem margt er um að vera, hvort sem er útsölur á göngugötunni, taka á því í ræktinni, láta stjana við sig í nuddi eða öðru í heilsulindinni. Einnig er hægt að njóta þess að vafra um skipið.


celebrity_constellation_rome_vatican_st_peters_basilica_1.jpg

Fimmtudagur 16. september. Róm ( Civitavecchia) Ítalíu
Komið til hafnar í Civitavecchia snemma morguns og þegar komið er frá borðið bíður rútan og ekur með hópinn inn til Rómar. Þegar komið er til Rómar er byrjað á því að skoða Vatíkansafnið sem hýsir stórkostlegustu verk klassíska tímans og endurreisnarinnar. Úr Vatíkansafninu er gengið í Sixtínsku kapelluna þar sem margrómuð verk endurreisnarinnar prýða veggina. Stórkostlegastar af þeim öllum eru loftmynd Michelangelos af sköpun heimsins og mynd hans af dómsdegi á gaflinum fyrir ofan altari páfa. Að skoða þessi verk er vart með orðum lýst. Þaðan er gengið í eina stærstu og fegurstu kirkju kristninnar, Péturskirkjuna, sem er helgasta kirkjan í kaþólskum sið og reist yfir gröf Péturs postula. Þá er ekið til hótels og tékkað inn. Gist er á The Hive hotel næstu 3 nætur.


celebrity_constellation_europe_trevi_fountain_rome.jpg

Róm
Fáar borgir vekja aðra eins aðdáun og heilla jafn mikið og Rómarborg þar sem fortíð og nútíð renna saman á einstakan máta.
Borgin eilífa hefur hún verið kölluð og ber nafn með rentu. Rómaborg hefur um aldir verið sögusvið keisara, páfa og pílagríma sem lagt hafa leið sína til borgarinnar í gegnum aldirnar. Engin borg stenst samanburð við Róm þegar kemur að sögufrægum stöðum og byggingum. Hér er Péturskirkjan, Vatíkanið, Sixtínska kapellan með stórkostlegum málverkum eftir Michelangelo og aðra listamenn, Rómartorgið eða Foro Romano, Kólósseum, Panþeon og Navónutorg.
Hér skópu frægustu meistarar endurreisnarinnar og barrokktímans sín fegurstu verk sem gera borgina að risavöxnu listasafni. Róm er líka borg hinna glæsilegu gosbrunna og er Trevíbrunnurinn líklega þekktastur eftir að Fellini notaði hann í atriði í mynd sinni Hið ljúfa líf, La Dolce Vita.
Í Rómarborg er meira að skoða en í nokkurri annarri borg í heiminum og aðeins er hægt að krafla í yfirborðið á fáum dögum. Helsti kostur borgarinnar er þó að stutt er á milli allra áhugaverðu staðanna en það er þægilegt að ganga í Róm og alls staðar eru garðar og torg til að hvíla lúin bein.
Róm er líka ein af háborgum tískunnar og engir eru Ítölum fremri þegar kemur að hönnun og tísku. Það er gaman að versla í Róm, hvort sem er í verslunum heimsfrægra hönnuða, eða í freistandi sérverslunum við Spænsku tröppurnar eða á hinum líflega flóamarkaði, Porta Portese.

 


celebrity_constellation_colosseum_rome_1.jpg

Föstudagur 17. september. Róm
Skoðunarferð: Hálfs dags ferð að skoða Kólosseum og Forum Romanum.
Ekið er að voldugasta hringleikhúsi heims, Kólosseum. Það er í senn tákn borgarinnar en einnig þess tíma þegar þrælar og kristnir menn þurftu að berjast fyrir lífi sínu meðan æstur múgurinn hrópaði á meira blóð. Bygging Kólosseum hófst rúmlega 70 e. kr. en talið er að féð til byggingarinnar hafi komið úr ránsfeng úr musteri gyðinga í Jerúsalem. Þegar mannvirkið er skoðað undrast maður tækni og listfengi Rómverja fyrir tvö þúsund árum. Frá Kólosseum er gengið út á gamla rómverska torgið, Forum Romanum, þar sem fornminjarnar eru skoðaðar, en þetta er eitt stærsta fornleifasafn heims og allt utanhúss. Þaðan er gengið upp á Kapitolhæð þar sem m.a. ráðhús Rómar stendur í dag. Ekið til baka á hótelið, en þeir sem vilja geta verið eftir í bænum og farið heim á eigin vegum.


celebrity_constellation_rome_vittorio_emanuele_monument_2.jpg

Laugardagur 18. september. Róm
Tökum daginn rólega. Ekki er skipulögð skoðunarferð.


celebrity_reflection_19.jpg

Sunnudagur 19. september. Heimferð
Tékkað út af hótelinu og ekið út á flugvöll, flogið með SAS  til Kaupmannahafnar kl. 11:25 og síðan áfram með Icelandair til Keflavíkur. Áætluð lending í Keflavík er kl. 23:50

Sjá nánari ferðalýsingu

Siglingunni frestað um ár

Ný ferð áætluð 9. september 2022

Hafa samband
 • Hagnýtar upplýsingar

 • Verð og innifalið

Gististaðir

Kort

Sjá alla gististaði
 • Veðrið

 • Flugtími

  Kef AMS

  4 klst

  Morgunflug

 • Gjaldmiðill

  Evra

  Gengi

Sjá Kortasýn Sjá gististaði

Við notum vefkökur (e.cookies) t.d. til að greina umferð um vefinn og til að bæta upplifun notanda á síðunni. Með því að halda áfram að vafra um síðuna samþykkir þú vefkökuskilmála VITA

Nánari upplýsingar um vefkökunotkun