BH Mallorca, Magaluf

Vefsíða hótels

Skemmtileg hótelsamstæða í hjarta Magaluf, aðeins ætluð þeim sem eru 18 ára og eldri og vilja fyrst og fremst skemmta sér í fríinu. Vatnsrennibrautagarður, strandklúbbur og þekktustu plötusnúðar heims.

Í samstæðunni eru 656 svítur sem eru innréttaðar á einfaldan og snyrtilegan hátt, í glaðlegum litum og ljósar flísar eru á gólfum. Í svefnherbergi er tvíbreitt rúm og í stofu þrír sófar sem nýtast sem rúm. Tveir stórir speglar eru í öllum svítum og graffiti- og popplistaverk prýða veggina. Í öllum vistarverum er loftkæling, flatskjársjónvarp, sími, ísskápur og öryggishólf, gegn gjaldi. Á baðherbergjum er sturta, hárþurrka og baðvörur. Svalir eru við allar svíturnar. Þráðlaus nettenging er í allri samstæðunni, gestum að kostnaðarlausu. 

Tveir hlaðborðsveitingastaðir eru í samstæðunni, annar einungis fyrir þá sem velja að panta gistingu þar sem matur og áfengir drykkir eru innifaldir. Hinn er opinn öllum og býður upp á úrval léttra rétta. Fjórir barir eru á sundlaugasvæðum. Strandklúbbur er starfræktur við hótelið, og þar er afþreying í boði allan daginn og fram á kvöld. Á skemmtistaðnum Stage er hægt að dilla sér við teknótakta frá þekktustu plötusnúðum heims sem þeyta þar skífum tvisvar í viku. 
Samstæðan státar af eigin vatnsrennibrautagarði, með heilum 9 brautum sem hver er annarri svakalegri og skemmtilegri, öldulaug og þremur stórum nuddpottum. Þar að auki eru tvær stórar sundlaugar þar sem öll aðstaða er til fyrirmyndar, sólbekkir, sólhlífar og stórir Balí-beddar þar sem hægt er að slaka á í skugga eða sleikja sólskinið. Hægt er að panta nudd við sundlaugina. 

Í hótelsamstæðunni er líkamsræktaraðstaða og verslanir með strandfatnað og minjagripi. Þar er einnig hraðbanki og töskugeymsla.
Á BH Mallorca, sem einungis er ætlað fullorðnum, er hreinlega ekki hægt að láta sér leiðast því að nóg er um afþreyingu frá morgni til kvölds. Þar að auki er fjöldi verslana og veitingastaða í næsta nágrenni og ströndin er í léttu göngufæri. Þegar fjörinu lýkur á hótelinu er hægt að rölta að diskótekinu BCM Magaluf á nokkrum mínútum og halda áfram að skemmta sér fram á rauðanótt. 

Fjarlægðir

 • Flugvöllur: 30 km
 • Miðbær: Við miðbæ
 • Strönd: Í léttu göngufæri

Aðstaða

 • Sundlaug
 • Skemmtidagskrá
 • Veitingastaðir
 • Bar
 • Gestamóttaka
 • Líkamsrækt
 • Nettenging

Vistarverur

 • Sjónvarp
 • Loftkæling
 • Ísskápur
 • Verönd/svalir
 • Hárþurrka
 • Öryggishólf: Gegn gjaldi

Fæði

 • Allt innifalið
 • Án fæðis

Við notum vefkökur (e.cookies) t.d. til að greina umferð um vefinn og til að bæta upplifun notanda á síðunni. Með því að halda áfram að vafra um síðuna samþykkir þú vefkökuskilmála VITA

Nánari upplýsingar um vefkökunotkun