Suður Afríka, ævintýraferð

Safarí, sagan og sælkeramatur

Ferðir
Flug
Báðar leiðir
Aðra leið

Myndagallerí

Yfirgripsmikil og ógleymanleg

9. til 25. október 2019
Fararstjóri er Ólöf Salmon Guðmundsdóttir

Kynningarfundur með fararstjóra á skrifstofu VITA, Skógarhlíð 12
24.janúar kl. 17:30. Gengið inn neðan við húsið – gegnt Bústaðarvegi.

Upplifum sögu, menningu, landslag, eðalvín og sælkeramat. Við munum komast í návígi við helstu gersemar Suður Afríku í þessari mögnuðu 17 daga / 16 nátta ævintýraferð.
Í bland við stórbrotið landslag, litríka menningu og einstakt dýralíf verður lögð áhersla á góðan mat og gæðavín í fögru umhverfi í þessari sælkeraferð. 
Við lendum í Jóhannesarborg og fljúgum heim frá Cape Town.

sudur_afrika_johannesburg.jpg 

Jóhannesarborg og nærliggjandi Soweto fátækrahverfin verða skoðuð og farið á áhrifaríkan hátt yfir þá sögu sem þetta svæði hefur að geyma.
Haldið verður í Kruger þjóðgarðinn sem er eitt merkilegasta svæði fyrir vilt dýr í heimsálfunni Afríku. Þarna komumst við í mikið návígi við tilkomumikil dýrin í sínu náttúrulega umhverfi.

sudur_afrika_ngala_safari_lodge_2.jpg 

Við höldum svo til Durban sem er á austurströndinni, en þaðan verður farið í dagsferð inn í undurfagran Dal Hinna þúsund hæða. Heimsækjum við m.a. Phezulu Safari garðinn, Cultural Village, og Krókódíla og snákagarð. Við verðum vitni að undurfögru sólarlagi þar sem sólin varpar geislunum sínum á víðáttur Indlandshafsins.

sudur_afrika_dalur.jpg 

Við njótum þess að líða áfram í íðilfögru landslagi Garðleiðarinnar (The Garden Route) en það er ökuleið eftir suðurströnd Suður Afríku sem teygir sig alla leið frá Port Elizabeth til Capetown. Hópurinn mun dvelja nálægt strandbænum Knysna. Farið verður í Fílagarðinn í Knysna, en þar hafa munaðarlausir fílar átt athvarf og heimili undanfarna áratugi.

sudur_afrika_knysna2310x1604.jpg 

Leið okkar mun liggja inn í hinn ljúfa smábæ Franschhoek þar sem Hugenottar (meðlimir frönsku siðabótakirkjunnar) numu land og hófu vínrækt á þessum fallega stað á 17. öld. Við munum fara um gróðursæl vínhéruð og una okkur við að smakka hin ýmsu eðalvín.

sudur_afrika_franschhoek4.jpg 

Í Cape Town mun hópurinn gista á fimm stjörnu hóteli á hinu marg rómaða bryggjusvæði (Waterfront) þar sem mikið er um skemmtilegar uppákomur, smáverslanir, veitingahús og líflega mannflóru. Hópurinn mun fara á Robben eyju þar sem Nelson Mandela var í fangelsi megnið af þeim 27 árum sem hann var í haldi. Ýmislegt markvert verður skoðað í Cape Town, eins og lesa má nánar hér að neðan í ferðalýsingu frá degi til dags.
Farið verður á Borðfjall (Table Mountain), ef veður leyfir, þar sem mikilfenglegt útsýni er yfir þetta einstaklega fagra borgarstæði. Einnig má nefna að við munum heimsækja boutique vínekru þar sem hópurinn mun fara í osta og vínpörun ásamt því að taka þátt í að undirbúa Suður Afríkst Braai,  Braai brdddjies, borða máltíðina og spjalla við vínekrubóndann í fallegur umhverfi.
Valkvæmt verður að fara í dagsferð til Góðravonahöfða og skoða í leiðinni heimkynni afrísku mörgæsanna á Boulders Beach.  

