Perlur Miðjarðarhafsins
Grikkland og Tyrkland
Myndagallerí
PERLUR MIÐJARÐARHAFSINS
Celebrity Infinity
18. april - 02. maí 2026
Fararstjóri: Þóra Valsteinsdóttir
Aþena, Þessalóníki, Ródos, Santorini og Mykonos - Grikklandi, Istanbúl og Ephesus ( Kusadashi ) - Tyrklandi.
Stutt ferðalýsing
Flogið er í morgunflugi til Kaupmannahafnar þar sem skipt er um flug og flogið áfram með SAS til Aþenu og lent um kl 20:15. Gist er í Aþenu í 2 nætur fyrir siglingu. Um hádegið þann 20.apríl er ekið sem leið liggur að skipi og stigið um borð í Celebrity Infinity. Eftir dag á siglingu er stoppað í Þessalóníki þar sem skipið er við höfn allann daginn. Síðan er annar siglingardagur uns komið er til Istanbúl þar sem stoppað er í tvo daga. Eftir Istanbúl er annar dagur á siglingu áður en komið er til Ephesus. Næst er stoppað á Ródos og síðan liggur leiðin til eyjarinnar Santoriri sem er ógleymanleg en þaðan verður svo haldið að hinni sólbjörtu Mykonos með sín hvítu hús, þá er það að lokum aftur til Aþenu þar sem siglingunni lýkur. Eftir morgunverð kveðjum við skipið og förum með rútu í skoðunarferð til Sounion þar sem hof Poseidons stendur og keyrum síðan til Aþenu þar sem gist verður eina nótt. Frjáls eftirmiðdagur í Aþenu. Að lokum er flogið aftur heim á leið með millilendingu í Kaupmannahöfn.

Celebrity Infinity
Celebrity Inifnity er í svokölluðum „Millenium" flokki hjá Celebrity Cruises, sem er næsthæsti klassi skipafélagsins. Innréttingar skipsins einkennast af marmara, klassískum viðarinnréttingum og gleri. Allur aðbúnaður og vistarverur bera vott um gæði og glæsileika.
Celebrity Infinity fór í sína jómfrúarferð árið 2001 og var allt tekið í gegn árið 2024. Skipið er 91.000 lestir tæplega 300 metrar á lengd og með rými fyrir liðlega 2.000 farþega. Aquaspa er heilsulind með nuddpottum, gufu, sauna, persneskum garði og sólarium með glerþaki. Ótal sérfræðingar bjóða ýmsar dekur- og heilsubætandi meðferðir gegn gjaldi.
Klefarnir eru ýmist með tvíbreiðu rúmi eða tveimur rúmum, setkrók með sófa og skrifborði, minibar, öryggishólfi og sjónvarpi. Hægt er að bóka skoðunarferðir, horfa á kvikmyndir og panta herbergisþjónustu í klefann í gegnum sjónvarpið. Baðherbergi er með sturtu, snyrtivörum, baðsloppum og hárþurrku. Sængurfötin eru ofin úr egypskri bómull og herbergisþjónusta er til reiðu allan sólarhringinn.
Á efsta þilfarinu er skokkbrautin, þar sem hægt er að ganga eða hlaupa hringinn um skipið. Unaðslegur hitabeltisgarður er í útsýnisturninum. "The Conservatory" og á sólarþilfarinu er sundlaug, sólbekkir og barir.
Kvöldverður eru borinn fram í aðal veitingasal skipsins, sem heitir Olympic og er á tveimur hæðum. Við sérstök tækifæri er gaman að bóka borð á Qsine veitingastaðnum, þar sem gestir velja sér matseðilinn með Ipad.
Barir eru um allt skip og þegar kvöldar taka við glæsilegar sýningar og uppákomur í flottu 4ra hæða leikhúsi. Ótal afþreyingarmöguleikar, að ógleymdri fyrsta flokks þjónustunni sem fæst um borð, gera siglingu með Celebrity Infinity ógleymanlega.
Flugtafla
Dagsetning | Flugnúmer | Brottför | Kl. | Áfangastaður | Kl. |
---|---|---|---|---|---|
18. apr | FI 204 | Keflavík | 07:40 | Kaupmannahöfn | 12:55 |
18. apr | SK 2777 | Kaupmannahöfn | 15:55 | Aþena | 20:15 |
02. maí | SK 778 | Aþena | 13:45 | Kaupmannahöfn | 16:10 |
02. maí. | FI 209 | Kaupmannahöfn | 17:15 | Keflavík | 18:30 |
Siglingleið
Dagur | Áfangastaður | Koma | Brottför |
---|---|---|---|
20. april | Aþena (Piraeus) Grikklandi | 17:00 | |
21. april | Á siglingu | ||
22. april | Þessalóníki, Grikklandi | 06:30 | 20:00 |
23. april | Á siglingu | ||
24. april | Istanbúl, Tyrklandi | 07:00 | |
25. april | Istanbúl, Tyrklandi | 20:00 | |
26. april | Á siglingui | ||
27. april | Ephesus ( Kusadasi ), Tyrklandi | 08:00 | 19:00 |
28. april | Ródos, Grikklandi | 08:00 | 19:00 |
29. april | Santorini, Grikklandi | 07:00 | 22:00 |
30. april | Mykonos, Grikklandi | 07:00 | 18:00 |
01. maí | Aþena (Piraeus) Grikklandi | 05:00 |
FERÐATILHÖGUN:

