Yfir Atlantshafið

Frá Róm til Flórída

Ferðir
Flug
Báðar leiðir
Aðra leið

Myndagallerí

Sigling yfir Atlantshafið frá Róm

Celebrity Reflection
19. október  - 7. Nóvember 2018
Fararstjóri: Laufey Jóhannsdóttir 

Róm – Ítalíu, Barcelona, Cartagena, Malaga og Tenerife – Spáni, Fort Lauderdale og Orlando- Bandaríkjunum.

Ferðin hefst 19. október þegar flogið er til Rómar með millilendingu í Amsterdam. Fyrst er flogið með Icelandair og svo áfram, eftir stutt stopp, með KLM. Gist í 3 nætur á Ariston hótelinu í Róm og allt það helsta í borginni skoðað. Þann 22. október er ekið til hafnarborgarinnar Civitavecchia þar sem Celebrity Reflection bíður okkar. Lagt er frá bryggju kl.17:00. Eftir dag á siglingu er stoppað á Barcelona, Spáni. Næsta stopp er Cartagena og að lokum er farið í land í Malaga. Þá er siglt frá Miðjarðarhafinu í gegnum Gíbraltarsund og út á Atlantshafið.
Eftir einn dag á siglingu er dagsstopp á Tenerife. Seinnipartinn 28. október hefst siglingin yfir hafið og tekur hún 7 daga. Á þeim tíma er hægt að láta dekra við sig, njóta þess að skoða skipið og þjónustunnar sem er um borð og fara til dæmis á námskeið eða fyrirlestur.
Við leggjumst að bryggju í Ft. Lauderdale 5. nóvember og þaðan er haldið til Orlando þar sem gist er 2 nætur áður en flogið er heim til Íslands. Lending í Keflavík er áætluð að morgni  8. nóvember.


celebrity_reflection_20.jpg

Celebrity Reflection
Celebrity Reflection  var smíðað 2012 og er nýjasta og stærsta skipið í Solstice klassanum. Skipið er 16 hæðir, 125.000 rúmlestir, um 319 metrar á lengd og með rými fyrir 3046 farþega.
Á efsta þilfari sem er númer 16 er Solstice dekkið. Þar er hægt að njóta útsýnisins meðan legið er á sólbekk og slakað á.
Næst efsta þilfarið er með skokkbraut, setustofum, veitingastað og bar. Allt með miklu útsýni. 14. þilfarið er með sundlaugum, sundlaugarbar, sólbekkjum og heilsulindinni Aquaspa. Þar eru nuddpottar, gufa, sauna og endalausir mögluleikar á ýmsum dekur- og heilsubætandi meðferðum. Entertainment þilfarið er með veitingastaði, listmunasölur, kaffihús, ísbúðir o.fl.  Á Promenade þilfarinu eru litlar verslanir, vínbarir og spilavíti.
Kvöldverður eru borinn fram í aðal veitingasal skipsins, sem er á tveimur hæðum. Fleiri veitingastaðir eru um borð eins og Murano sem er með úrval alþjóðlegra rétta á matseðlinum og Tuscan Grille , sem býður ítalska rétti og lúxus steikur. Bóka þarf borð og greiða þjónustugjald á sérrétta veitingastöðum skipsins, gjaldið er frá 20 – 50 usd á mann, fer eftir stöðum.
Barir og setustofur eru um allt skip og þegar kvölda eru glæsilegar sýningar og uppákomur í leikhúsinu, sem er á þremur hæðum.
Vínsérfræðingar frá vínræktarhéruðunum í Napa Valley eru á barnum Cellar Masters og kenna ykkur að þekkja göfug vín og velja það besta um borð.

