fbpx Töfraborgin Marrakesh | Vita

Töfraborgin Marrakesh

Fögur og framandi

Ferðir
Flug
Báðar leiðir
Aðra leið

Myndagallerí

Marrakesh við rætur Atlasfjalla

Beint flug með Icelandair
17. - 23. apríl
23. - 27. apríl
Fararstjórar:  Guðmundur Viðar Karlsson og Kristinn R. Ólafsson
Nokkrir gistimöguleikar í boði. 

Marrakesh á sér þúsund ára sögu sem höfuðborg voldugra soldána og miðstöð spennandi viðskipta milli evrópskra kaupmanna, múslíma og þjóðanna sunnan Sahara.
Hún er hreinust og glæsilegust allra stórborga Marokkó, Marrakesh er rómuð fyrir fegurð. Upp úr rauðbrúnni byggðinni tróna tígulegir turnar, tvö hundruð þúsund pálmatré og punktinn yfir setja svo himinhá, snævi krýnd Atlasfjöllin í baksýn.


marrakesh_fortified_wall.jpg

Í  Marrakesh eru tæplega milljón íbúar. Hún er fjórða stærsta borg landsins, á eftir Casablanca, Fez og Tangier.
Marrakesh býr yfir miklu seiðmagni sem allir gestir skynja. Þar má segja að maður hafi annan fótinn í nútímanum og hinn í fornöld. Gamli bærinn, Medina, minnir helst á Þúsund og eina nótt en nýi borgarhlutinn, Gueliz, steinsnar frá, er sannkölluð veisla fyrir augað, franskar breiðgötur og afar þokkafull mannvirki sem oft eru eins og vestrænn 20. aldar hágæða-arkitektúr en með sterku, arabísku svipmóti. 


marrakesh_roof_view.jpg

Marrakesh er ævintýralegur og skemmtilegur heimur. Það er til dæmis makalaus upplifun að rölta um markaðsstræti og sund í litríku, glaðværu völundarhúsi medínunnar, taka myndir, prútta og versla. Torgið Djema el Fna slær þó líklega allt út í Marrakesh. Það er ótrúlega líflegur og kostulegur staður þar sem ægir saman þjónustu og skemmtiatriðum af sundurleitasta tagi, svo sem sagnaþulum, bréfriturum, vatnssölum, slöngutemjurum, tannúrdráttarmönnum, galdrakörlum, spákonum, fimleikafólki, dönsurum og tónlistarmönnum. Þetta lygilega torg dregur ekki síður að sér innlent aðkomufólk en útlenda ferðamenn. Á kvöldin umbreytist það svo, fyllist af matsölubásum og verður einn risavaxinn veitingastaður undir berum himni. Skrautleg kvöldlýsingin eykur enn á ævintýrabraginn. Margir taka svo djúpt í árinni að kalla Djema el Fna magnaðasta torg í heimi.


marrakesh_djemaa_el_fna_square.jpg

Í Marrakesh og næsta nágrenni er margt að sjá og upplifa. Einna frægustu og forvitnilegustu staðirnir, fyrir utan medínuna og torgið mikla, eru e.t.v. Koutubia-moskan, Ben Youssef Medersa (íslamski klerkaskólinn),  Bahia-höllin, Marjorelle-garðurinn, Grafhýsi Saadi-ættarinnar og Menara-garðarnir. Einnig er hægt að fara í dagsferðir upp í Atlasfjöllin, Ourika-dalinn, þorpið Imlil, að Ouzoud-fossunum eða aka niður til strandar og heimsækja bæinn Essaouira.

Marrakesh sigraði fyrir tveimur árum í atkvæðagreiðslu Tripadvisor um besta áfangastað í víðri veröld. 

