Allir sem koma til Spánar ættu að heimsækja Altea. Gamli bærinn stendur uppá hæð sem áður fyrr gerði þorpsbúum kleift að sjá til sjóræningjana sem stundum komu frá Ibiza eða Mallorca og gerðu mikinn óskunda á meginlandinu.
Bærinn er þekktur fyrir kirkjuna sem er rómuð fyrir fegurð og byggist gamli bærinn í kringum hana. Það er einstaklega notalegt að ganga um litlu steinlögðu göngugöturnar (háir hælar geta reynst hættulegir) og rétt við kirkjuna er útsýnispallur þaðan sem sést yfir til Benidorm og Calpe.
Fjöldi smáverslana sem selja listmuni, skartgripi og leðurvöru eru við þröngar götur þorpsins og í júlí og ágúst er starfræktur markaður á kirkjutorginu. Tilvalið er að fara til Altea seinnipartinn, ná ljósaskiptunum og bregða sér síðan á einn á veitingastöðum þorpsins.