Flugtafla

Flugnúmer Dags Brottför Kl. Áfangastaður Kl.
FI 500 19. október Keflavík 07:40 Amsterdam 12:40
KL 1603 19.október Amsterdam 14:25 Róm 16:35
FI 688 7. nóvember Orlando 18:00 Keflavík  06:10+1

Siglingaleið

Dagur Áfangastaður Koma Brottför
22. október Róm (Civitavecchia), Ítalíu   17:00
23. október Á siglingu    
24. október Barcelóna, Spáni 07:00 17:00
25. október Cartagena, Spáni 10:00 18:00
26. október Malaga, Spáni 07:00 17:00
27. október Á siglingu    
28. október Tenerífe, Spáni  09:00 17:00
29. október Á siglingu    
30. október Á siglingu    
31. október Á siglingu    
1. nóvember Á siglingu    
2. nóvember Á siglingu    
3. nóvember Á siglingu    
4. nóvember Á siglingu    
5. nóvember Fort Lauderdale  05:00  

Ferðatilhögun

Föstudagur 19. október.  Keflavík Amsterdam Róm
Ferðin hefst með flugi Icelandair til Amsterdam kl. 07:40 og þaðan með KLM til Rómar. Lent kl. 16:35 og ekið á hótel Ariston, sem er gott 4ra stjörnu hótel.


rom_coliseum.jpg

Róm
Borgin eilífa hefur hún verið kölluð og ber nafn með rentu. Rómaborg hefur um aldir verið sögusvið keisara, páfa og pílagríma sem lagt hafa leið sína til borgarinnar. Engin borg stenst samanburð við Róm þegar kemur að sögufrægum stöðum og byggingum. Hér er Péturskirkjan, Vatíkanið, Sixtínska kapellan með stórkostlegum málverkum eftir Michelangelo og aðra listamenn, Rómartorgið eða Foro Romano, Kólósseum, Panþeon og Navónutorg.
Hér skópu frægustu meistarar endurreisnarinnar og barrokktímans sín fegurstu verk sem gera borgina að risavöxnu listasafni. Róm er líka borg hinna glæsilegu gosbrunna og er Trevíbrunnurinn líklega þekktastur eftir að Fellini notaði hann í atriði í mynd sinni Hið ljúfa líf, La Dolce Vita.
Róm er líka ein af háborgum tískunnar og engir eru Ítölum fremri þegar kemur að hönnun og tísku. Það er gaman að versla í Róm, hvort sem er í verslunum heimsfrægra hönnuða, í freistandi sérverslunum við Spænsku tröppurnar eða á hinum líflega flóamarkaði, Porta Portese.
Fáar borgir vekja aðra eins aðdáun og heilla jafn mikið og Rómarborg þar sem fortíð og nútíð renna saman.


rom_vita.jpg

Laugardagur 20. október, Róm
Skoðunarferð: Vatikanið, Sixtínska Kapellan og Péturskirkjan.
Við hefjum ferðina á því að skoða Vatíkansafnið sem hýsir stórkostlegustu verk klassíska tímans og endurreisnarinnar. Úr Vatíkansafninu er gengið í Sixtínsku kapelluna þar sem margrómuð verk endurreisnarinnar prýða veggina. Stórkostlegastar af þeim öllum eru loftmynd Michelangelos af sköpun heimsins og mynd hans af dómsdegi á gaflinum fyrir ofan altari páfa. Að skoða þessi verk er vart með orðum lýst. Þaðan er gengið í eina stærstu og fegurstu kirkju kristninnar, Péturskirkjuna, sem er helgasta kirkjan í kaþólskum sið og reist yfir gröf Péturs postula. Ferðin endar rétt hjá torginu Piazza Navona, en þar er upplagt að borða hádegisverð. Eftir það er frjáls tími til að njóta miðborgarinnar og allir fara heim á hótel þegar þeim hentar.