Sagan og staðreyndir

Konungsríkið Marokkó, Mahgreb á máli innfæddra, nær yfir 447 þúsund ferkílómetra svæði á norðausturhorni Afríku og liggur því bæði að Atlantshafi og Miðjarðarhafi.
Fjórir fjallgarðar sem ganga frá norðaustri til suðvesturs gefa landinu mikilfenglegan svip. Nyrst eru Rif-fjöllin, þá Mið-Atlasfjöll, síðan Há-Atlasfjöll og syðst Anti-Atlasfjöll. Við Atlantshafsströndina eru víða stórar og frjósamar sléttur, milli fjallgarðanna eru byggilegar hásléttur en austan við fjöllin er Sahara-eyðimörkin. Þar eru landamærin milli Marokkó og Alsír. Eyðimörkin nær alveg til strandar Atlantshafsins fyrir sunnan Anti-Atlasfjöll.


sofitel_marrakesh_lounge_spa_3.jpg

Í Marokkó búa um 34 milljónir manna. Landið hefur þá sérstöðu meðal ríkja Norður Afríku að það laut einungis stuttan tíma evrópsku nýlenduvaldi, frá 1912 þegar það varð „verndarsvæði“ Frakka og til 1956.
Nyrsti hlutinn, Rif-fjöllin og Miðjarðarhafsstöndin, var á sama tíma verndarsvæði Spánverja og borgin Tangier sunnan við Gíbraltarsund var undir sameiginlegri stjórn margra Evrópuríkja til að gæta alþjóðlegra hagsmuna við innsiglinguna á Miðjarðarhafið. Eftir síðari heimstyrjöldina efldist sjálfstæðisbarátta Marokkómanna og var Marokkó viðurkennt sem fullvalda ríki árið 1956.


sofitel_marrakesh_lounge_spa_2.jpg

Landsvæðið hefur verið byggt mönnum frá ómunatíð og fundust til dæmis nýlega beinagrindur af fólki (homo sapiens) nálægt Atlantshafsströndinni um 150 km frá Marrakech sem af vísindamönnum eru taldar vera yfir 300 þúsund ára gamlar. Elstu sögur og mannvirki eru frá tímum Rómverja um tveimur öldum fyrir Kristsburð. Þá nefndist landið Máretanía.
Á sjöundu öld komu arabar og sneru berbunum, frumbyggjum Mahgreb, til íslamstrúar. Her araba og berba (Mára) hélt síðan yfir Gíbraltarsund til Spánar árið 711 og lagði undir sig allan Pýreneaskaga þar sem múslímar áttu síðan voldug ríki í næstum átta hundruð ár.


les_jardins_de_la_koutoubia_marrakesh_5.jpeg

Litið hefur verið á Marokkó sem eitt konungsríki síðan á 8. öld og hefur ein konungsætt tekið við af annarri. Frægastar fyrr á öldum voru hinar heittrúuðu Almoravid- og Almohad-ættir sem einnig réðu fyrir Máraríkinu Al-Andalus á Spáni. Alaoui-ættin sem enn ríkir braust til valda á 17. öld og gerði fyrst Marrakech að höfuðborg sinni, síðan Fez og loks Rabat.
Núverandi konungur, Mohammed VI tók við völdum árið 1999 við lát föður síns, Hassans II, sem ríkt hafði frá 1961 er hann erfði hásætið af föður sínum, Mohammed V, fyrsta soldáninum eftir að Marokkó öðlaðist aftur sjálfstæði.


marrakesh2.jpg

Allmargar stórar borgir eru í Marokkó, stærst er Casablanca með 3,5 milljónir íbúa, þá Fez með rösklega milljón og svo Tangier og Marrakesh með tæpa milljón. Í höfuðborginni, Rabat, búa tæplega 600 þúsund manns. Gjöfulasta og þéttbýlasta svæði landsins er sléttan inn í landið frá Rabat og Casablanca til Marrakesh sem er syðsta stórborg Marokkó. Á því svæði býr næstum helmingur íbúa Marokkó. um 15 milljónir.

Sjá nánar um Marrakesh
Ferðir
Flug
Báðar leiðir
Aðra leið
 • Hagnýtar upplýsingar

 • Verslun og þjónusta

 • Matur og menning

 • Skoðunarferðir

Gististaðir

Kort

Sjá alla gististaði
 • Veðrið

 • Flugtími

  Kef RAK

  5 klst

  Morgunflug

 • Gjaldmiðill

  د.م.

  Moroccan Dirham (MAD)

  Gengi

Sjá Kortasýn Sjá gististaði

Við notum vefkökur (e.cookies) t.d. til að greina umferð um vefinn og til að bæta upplifun notanda á síðunni. Með því að halda áfram að vafra um síðuna samþykkir þú vefkökuskilmála VITA

Nánari upplýsingar um vefkökunotkun