fbpx Servatur Waikiki, Playa del Inglés | Vita

Servatur Waikiki, Playa del Inglés
4 stars

Vefsíða hótels

Servatur Waikiki er fínasta hótelsamstæða á frábærum stað í hjarta Ensku strandarinnar. Nokkurra mínútna gangur í miðbæinn. Ókeypis skutla á ströndina sem er í 1,5 km fjarlægð. Góð aðstaða fyrir fjölskyldufólk.

Í samstæðunni eru 513 herbergi í fimm sjö hæða, hringlaga byggingum. Herbergin eru 25 fermetrar, Standard eða Superior, og ætluð allt að þremur einstaklingum. Innréttingar eru snyrtilegar, í ljósum og líflegum litum. Flísar eru á gólfum. Góðar svalir eru búnar húsgögnum.

Alls staðar er loftkæling og upphitun, sími, sjónvarp með gervihnattarásum, öryggishólf og ókeypis þráðlaus nettenging. Á baðherbergjum er sturta, hárþurrka, snyrtispegill og baðvörur. Á Superior herbergjum er aðstaða til að laga kaffi og te, stærra sjónvarp, baðsloppar og inniskór.

Morgunverður, hádegis- og kvöldverður er af hlaðborði með réttum frá öllum heimshornum, en hægt er að velja um að vera með morgunmat, hálft fæði eða allt innifalið. Hægt er að fylgjast með kokkunum að störfum. Nokkrir barir eru í hótelinu. 
Sundlaugin er stór og sólbekkir og sólhlífar um allan hótelgarðinn. Við sundlaugina er bar þar sem mikið úrval fæst af léttum réttum og svalandi drykkjum. Krakkaklúbbur er starfræktur og sérsvæði er fyrir börnin, busllaug með vatnsrennibrautum og ævintýragarði. Tölvuleikja- og bíóherbergi er fyrir eldri börn. Dagskrá er einnig fyrir fullorðna með zumba-tímum og vatnasporti, og skemmtunum og lifandi tónlist á kvöldin.
Líkamsræktaraðstaðan er með nýjum tækjum og útsýni yfir laugina.

MaiTai-heilsustofan er aðeins ætluð fullorðnum og þar er hægt að slaka á í friði og ró í heitum potti, hvíldarhreiðri eða nuddi. Góð verönd er með sólbaðsaðstöðu með balíbeddum og sólbekkjum.
Móttakan er opin allan sólarhringinn og þar er þvotta- og þurrhreinsiþjónusta en einnig hafa gestir aðgang að þvottavélum og þurrkurum gegn gjaldi.

Gott hótel á frábærum stað í hjarta Ensku strandarinnar. Í nokkurra mínútna göngufjarlægð er miðbærinn með sitt iðandi mannlíf og afþreyingu. 1,5 km eru niður á strönd en ókeypis skutla flytur gesti hótelsins þangað. Á hótelinu er næg afþreying fyrir börn og fullorðna en líka rými til slökunar.

Hér er hlekkur með öllum helstu upplýsingum um sóttvarnir og ráðstafanir sem gripið hefur verið til á Servatur Waikiki

Fjarlægðir

 • Flugvöllur: 34 km
 • Miðbær: Nokkurra mínútna gangur í miðbæ
 • Strönd: Ókeypis skutla á strönd
 • Veitingastaðir: Á hóteli og í næsta nágrenni

Aðstaða

 • Sundlaug
 • Skemmtidagskrá
 • Veitingastaður
 • Bar
 • Barnadagskrá
 • Barnaleiksvæði
 • Barnasundlaug
 • Gestamóttaka
 • Heilsulind
 • Herbergi
 • Líkamsrækt
 • Lyfta
 • Nettenging

Vistarverur

 • Sjónvarp
 • Öryggishólf
 • Verönd/svalir
 • Hárþurrka
 • Loftkæling: og upphitun
 • Kaffivél: Í superior herbergjum

Fæði

 • Allt innifalið
 • Hálft fæði
 • Morgunverður
 • Án fæðis

Við notum vefkökur (e.cookies) t.d. til að greina umferð um vefinn og til að bæta upplifun notanda á síðunni. Með því að halda áfram að vafra um síðuna samþykkir þú vefkökuskilmála VITA

Nánari upplýsingar um vefkökunotkun