Playa Golf, Playa de Palma

Vefsíða hótels

Mjög gott hótel á góðum stað við ströndina á Playa de Palma. Heilsulind, sleðarennibraut og góðir veitingastaðir. Göngu- og hjólaleiðir í næsta nágrenni og 10 mínútur með almenningssamgöngum inn í miðbæ Palma. Það getur verið líf og fjör í kringum hótelið þar sem það er staðsett við þýska bjórstrætið svokallaða. 

Í hótelinu eru 210 bjartar vistarverur. Hægt er að velja um herbergi eða svítur sem rúma allt að þrjá einstaklinga. Innréttingar eru smekklegar og stílhreinar, ýmist flísar, parkett eða teppi á gólfum. Loftkæling og upphitun er í öllum herbergjum, sími, flatskjársjónvarp með gervihnattarásum og smábar. Öryggishólf og þráðlaus nettenging fást gegn gjaldi. Á baðherbergjum er sturta, hárþurrka og ókeypis baðvörur. Svalir búnar húsgögnum eru við allar vistarverur.

Ríkulegt morgunverðarhlaðborð er til reiðu í veitingasal alla morgna. Á kvöldin svigna hlaðborðin undan heitum og köldum réttum úr ferskasta fáanlega hráefni og ekki skemmir útsýnið sem er yfir hafið. Aðrir þrír veitingastaðir og kaffiteríur bjóða upp á ljúffenga rétti af matseðli.

Við hótelið eru tvær útisundlaugar, önnur með afmörkuðu svæði fyrir börnin og hin með busllaug. Snarl- og drykkjabar er við laugarnar. Í hótelgarðinum er einnig sleðarennibraut, mínígolfvöllur umkringdur gróðri og þrír tennisvellir. 

Heilsulindin er einkar vel búin með líkamsræktaraðstöðu, upphitaðri innisundlaug yfir vetrarmánuðina, þurr- og blautgufu, nuddpotti og hvíldarhreiðri með upphituðum bekkjum. Auk þess er boðið upp á margar gerðir nudd- og líkamsmeðferða. Heilsulindin er einungis fyrir 16 ára og eldri.
Móttakan er opin allan sólarhringinn og þar er hraðbanki, hjólaleiga, bílaleiga, þvotta- og þurrhreinsiþjónusta og boðið er upp á aðstoð við miðakaup og ferðaskipulag. 

Playa Golf er á frábærum stað, nokkra metra frá ströndinni. Mikið er af skemmtilegum göngu- og hjólaleiðum í nágrenninu og veitir starfsfólk upplýsingar um þær. Strætó stoppar fyrir utan hótelið og því tekur aðeins um 10 mínútur að komast í iðandi mannlífið í miðborg Palma. Stutt er í vatnasport og aðra afþreyingu auk golfvalla. 

Fjarlægðir

 • Flugvöllur: 9 km
 • Miðbær: 10 min í strætó frá miðbæ Palma
 • Veitingastaðir: Á hótelinu og í næsta nágrenni
 • Strönd: Við strönd

Aðstaða

 • Sundlaug
 • Veitingastaðir
 • Bar
 • Barnasundlaug
 • Gestamóttaka
 • Heilsulind
 • Herbergi
 • Líkamsrækt
 • Nettenging: Gegn gjaldi

Vistarverur

 • Sjónvarp
 • Loftkæling
 • Minibar
 • Öryggishólf: Gegn gjaldi

Fæði

 • Hálft fæði
 • Morgunverður

Við notum vefkökur (e.cookies) t.d. til að greina umferð um vefinn og til að bæta upplifun notanda á síðunni. Með því að halda áfram að vafra um síðuna samþykkir þú vefkökuskilmála VITA

Nánari upplýsingar um vefkökunotkun