Leonardo Royal Berlin
Vefsíða hótels

Hlýlegt og nútímalegt hótel á besta stað í Mitte-hverfinu í miðborginni, rétt við hinn fallega Friedrichshain-garð og stutt frá Alexa-verslunarmiðstöðinni. 15 mínútna göngutúr er að Alexanderplatz. Verslanir og veitingastaðir allt um kring og almenningssamgöngur stoppa beint fyrir utan hótelið.
Í hótelinu eru 346 herbergi og svítur sem rúma allt að þrjá en einnig er hægt að fá samliggjandi fjölskylduherbergi. Innréttingar eru fallegar, stílhreinar og hlýlegar, viður millibrúnn og bjartir litir í áklæði á einstaka veggjum. Teppi er á gólfum. Alls staðar er loftkæling og upphitun, sími, útvarp, 32 tommu flatskjársjónvarp með gervihnattarásum, öryggishólf sem rúmar fartölvu, smábar og aðstaða til að laga kaffi og te hið minnsta. Á baðherbergjum er almennt sturta, hárþurrka og Sea of spa baðvörur. Ókeypis þráðlaus nettenging er á öllu hótelinu.
Hægt er að fá girnilegan morgunverð af heitu og köldu hlaðborði alla morgna á veitingastaðnum Vitruv. Á kvöldin er áherslan á matargerð Miðjarðarhafsins auk asískra rétta, allt af matseðli, og að sjálfsögðu er vín í boði sem smellpassar með hverjum rétti. Á Leo 90 setustofubarnum fást ljúffengir drykkir og léttir réttir. Tveir fyrir einn gildir á barnum alla daga milli kl. 17 og 19.
Þeir sem vilja nota tækifærið og slaka örlítið á geta gert það í heilsulindinni á sjöundu hæðinni þar sem er sána, þurrgufa og líkamsræktaraðstaða auk hvíldarhreiðurs.
Móttakan er að sjálfsögðu opin allan sólarhringinn og þar er farangursgeymsla og starfsfólk aðstoðar við miðakaup.
Leonardo Royal er á mjög góðum stað, stutt frá Sjónvarpsturninum og öðrum þekktum kennileitum. Þess má geta að Friedrichshain-garðurinn er rétt við hótelið og þar er tilvalið að hlaða batteríin með því að fá sér hlaupasprett í morgunsárið eða bara njóta guðsgrænnar náttúrunnar í hjarta borgarinnar.
Fjarlægðir
- Flugvöllur: 12 km
- Miðbær: Á besta stað í Mitte-hverfinu í miðborginni
- Veitingastaðir: Á hótelinu og allt um kring
Aðstaða
- Veitingastaður
- Bar
- Gestamóttaka
- Heilsulind
- Líkamsrækt
- Lyfta
- Nettenging
Vistarverur
- Sjónvarp
- Öryggishólf
- Loftkæling
- Kaffivél
- Minibar
- Hárþurrka
Fæði
- Morgunverður