rom_vita.jpg

 Sunnudagur 21. október, Róm

Skoðunarferð: Hálfs dags ferð að skoða Kólosseum og Forum Romanum.
Ekið er að voldugasta hringleikhúsi heims, Kólosseum. Það er í senn tákn borgarinnar en einnig þess tíma þegar þrælar og kristnir menn þurftu að berjast fyrir lífi sínu meðan æstur múgurinn hrópaði á meira blóð. Bygging Kólosseum hófst rúmlega 70 e. kr. en talið er að féð til byggingarinnar hafi komið úr ránsfeng úr musteri gyðinga í Jerúsalem. Kólosseum er í dag einn af helgireitum kaþólsku kirkjunnar því samkvæmt sögutúlkun hennar var hér kristnum mönnum miskunnarlaust slátrað borgarbúum til skemmtunar. Þegar mannvirkið er skoðað undrast maður tækni og listfengi Rómverja fyrir tvö þúsund árum. Frá Kólosseum er gengið út á gamla rómverska torgið, Forum Romanum, þar sem fornminjarnar eru skoðaðar, en þetta er eitt stærsta fornleifasafn heims og allt utanhúss. Þaðan er gengið upp á Kapitolhæð þar sem m.a. ráðhús Rómar stendur í dag. Ekið til baka á hótelið, en þeir sem vilja geta verið eftir í bænum og farið heim á eigin vegum.


celebrity_reflection_18.jpg

Mánudagur 22. október. Ekið frá Róm til Citiavecchia – Celebrity Reflection
Eftir morgunverð er tékkað útaf hótelinu og ekið til bæjarins Citiavecchia og tekur aksturinn liðlega eina klukkustund. Komum að höfninni um kl.13:00 og þar bíður skemmtiferðaskipið Celebrity Reflection okkar. Innritun fer fram við skipshlið og gengið eru um borð þar sem ljúffengur hádegisverður er til reiðu. 


celebrity_reflection_7.jpg

Þriðjudagur 23. október, á Siglingu
Fyrsti dagur á siglingu og kjörið tækifæri til að skoða skipið og kynnast lystistemdum þess á meðan stefnan er tekin á Barcelona.


barcelona_3.jpg

Miðvikudagur 24. október, Barcelona - Spáni
Fyrsti viðkomustaðurinn í þessari siglingu er Barcelona á norðaustanverðum Spáni, um 145 km sunnan landamæra Spánar og Frakklands.  Gestir þyrpast til borgarinnar frá öllum heimshornum til að njóta sérstöðu hennar, menningar og fegurðar. Þegar H.C. Andersen kom til Barcelona árið 1862 lét hann svo um mælt að borgin væri „París Spánar“. Það geta margir tekið undir. Borgin er mikils háttar menningarsetur með heillandi sögu. Þar er alls staðar að finna góða veitingastaði, sjarmerandi kaffihús, minjasöfn og merkar byggingar auk stórkostlegra dæma um skreyti- og byggingarlist í módernískum og „art nouveau“-stíl.


cartagena_spann.jpg

Fimmtudagur  25. október, Cartagena - Spáni
Hafnarborgin Cartagena liggur á suðausturströnd Spánar, umlukin fimm hæðum sem mynda náttúrulegt hafnarstæði. Cartagena, eða Nýja-Karþagó, var höfuðvígi Karþagómanna þegar þeir réðu lögum og lofum á Spáni fyrir Krist og nefndu þeir hana því eftir höfuðborg sinni. Sagan, allt aftur til fornaldar, drýpur því af hverju strái á hafnarsvæðinu. Borgin er umlukin múrum, virkisveggir umkringja höfnina og víða má sjá rómverskar rústir.
Það er heillandi og því gott að gefa sér góðan tíma til að rölta eftir þröngum götunum sem eru svo einkennandi fyrir gamla bæjarhlutann eða slaka bara á og setjast niður á einu af kaffihúsunum, börunum eða veitingastöðunum við sjávarsíðuna.