sudur_afrika_utsyni.jpg 

Í heild sinni er þetta 17 daga ferðalag yfirgripsmikil ævintýraferð sem veitir ferðalangi mikla upplifun þegar kemur að sögu, menningu, jurta og dýraríki, mögnuðu landslagi, eðalvínum og sælkeramat í þessu stórbrotna landi Suður Afríku. Ferðin mun skilja mikið eftir sig og líklegt að hún láti ekki  nokkurn mann ósnortinn.

Leiðarlýsing

Miðvikudagur 9. október. Keflavík til Jóhannesarborgar.
Lagt af stað frá Keflavíkurflugvelli að morgni dags þann 09. október 2019.
Millilent verður í London en þaðan fljúgum við til Jóhannesarborgar og lendum þar að morgni dags þann 10. október 2019.

sudur_afrika_nelson_mandela_bridge.jpg 

Fimmtudagur 10. október. Jóhannesarborg.
Eftir lendingu verður tekið á móti hópnum á flugvellinum og ekið inn í Jóhannesarborg. Við skráum okkur inn á Protea Marriott hótelið þar sem við dveljum á meðan við erum í borginni . Þessi fyrsti dagur er vel til þess fallinn að skoða sig um í næsta nágrenni við hótelið eða þá að nýta hann til að slaka á eftir langt ferðalag, fara í ræktina eða bara sólbað í fallegum hótelgarðinum. Um kvöldið munum við fara út að borða á Signature Restaurant. Sá kvöldverður er ekki innifalinn í verði en þeir á Signature bjóða upp á ljúffengan alþjóðlegan mat. Hér er að finna yfirgripsmikinn matseðil þeirra. 

sudur_afrika_protea_marriott_480x320.jpg 

Föstudagur 11. október. Jóhannesarborg. 
Eftir staðgóðan morgunverð fer hópurinn á söguslóðir. Ferðinnni er heitið inn í Soweto sem er þyrping margra smáþorpa vestan við Jóhannesarborg. Þar mun hópurinn skoða sig um hverfin í fylgd innfædds leiðsögumanns, heimsækja Hector Pieterson minnisvarðann, Nelson Mandela fjölskyldusafnið sem er staðsett á fyrrum heimili Mandela o.fl.  Hádegisverður er innifalinn en ekki drykkir. Að loknum hádegisverði fer hópurinn í Aðskilnaðarstefnusafnið. Þar hafa sagnfræðingar, kvikmyndagerðarmenn, hönnuðir og safnafólk komið upp sýningu sem lýsir aðskilnaðarstefnunni í Suður Afríku á áhrifaríkan hátt, allt frá upphafi til endaloka hennar. Hópnum er skilað aftur á hótelið um kl 17:30. Þá gefst frjáls tími þar sem hægt er að  dusta af sér ferðaryk dagsins og mæta svo í fordrykk um kl.18:30. Kvöldverður verður snæddur á hótelinu og er maturinn innifalinn en ekki drykkir.

sudur_afrika_soweto480x320.jpg 

Laugardagur 12. október. Jóhannesarborg til Kruger.
Við skráum okkur út af hótelinu í Jóhannesarborg eftir morgunverð og höldum til OR Tambo flugvallar þar sem við tökum flugið til Eastgate flugvallarins (HDS).  Við komuna verður tekið á móti okkur og ekið til Ngala Safari lodge við Kruger þjóðgarðinn, en þar munum við dvelja á meðan við erum á svæðinu. Hér munum við upplifa lúxuslíf og verður stjanað við okkur í mat og drykk þar sem við leitum í ævintýraheim dýranna. Þennan fyrsta dag komum við okkur fyrir, fáum síðbúna hádegishressingu og förum svo með reyndum leiðsögumönnum út á slétturnar að skoða dýrin.
Í kjölfar safari ferðarinnar er frjáls tími þar til hópurinn borðar saman kvöldverð sem er innifalinn. Á meðan við dveljum í Kruger þjóðgarðinum eru allar skoðunarferðir innifaldar og matur, en ekki drykkir.

