Guðmundur Viðar Karlsson
Fararstjóri
Fararstjóra- og leiðsögumannastörf hefur Guðmundur unnið á hverju ári síðan 1981. Hann hefur farið í fjölda ferða á vegum VITA til hinna ýmsu áfangastaða.
Að loknu námi í þýsku, sögu, ensku og ítölsku við Háskóla Íslands og háskóla í Bandaríkjunum, Þýskalandi og Ítalíu kenndi Guðmundur þýsku við Háskóla Íslands frá 1980 til 2021 og einnig þýsku -og stundum ítölsku og sögu- við Menntaskólann við Sund nokkrum árum skemur.
Guðmundur tók leiðsögumannapróf frá Leiðsöguskóla Íslands 1984 – og hefur þýtt þrjár bækur, úr sænsku, ítölsku og þýsku.
Guðmundur hefur unnið jöfnum höndum sem fararstjóri og leiðsögumaður heima og erlendis: Fyrstu sumurin í ýmiss konar ferðum um Ísland þvert og endilangt og á annað hundrað ferðum til Grænlands, síðan tóku einnig við störf á sólarströndum Portúgals, Ítalíu, Kýpur, Krítar og Tyrklands í 15 sumur.
Sérferðir erlendis hófust upp úr 1990 og hefur Guðmundur t.d. farið í ótaldar menningarferðir um Evrópulönd. Af stórborgum álfunnar eru honum Berlín, Lissabon og Róm sérstaklega hjartfólgnar, en Ítalía er það Evrópuland sem hvað mest hefur laðað hann og heillað í hálfa öld. Guðmundur hefur einnig farið í skemmtisiglingar, gönguferðir og í fjöldan allan af leiguflugsferðum til áfangastaða í fjórum heimsálfum. Hann getur því státað af ómældri og fjölþættri reynslu í leiðsögn og fararstjórn.