Laugardagur 18. april - Keflavík - Aþena
Flogið er í morgunflugi Icelandair til Kaupmannahafnar og áfram með SAS til Aþenu þar sem áætluð lending er klukkan 20:15. Ekið á hótel Cocomat þar sem gist er í 2 nætur.
Aþena, höfuðborg Grikklands, er gjarnan kölluðborg andstæðnanna. Annars vegar er borgin vestræn nútímaborg, en hins vegar minnir hún á lítið þorp þar sem mjóar götur og aldagömul hús keppast við að ná athygli vegfarandans.
Saga borgarinnar nær aftur um þúsundir ára eins og hin fögru hof uppi á Akrópólishæð bera vitni um. Fallegar nýklassískar byggingar eru einnig áberandi í borginni og þar er helst að nefna gömlu konungshöllina, fornminjasafnið, háskólabyggingarnar og Zappeion sýningarhöllina. Ekki má gleyma marmaraleikvangnum Kallimarmaro sem reistur var fyrir fyrstu ólympíuleika nútímans. Elsta hverfið í Aþenu liggur í hæðinni fyrir neðan Akrópólis og ber heitið Plaka. Þar er alltaf mikið líf jafnt á degi sem nóttu. Á nýtískulegum eða hefðbundnum kaffihúsum, börum og veitingastöðum þar sem má finna allt það helsta sem borgin hefur upp á að bjóða í mat og drykk. Grísk hönnun og minjagripir eru áberandi í verslunum í gamla bænum og þar ættu allir að geta nælt sér í eitthvað sem hjartað girnist.

Sunnudagurinn 19. april, Skoðunarferð í Aþenu
Eftir morgunverð er farið í skoðunarferð um Aþenu. Við byrjum á því að keyra með rútu til að skoða fallegu háskólabyggingarnar, hof Seifs og hlið Hadríans á leiðinni til Kallimarmaro. Þar sjáum við eina marmaraleikvanginn í heiminum, en hann var byggður fyrir fyrstu ólympíuleika okkar tíma árið 1896. Við stoppum líka við skiptingu varðanna fyrir framan gömlu konungshöllina. Þaðan keyrum við upp á Akrópólis og göngum upp á þessa frægu hæð þar sem við skoðum hofin þrjú sem þar eru. Af þeim er Meyjarhofið (Parþenon) frægast. Frá Akrópólis göngum við niður í gamla bæinn Plaka þar sem við borðum ekta grískan hádegisverð á einu af aðaltorgi þessa yndislega hverfis.
Eftir matinn er eftirmiðdagurinn frjáls.

Mánudagurinn 20. april, Aþena – Celebrity Infinity
Morguninn er tekinn rólega og upp úr hádegi er ekið til skips. Eftir innritun er vel við hæfi að setjast niður og fá sér síðbúinn hádegisverð áður en gengið er um skipið og litið á hvað er í boði. Celebrity Infinity leggur úr höfn kl.17:00.