sudur_afrika_ngala_safari_lodge_2.jpg 

Sunnudagur 13. október. Kruger.
Í dag vöknum við í morgunsárið, fáum okkur kaffibolla og höldum út í buskann þar sem við upplifum ævintýraheim dýranna. Að því loknu mætum við aftur í Ngala og fáum morgunverð. Á milli máltíða og ökuferða um slétturnar eru stundir sem upplagt er að hver og einn nýti til slökunar að vild. Hægt er að bregða sér í laugina eða panta sér nudd, nú eða taka gott spjall við ferðafélagana. Hádegisverður er framreiddur á meðan dýrin sofa, en þau hvíla sig gjarnan yfir heitasta hluta dagsins. Við förum svo og heimsækjum dýrin aftur seinnipart dags.
Kvöldverður er borinn fram í Ngala í kjölfar síðdegissafaríferðarinnar. 

sudur_afrika_ngala_safari_lodge480x320.jpg 

Mánudagur 14. október. Kruger til Durban.
Í dag endurtökum við leikinn, vöknum í morgunsárið, fáum okkur kaffibolla og kynnum okkur frekar ævintýraheim dýranna. Að því loknu mætum við aftur í Ngala og fáum morgunverð. Við útskráningu frá Ngala fáum við hádegisverð í boxi til að taka með okkur inn í daginn. Tökum svo flugið frá Eastgate flugvellinum til King Shaka Flugvallarins í Durban. Við komuna til Durban verður tekið á móti hópnum og farið með okkur til gististaðar okkar næstu nætur, en það er Protea Hotel by Marriott Durban Umhlanga. Hótelið er í örfárra mínútna akstursfjarlægð frá strönd Indlandshafsins og eru nokkur veitingahús og barir þar þar sem gleðja góða sælkera. Sólsetrið á góðu kvöldi er ógleymanlegt þegar sólin varpar rauðglóandi litadýrð yfir himin og haf.

sudur_afrika_durban.jpg 

Þriðjudagur 15. október. Durban. 
Eftir staðgóðan morgunverð mun rútan mæta á hótelið og sækja hópinn. Þennan dag förum við í leiðangur inn í Dal Hinna þúsund hæða sem skartar mikilli náttúrufegurð. Þar verður Phezulu Safari garðurinn heimsóttur og einnig farið í heimsókn í Cultural Village. Við fáum leiðsögn um þorpið og eigum góða stund með fólki af Zulu ættbálknum sem munu fremja ýmsa gjörninga fyrir okkur. Einnig verður farið í leiðangur með traustum leiðsögumanni inn í krókódíla og snákagerð. Þessi dagur færir okkur nær arfleifð og menningarheimi Zulu manna og Dalur Hinna þúsund hæða innrammar ferðina á eftirminnilegan hátt með fögru landslagi. Síðbúinn sameiginlegur hádegisverður fyrir þá sem það vilja verður í kjölfar ferðarinnar. Svo má t.d. eiga kyrrðarstund seinnipartinn eða fá sér göngutúr á fallegri ströndinni. Kvöldið er frjálst.

sudur_afrika_durban480x320.png  

Miðvikudagur 16. október. Durban til Knysna. 
Eftir morgunverð og útskráningu af hótelinu mætir rútan og fer með okkur á King Shaka flugvöllinn. Þaðan tökum við þetta síðasta innanlandsflug okkar frá Durban til Port Elizabeth flugvallar. Við komuna þangað, sækir okkur sem fyrr eðalrúta og fer með okkur í ferðalag gegnum svæði sem er sérstaklega rómað fyrir náttúrufegurð. Við stöldrum við á ofur fallegum stað á leiðinni og snæðum hádegisverð. Gististaður okkar næstu nætur er Knysna Hollow Country Estate. Við skráum okkur þar inn seinnipart dags, líklegt er að hópurinn snæði kvöldverð á hótelinu eða nýti sér „room service“ þetta kvöld.