malaga_spain_1.jpg

Föstudagur 26. október, Malaga - Spáni
Það er ekki að ástæðulausu að vinsældir Malagaborgar á Costa del Sol hafa vaxið jafnmikið undanfarið meðal ferðalanga og raun ber vitni. Í áraraðir féll þessi fagra borg í skuggann af öðrum borgum í Andalúsíu, eins og  Granada, Kordóva og Sevilla, en það er liðin tíð. Matargerðin jafnast á við það sem best gerist í Barcelona og menning og listir á við það sem við þekkjum í Madrid. Listmálarinn Picasso var fæddur í borginni og haft var eftir honum að þeir einir sem gætu kallað sig sanna kúbista hefðu fæðst í Malaga.
Margt er einstaklega áhugavert að skoða í Malaga, eins og borgarvirkið Alcazaba, dómkirkjan og nýlega uppgerði gamli bærinn eins og hann leggur sig. Þeir sem hafa hinn minnsta áhuga á listum og menningu ættu ekki að láta Picasso safnið og nútímalistasafnið CAC Malaga Contemporary Art Center fram hjá sér fara og sóldýrkendur mega ekki sleppa því að koma við á La Malagueta ströndinni. Þá er vert að nefna að útsýnið er ekki af verri endanum frá Gibralfaro kastala. Til að slaka á og njóta augnabliksins er upplagt að fá sér göngutúr eftir Paseo del Parque og telja dropana sem þyrlast upp úr gosbrunnunum eða rölta um Puerta Oscura lystigarðinn, til að njóta einfaldlega fegurðar umhverfisins.


celebrity_reflection_10.jpg

Laugardagur 27. október, á siglingu
Njótið þess að skoða skipið, leggjast á sólbekk við sundlaugina og smakka hina litskrúðugu og ljúffengu kokteila sem barþjónarnir blanda.


tenerife-4000x1674.jpg

Sunnudagur 28. október, Tenerife - Spáni
Tenerife er skemmtilegur ferðamannastaður þar sem allt er til alls og hin spænska menning heimamanna blómstrar með tilheyrandi matargerð og mannlífi.
Þar eru allar forsendur til staðar fyrir hið fullkomna frí, sól og veðursæld allt árið um kring, hlýr sjór og gylltur sandur.
Frábært úrval fjölbreyttra veitingastaða er á Tenerife og aragrúi ólíkra verslana. Vertu viss um að gleyma ekki sundfötunum og sólarolíunni.
Sól og sandur er auðvitað í stóru hlutverki á Tenerife en mundu jafnframt að Tenerife hefur upp á svo margt annað að bjóða líka. 


celebrity_reflection_6.jpg

Mánudagur 29. október – sunnudags 4. nóvember, á siglingu yfir hafið
Fararstjóri fer í kynnisferð um skipið til að enginn missi af neinu. Njótið þess að skoða skipið og svo má t.d. leggjast á sólbekk við sundlaugina. Nýtið tímann og farið í búðir, á málverkauppboð, eða kannski á matreiðslunámskeið, í danskennslu eða sækið fyrirlestur. Matur og drykkur er í boði allan daginn, svo bíða 3ja rétta kvöldverðir og glæsilegar sýningar á kvöldin.


celebrity_reflection_3.jpg

Mánudagur 5. nóvember, Ft. Lauderdale
Eldsnemma að morgni leggst Celebrity Reflection að bryggju í Ft.Lauderdale. Eftir morgunverð er farið í land og bíður rúta eftir hópnum. Ekið er til Orlando og tekur aksturinn um 3 klst. Tékkað inn á Florida Hotel & Conference Center þar sem gist er síðustu 2 næturnar í ferðinni.


web-florida-hotel-pool-view.jpg

Þriðjudagur 6. Nóvember – Orlando

Dagsins notið í Orlando. Florida Hotel & Conference Center er sambyggt Florida verslunarmiðstöð, þar sem er innangengt í um 160 verslanir. Í hótelinu er einnig ágætis sundlaugargarður þar sem hægt að njóta góða veðursins, svo ekki sé talað um alla þá fjölmörgu skemmtigarða sem eru í Orlando.


orlando_florida.jpg

Miðvikudagur 7. nóvember, Orlando – Keflavík.

Flogið frá Orlando flugvellinum kl.18:00 og lending í Keflavík að morgni 8. Nóvember kl. 06:10.

Sjá nánari ferðalýsingu
Ferðir
Flug
Báðar leiðir
Aðra leið
 • Veðrið

 • Flugtími

  Kef íkon mynd af flugvél FCO

  5

  Morgunflug

 • Gjaldmiðill

  Evra

  Gengi

Gististaðir

Kort

Sjá alla gististaði
Sjá Kortasýn Sjá gististaði