Þriðjudagurinn 21. april - Á siglingu
Eftir morgunverð fer fararstjóri með hópinn í skoðunarferð um skipið og svo er um að gera að skoða sig um á eigin vegum og njóta alls þess sem boðið er upp á þegar skipið er á siglingu. Það má t.d. leggjast á sólbekk við sundlaugina og smakka hina litskrúðugu og ljúffengu kokteila sem barþjónarnir blanda. Svo má fara í búðir, á málverkauppboð, eða kannski á matreiðslunámskeið, danskennslu eða sækja fyrirlestur. Matur og drykkur er í boði allan daginn, en þegar kvöldar bíða 3ja rétta kvöldverðir eftir gestum í matsölum skipsins og glæsilegar sýningar í leikhúsinu fyrir eða eftir mat.

Miðvikudagurinn 22. april, Þessalóníki
Þessalóníki er höfuðborg Makedóníusýslunnar og er önnur stærsta borg Grikklands. Borgin var vagga nýsköpunar í fornöld og um hana streymir enn í dag sama skapandi orkan. Oft er borgin kölluð hjarta norðursins og býr yfir ríkri sögu og lifandi menningu. Borgin státar af fallegum ströndum við Eyjahafið, stórkostlegum rómverskum minjum og spennandi mörkuðum þar sem hægt er að finna handverk, krydd og grískt góðgæti. Hér blómstrar matar- og næturlíf, og er borgin einnig þekkt fyrir gestrisni og gott viðmót heimamanna. Þessalóníki er fullkominn staður til að upplifa söguna, njóta góðs matar og kanna hina fornu menningu Grikklands með nútímalegu viðmóti.

Fimmtudagurinn 23.april - Á siglingu
Upplagt að slaka á og njóta þjónustunnar um borð á leið til Istanbúl.

Föstudagur og Laugardagur 24. - 25. apríl Istanbúl
Istanbúl er fjölmennasta borg Tyrklands, miðstöð menningar og fjármála landsins. Borgin liggur beggja vegna Bosporussunds, sem tengir Svartahaf og Marmarahaf, þannig að borgin er eins og brú milli Asíu og Evrópu, bæði hvað varðar landafræði og menningu. Áætlað er að á milli 15 til 19 milljónir búi í borginni, sem þýðir að hún er ein af stærstu borgum veraldar. Í borginni er mikill fjöldi sögulegra bygginga, spennandi listasafna og annarra safna. Þar ber hæst Topkapi höllina, Hagia Sophia og Bláu Moskuna. Í Istanbúl er fjöldi verslanamiðstöðva, sumar þeirra gamlar og sögufrægar, en aðrar nýtískulegar. Basarinn mikli, sem hefur starfað frá árinu 1461, er einn elsti og stærsti yfir byggði markaður veraldar. Markaðurinn Mahmutpasha-basar er undir berum himni og nær frá basarnum mikla að Egypska-basarnum, sem hefur verið stærsti kryddmarkaður Istanbúl frá árinu 1660. Í borginni er oft mikið um að vera, mikil umferð og mannþröng, en á sama tíma er hún bæði spennandi og sjarmerandi og ber keim af bæði austri og vestri.

Sunnudagur 26. april - Á siglingu
Nóg að gera, borða og upplifa. Morgunverður og hádegisverður úti eða inni. Ef einhverjir hafa ekki fengið sér hamborgara, er örugglega verið að grilla þá úti á dekki. Leikir og fjölbreyttir kokteilar við sundlaugina. Vonandi eru allir sólbrúnir og sælir á barnum fyrir mat og í matsalnum um kvöldið.

Mánudagur 27. april, Ephesus ( Kusadasi )
Rómverska borgin Efesus er söguleg perla og jafnframt ein af best varðveittu fornminjum í heimi. Hún var áður mikilvæg borg í forn-Grikklandi og síðar undir Rómaveldi. Þar má sjá stórbrotnar rústir sem gefa glögga mynd af lífi fólks fyrir yfir 2000 árum. Gengið er um breiðgötur sem voru upplýstar á kvöldin og í þessari stórkostlegu borg má finna opinberar byggingar, baðhús, bókasafn, leikhús og almenningssalerni ásamt ótal minnismerkjum, styttum og gosbrunnum.
Efesus er 15 km inn í landi frá Kusadasi sem er vinsæll strandbær við tyrknesku Eyjahafsströndina og er helsta aðkomuhöfn ferðamanna sem heimsækja Efesus. Bærinn er þekktur fyrir góða veðráttu, verslanir, veitingastaði og fallegar strendur.