sudur_afrika_knysna2.jpg 

Fimmtudagur 17. október. Knysna.
Eftir morgunverð förum við með rútu til Knysna Elephant Park, þar sem við getum notið þess að eiga gæðastund með mannvænum fílum. Þessir fílar eru sérstakir vegna þess að þeir komu munaðarlausir í þetta athvarf og hafa alist upp með mannfólki en ekki villtri fílahjörð eins og frændur þeirra og frænkur í Kruger. Hér er því einstakt tækifæri til að komast í návígi við þessar tignarlegu skepnur með aðstoð traustra leiðsögumanna og dýrafræðinga.  Eftir skemmtilega stund með fílunum fáum við okkur léttan hádegisverð á bryggjusvæðinu í Knysna. Síðan verður ekið aftur á hótelið þar sem við getum slakað á. Kvöldið er frjálst.

sudur_afrika_kruger.jpg  

Föstudagur 18. október. Knysna til Franschhoek
Eftir morgunverð munum við halda áfram ferðalagi okkar um dásamlegu Garðleiðina (The Garden Route) sem er ein fallegasta ökuleið í Suður Afríku. Við munum við heimsækja heillandi bæ sem heitir Swellendam og þar munum við borða hádegisverð. Eftir hádegisverð höldum við til undurfagra bæjarins Franschhoek en þar hófu franskir húgenottar vínrækt á 17 öld. Saga bæjarins og matarmenning er falleg og með frönsku ívafi. Við skráum okkur inn á hótelið og getum að því loknu rölt um bæinn sem er einstakt augnayndi. Kvöldverður verður léttur franskur og sérvalinn af hverjum og einum ferðalangi.

sudur_afrika_garden_route.jpg 

Laugardagur 19. október. Franschhoek. 
Eftir staðgóðan morgunverð förum við í heils dags vín og matgæðingaferð um þrjár  fallegar vínekrur í Stellenbosch héraði. Flauelsmjúk eðalvín og ostasmökkun verða hluti af dagskránni. Einnig munum við borða sælkera hádegisverð á virtri vínekru með útsýni yfir fagran dal. Dagurinn mun líða áfram við smökkun góðra vína í bland við  ljúffengan mat og mikla náttúrufegurð staðanna sem heimsóttir eru.

Suður_Afríka_vinekra.jpg 

Sunnudagur 20. október. Fraschhoek til Cape Town.
Í dag skráum við okkur út af hótelinu í Franschhoek og verður ekið með hópinn sem leið liggur til Cape Town. Þar skráum við hópinn inn á Victoria & Alfred hótelið sem er staðsett á V&A bryggjusvæðinu en sú staðsetning er mjög eftirsótt í þessari fallegu borg. Í nær umhverfi hótelsins er urmull fallegra verslana, veitingahúsa og hægt er að finna ýmis konar afþreyingu. Við nýtum þennan fyrsta dag í Cape Town til slökunar á 5 stjörnu hótelinu og/eða til að skoða okkur um í líflegu nágrenni þess. Um kvöldið leggjum við leið okkar á glæsilegt veitingahús þar sem farið verður í smakk matseðil sem er innifalinn í verði ferðarinnar. Staðurinn heitir Signal og hér má skoða matseðil og fleira. 

