Barcelona
Einstakur arkitektúr og iðandi mannlíf
Myndagallerí
Barcelona
Njóttu einstaks arkitektúrs, matarmenningar að hætti Katalóna, og iðandi mannlífs.
Barcelona er borg sem tekur manni opnum örmum og heillar mann þegar í stað; borg sem gott er að vera í, borg sem mann langar alltaf til að sækja heim aftur, í senn ævaforn og síný.
Barcelona flíkar björtu sólskinsbrosi Miðjarðarhafsins á daginn, sveipar sig hlýju þess á kvöldin og nóttunni, iðar af mannlífi og lífsgleði, er full af list og sögu, allt frá Rómverjum til síðustu hræringa í listum. Kaffihús, krár, veitingastaðir og verslanir eru á hverju strái. Fátt jafnast á við að ganga í mannhafi Römblunnar, ramba um forn stræti Gotneska hverfisins, rölta um Born-hverfið og setjast niður á bar eða fá sér gönguferð um Barceloneta-hverfið við sjóinn, jafnvel fara á ströndina...
Barcelona státar líka af mörgum fallegum byggingum. Þar er arkitektinn Antoni Gaudí fremstur en meðal verka hans ber hæst Kirkju hinnar helgu fjölskyldu: la Sagrada Família og garðinn Parc Güell.Barcelona níföld á heimsminjaskrá UNESCO
Barcelona kemur hvorki meira né minna en níu sinnum fyrir á heimsminjaskrá Menningar- og vísindastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO). Sjö sinnum er þar á ferðinni arkitekinn Antoni Gaudí og verk hans: Park Güell, Casa Milá, Casa Batlló, Palau Güell, Casa Vicens, Fæðingarhliðin á la Sagrada Família og Grafhvelfingin í kirkjunni í Güell-íbúðahverfinu í útjaðri borgarinnar. Tvö verk eru síðan eftir módernistann Domènech i Montaner: Palau de la Música Catalana og Hospital San Pau.
Miðborgin:
Auðvelt er að rata um miðborgina. Gott er að hafa torgið Plaça de Catalunya (Katalóníutorg) sem miðpunkt en fyrir neðan þetta stóra torg er elsti hluti borgarinnar. Þar er einnig að finna flest söfn borgarinnar og ýmsa sögufræga staði. Hinar frægu Las Ramblas/Les Rambles, eða Ramblan, eins og Íslendingar hafa kallað þessa helstu göngugötu miðbæjarins, liggja frá Katalóníutorgi niður að minnisvarðanum um Kólumbus við höfnina. Þegar gengið er niður Römbluna frá Katalóníutorgi er hið rómantíska Gotneska hverfi (Barri Gòtic ) á vinstri hönd en á hægri hönd er Raval-hverfið (Barri del Raval). Frá Kólumbusarminnisvarðanum, í norðausturátt, liggur breiðgatan Passeig de Colom. Úti við ströndina, handan smábátahafnarinnar og Maremàgnum-svæðisins er síðan Passeig Marítim, samhliða Barceloneta-ströndinni, en í suðvesturátt frá Kólumbusarstyttunni liggur breiðgatan Paral.lel að torginu Plaça d´Espanya (Spánartorgi). Hægra megin við höfnina, þegar horft er til hafs, rís Montjuïc-fell, en að baki borginni er svo Tibidabo-fjall og fjallgarður baklandsins. Fyrir ofan Katalóníutorg og upp að Diagonal-breiðgötunni liggur hið fræga Eixample-hverfi frá19. öld þegar borgin var stækkuð og sameinuð nálægum þorpum sem nú teljast hluti af borginni sjálfri. Þrátt fyrir þetta hafa þessi þorp, eins og t.d. Gràcia og Les Corts, varðveitt sögu sína og sérkenni. Aðalgata Eixample-hverfisins heitir Passeig de Gràcia en við hana standa tvö hús eftir Gaudí. Passeig de Gràcia nær alveg upp að Diagonal-breiðgötunni sem þversker alla borgina.
Fyrir nátthrafna:
Af ótalmörgu er að taka og úrvalið mikið en nefna mætti ýmsa veitingastaði, bari og klúbba í og við Port Olímpic (Ólympíuhöfn): Sotavento, CDLC (Carpe Diem Lounge Club), Opium Mar, Pachá Club, Cat Walk, Icebarcelona, Shôko, Kennedy Irish Pub, Australian´s Club, Salsa Bar... Einnig mætti nefna Club Astoria við Carrer París, nálægt Hotel Astoria.
Gististaðir
-
Veðrið
-
Flugtími
Kef BCN
4 klst.
Morgunflug
-
Gjaldmiðill
€Evra
Gengi
-
Bjórverð
Meðalverð 3 EUR