Þriðjudagurinn 28. april, Ródos
Ródos er eyja sem sameinar allt það besta sem hægt er að hugsa sér í Miðjarðarhafinu. Hún á sér langa fornaldarsögu eins og fornminjar bera vitni um, en einnig ríka miðaldarsögu frá þeim tímum sem riddarar heilags Jóhannesar byggðu eyjuna. Tyrkir voru einnig lengi á Rhodos og í byrjun 20. aldarinnar var eyjan undir stjórn Ítalíu. Rhodosborg er því ein af fegurstu miðaldaborgum í Miðjarðarhafinu þar sem menning austurs og vesturs blandaðist saman í gegnum aldirnar og gerði borgina að lítilli heimsborg þar sem gaman er að ganga um og upplifa andrúmsloftið sem ber keim af fyrri öldum.
En eyjan er líka náttúrufögur þar sem grænar hæðir líða ofan í túrkísbláan sjó og lítil þorp hvíla á milli ólífulunda og ávaxtatrjáa. Og ekki skemmir að á þessari eyju eru yfir 300 sólardagar á ári.

Miðvikudagurinn 29. april, Santoríni
Santorini er eyja sem löngum hefur verið kölluð hin fegursta í heimi. Eyjan eins og hún er í dag myndaðist í miklu sprengigosi árið 1614 f.kr., þegar helmingur eyjarinnar sökk í sæ og myndaði gíg sem er með þeim stærstu sem af er vitað. Innsiglinginn í gegnum gíginn er ógleymanleg því útsýnið upp á land er stórfenglegt þar sem tveir stærstu bæjirnir hanga utan í gígbarminum. Eyjan er fræg fyrir stórkostlegt landslag, forna sögu, þ.á.m. bæinn Akrótiri sem hvarf undir ösku í sprengigosinu mikla, og hellahúsin sem byggð eru inn í klettinn og virðast oft hanga í lausu lofti.

Fimmtudagurinn 30. april, Mykonos
Mykonos er eyja ríka fólksins í Grikklandi þar sem snekkjur og villur skiptast um að ná athygli ferðamannsins. Innlendir og erlendir leikarar og söngvarar heimsækja eyjuna á ári hverju og margir eiga þar sumarhús. Eyjan er fræg fyrir fyrir fallegu höfnina með hvítu húsunum sem eru skreytt með hurðum og gluggum á alls konar litum og litlu mjóu göturnar sem mynda eins konar völundarhús þar sem gaman er að villast. Vindmyllurnar sem gnæfa á hæðinni yfir bænum setja fallegan svip á heildarmyndina.

Föstudagur 01. maí, Aþena - Sounion
Eftir morgunverð í skipinu er farið frá borði upp í rútu sem bíður hópsins. Keyrt er í gegnum Pireus til að komast að strandleiðinni til Sounion. Strandleiðin er kölluð The Athenian Riviera og við keyrum meðfram sjónum á milli fallegra hverfa og sjarmerandi strandbæja til syðsta odda Attíkuskagans. Á Sounion stoppum við til að skoða hof Poseidons sem byggt var á 5. öld f.kr. og til að njóta náttúrufegurðarinnar á þessum fallega stað þaðan sem við horfum bæði út á Saróníska flóann og á Eyahafið. Við keyrum sömu leið til baka til Aþenu þar sem við gistum á hótel Cocomat.
Eftirmiðdagur og kvöld á eigin vegum.

Laugardagur 02. maí, Aþena - Keflavík
Eftir morgunmat er haldið út á flugvöll þar sem flogið er með SAS klukkan 13:45 til Kaupmannahafnar og lent þar klukkan 16:10 og síðan skipt um vél og flogið með Icelandair heim, flugið fer frá Kaupmannahöfn kl 17:15 og lent í Keflavík klukkan 18:30.
-
Veðrið
-
Flugtími
Kef
ATH
6
Morgunflug
-
Gjaldmiðill
€Evra
Gengi