sudur_afrika_cape_town.jpg  

Mánudagur 21. október. Capetown.
Eftir morgunverð mun rútan sækja hópinn og fara með okkur í mjög yfirgripsmikinn skoðunarleiðangur. Fyrst verður ekið að ferju sem siglir með okkur út í Robben eyju, en þar var Nelson Mandela í fangelsi megnið af þeim 27 árum sem hann var í haldi. Eyjan er á Heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna. Hún er beisk áminning um það hve margir góðir menn þurftu að fórna því sem kalla má eðlilegt fjölskyldulíf fyrir frelsi fjöldans. Hádegisverður er innifalinn þennan dag. Eftir að við komum aftur til meginlandsins verður farið um hið litskrúðuga Bo-Kaap hverfi sem á sér merkilega sögu og þar verður farið á safn. Frá Bo-Kaap förum við í hina fallegu Company Gardens og njótum þess að ganga um og fara þar í South African Museum. Ekið verður framhjá nokkrum merkilegum byggingum s.s. Þinghúsinu, Ráðhúsinu og farið inní Góðra Vona Kastalann, en kastalinn var reistur á 17 öld af Hollenska Austur-Indíafélaginu og var notaður sem virki við sjávarkambinn. Þetta mannvirki er í dag innar í borginni þar sem land hefur verið framræst talsvert milli kastalans og sjávar. Svo verður haldið að Borðfjalli (Table Mountain) þar sem við förum á topp fjallsins í kláfi og njótum þess að upplifa magnað útsýni þaðan yfir tilkomumikið borgarstæðið. Áætluð koma á hótelið er kl. 17:30. Kvöldverður á hótelinu er innifalinn.

sudur_afrika_cape_town_table.jpg 

Þriðjudagur 22. október. Cape Town.
Frjáls dagur í Cape Town, en þó er í boði aukaferð þennan dag sem er útsýnisferð að Góðravonahöfða (Cape of Good Hope) , en þar lentu margir landkönnuðir í úfnum sjó þegar þeir sigldu fyrir höfðann fyrr á öldum. Í bakaleiðinni verður komið við á heimaslóðum mörgæsanna sem búa á Boulder ströndinni. Það er alltaf skemmtilegt að virða þessa fugla fyrir sér þar sem þeir eiga sín samskipti og leika sér við ströndina.
Hádegisverður mun vera innifalinn í þessari ferð. Komið verður aftur á Victoria & Alfred Hótelið eftir hádegi og er frjáls tími eftir það.
Ferðin kostar 11.900 kr. og bókast á skrifstofu áður en ferð er farin. 

sudur_afrika_boulders_beach.jpg 

Miðvikudagur 23. október. Cape Town.
Eftir staðgóðan morgunverð á Victoria & Alfred hótelinu förum við í skemmtiferð á boutique vínekru. Þar verður okkur kennt að para vín með ostum, lærum einnig að elda hefðbundið Braai, Braai broodjies, o.fl. Við hittum vínbóndann sem fræðir okkur um vínin. Borðum hádegisverð sem við höfum tekið þátt í að undirbúa og er innifalinn. Við endum þessa heimsókn á súkkulaðismökkun með völdum vínum. Við höldum heim á hótel eftir hádegisverðinn og njótum þess að slaka á það sem eftir er dags.

sudur_afrika_braaii_1000x728.png 

Fimmtudagur 24. október. Cape Town.
Dagurinn er frjáls og skemmtilegt að geta nýtt hann í líflegu umhverfi Bryggjuhverfisins þar til við leggjum af stað út á flugvöll seinnipartinn. 

Föstudagur 25. október. 
Lendum heima á Íslandinu góða í eftirmiðdaginn.

Sjá nánari ferðalýsingu
Ferðir
Flug
Báðar leiðir
Aðra leið
 • Veðrið

 • Flugtími

  Kef íkon mynd af flugvél OR

  24 klst

  Morgunflug

 • Gjaldmiðill

  ZAR

  Rand

  Gengi

Gististaðir

Kort

Sjá alla gististaði
Sjá Kortasýn Sjá gististaði

Við notum vefkökur (e.cookies) t.d. til að greina umferð um vefinn og til að bæta upplifun notanda á síðunni. Með því að halda áfram að vafra um síðuna samþykkir þú vefkökuskilmála VITA

Nánari upplýsingar um vefkökunotkun