Aðventuferð til Rómar

Yndisleg jólastemning

Ferðir
Flug
Báðar leiðir
Aðra leið

Myndagallerí

Róm  - Borgin eilífa og dásamlega

Flogið beint með Icelandair

Aðventuferð 6. - 10. desember
Fararstjórar: Guðmundur V. Karlsson og Sr. Þórhallur Heimisson

Í Rómarborg er meira að skoða en í nokkurri annarri borg í heiminum og aðeins er hægt að krafla í yfirborðið á fáum dögum. Helsti kostur borgarinnar er þó að stutt er á milli allra áhugaverðu staðanna en það er þægilegt að ganga í Róm og alls staðar eru garðar og torg til að hvíla lúin bein. Rómaborg hefur um aldir verið sögusvið keisara, páfa og pílagríma sem lagt hafa leið sína til borgarinnar í gegnum aldirnar. Engin borg stenst samanburð við Róm þegar kemur að sögufrægum stöðum og byggingum. Hér er Péturskirkjan, Vatíkanið, Sixtínska kapellan með stórkostlegum málverkum eftir Michelangelo og aðra listamenn, Rómartorgið eða Foro Romano, Kólósseum, Panþeon og Navónutorg. 

Áhugavert er að mæta á Péturstorg í hádeginu á sunnudögum og sjá páfann tala til mannfjöldans. 

Jólastemningin

Jólastemningin í Róm er yndisleg og engri lík. Borgin er öll upplýst og skreytt og ljúffengar kræsingar sem aðeins fást um hátíðirnar við hvert fótmál.
Verslun og þjónusta er í blóma um þetta leyti og margar verslanir eru opnar lengur en vanalega. Einnig eru þær oft opnar á sunnudögum og ekki lokað í kringum hádegið.
Vinsælt er að taka strætó upp á Gianicolo-hæð og njóta útsýnisins yfir borgina og taka jafnvel eina ferð í hringekjunni þar.
Kirkjur borgarinnar eru dásamlega fallegar og þar er hægt að vinna í núvitund og upplifa kyrrðina sem þeim fylgir. Um jólin eru eftirmyndir af fjárhúsinu þar sem Jesú fæddist, jötunni, Jósef, Maríu og öllu tilheyrandi settar upp í kirkjunum, stundum jafnvel heilu þorpin, og er einstaklega gaman að skoða þær.
Aðeins eru nokkur ár síðan jólaljós, jólatré og annað jólaskraut var ekki hluti af jólahefðunum í Róm. Í dag eru götur borgarinnar fallega skreyttar og jólatré standa á helstu torgum, m.a. 25 metra há tré við Colosseum hringleikahúsið og á Piazza Venezia. Þess má til gamans geta að undanfarin ár hafa borgirnar Róm og Mílanó metist um hvor eigi flottara jólatré. Síðasta ár hafði Mílanó þó nokkra yfirburði með 28 metra háu tré á Dómkirkjutorginu á móti 20 metra tré sem þótti heldur lúpulegt á Venezia-torgi í Róm. Það er óþarfi að taka það fram að yfirvöld í Róm hafa einsett sér að slá Mílanó við þetta árið og verður gaman að sjá hvernig til tekst.

Útimarkaðir

Mikil hefð er fyrir útimörkuðum í Róm eins og flestum borgum á Ítalíu, þeir eru í öllum hverfum og þó að fáir sérstakir jólamarkaðir séu haldnir skarta allir hátíðarbúningi um jólin eins og borgin öll. Stærsti jólamarkaðurinn í miðborginni er við MAXXI nýlistasafnið, sem eitt og sér er þess virði að heimsækja. Markaðurinn er opnaður 8. desember og má segja að svo til allt sem tengist jólunum sé þar til sölu, handverk, listmunir, leikföng, tískufatnaður, jólakökur og kræsingar. Aðrir jólamarkaðir eru í stórum verslunarmiðstöðvum í úthverfum eins og EUR og Cinecittá og hægt er að renna sér á skautum við Porta di Roma verslunarmiðstöðina. Auðvelt að komast í öll helstu verslunarhverfin með almenningssamgöngum.

Það er alltaf gaman að koma á Navona-torg í gömlu miðborginni en um jólin er það sérstaklega skemmtilegt. Til margra ára var stærsti jólamarkaðurinn í Róm á torginu þar sem listamenn alls staðar að seldu handverk og listmuni í anda jólanna, alls kyns kræsingar voru á boðstólum og börn gátu leikið sér í hringekju og öðrum leiktækjum. Síðustu þrjú árin hefur markaðurinn sjálfur ekki verið svipur hjá sjón, þó að torgið sjálft og umhverfið sé alltaf jafn dásamlegt. Ástæðan er sú að árið 2014 ákvað þáverandi borgarstjóri að þaðan í frá skyldu einungis heimamenn fá að selja vörur sínar á markaðnum, þær þyrftu að vera unnar eftir rómverskum hefðum og allt hráefni, jafnt í handverki sem matvælum, yrði að vera staðbundið. Þetta féll vægast sagt ekki vel í kramið, einungis 72 sóttu um leyfi fyrir sölubásum en voru 115 árið áður, og þeir sem fengu leyfi ákváðu að sýna samstöðu og nýta þau ekki. Sölubásarnir voru 4 eða 5 það árið og í fyrra voru þar einungis leikjabásar, ekkert handverk var til sölu og ekkert jólagóðgæti að kaupa. Hringekjan og jólatréð eru þó alltaf sett upp, torgið er fagurlega skreytt og stemningin að öðru leyti afskaplega hátíðleg.

Helgidagur á Ítalíu

Þess má geta að 8. desember er sérstakur helgidagur á Ítalíu og haldið er upp á daginn með ýmsu móti um alla Róm. Jólastemningin tekur endanlega völdin á útimörkuðum og sýningar og jólatónleikar eru haldnir um alla borg, sem gerir þessa helgi í Róm hreint ógleymanlega.

Háborg tískunnar

Róm er líka ein af háborgum tískunnar og engir eru Ítölum fremri þegar kemur að hönnun og tísku. Það er gaman að versla í Róm, hvort sem er í verslunum heimsfrægra hönnuða, eða í freistandi sérverslunum við Spænsku tröppurnar eða á hinum líflega flóamarkaði, Porta Portese. 

Kvöldin í Róm eru seiðmögnuð og eftir dýrlegan málsverð að hætti Rómverja, sem enn velja hráefnið af sömu kostgæfni og keisararnir, er lagt út í nóttina og hið ljúfa líf tekur við.

Sjá nánari ferðalýsingu
Ferðir
Flug
Báðar leiðir
Aðra leið
 • Veðrið

 • Flugtími

  Kef íkon mynd af flugvél FCO

  4,5 klst

  Morgunflug

 • Gjaldmiðill

  Evra

  Gengi

 • Rafmagn

  íkon mynd af ljósaperu

  220

 • Bjórverð

  íkon mynd af bjór

  Meðalverð 4-6 EUR

Gististaðir

Kort

Sjá alla gististaði
Sjá Kortasýn Sjá gististaði