Íbúar þorpsins eru aðeins um 200 talsins en yfir tvær milljónir ferðamanna heimsækja þorpið á hverju ári sem gerir Guadalest að einum fjölsóttasta ferðamannastað Spánar.
Það er mjög tilkomumikið að aka leiðina upp að Guadalest en ekið er sem leið liggur framhjá "Terra Mitica"-skemmtigarðinum og afleggjaranum niður til Benidorm og beint upp til fjalla. Vegurinn til Guadalest er malbikaður en liggur oft bugðóttur utan í bröttum hlíðum fjallsins. Það er mjög eftirminnilegt að aka þessa leið.
Í Guadalest-þorpinu er gamalt Máravirki frá 8. öld, byggt á kletti í um 900 metra hæð yfir sjávarmáli. Eru kastalarústirnar til vitnis um stormasama sögu þess. Þræða þarf um fimm metra löng göng í gegngum klett til þess að komast að elsta hluta þorpsins, en efst trónir kirkjugarðurinn sem býður upp á einstakt útsýni yfir Guadalest dalinn og nærliggjandi sveitir. Frægastur er turninn "Peñon de La Alcalá" sem var notaður til að fylgjast með mannaferðum í dalnum fyrir neðan.
Einnig er að finna í þorpinu tvö söfn, "smámunasafnið Belen" og pyntingasafn. Það er mikil upplifun að koma inn í safnið þar sem litlu dúkkuhúsin eru til sýnis. Þau eru með öllum smáatriðum og svo á hæðinni fyrir ofan er búið að útbúa stórt fjallaþorp úr þessum litlu húsum og öllu tilheyrandi. Þorpsbúar eru frægir fyrir handverk, t.d. handsaumaða dúka, körfugerð og barnaföt. Hægt er að nálgast vörurnar í verslunum sem eru við þröngar götur þorpsins þar sem þær eru höggnar inn í bergið.