Lóa Pind Aldísardóttir
Fararstjóri
Lóa Pind hefur skíðað í Austurríki, á Ítalíu, Spáni og víða á Íslandi, bæði á skíðasvæðum og í Kerlingarfjöllum, á Snæfellsjökli, Eyjafjallajökli, í Kverkfjöllum og víðar.
Lóa mun í vetur bjóða upp á leiðsögn um léttari brekkur Madonna fyrir þá sem eru að renna sín fyrstu spor í vetrarríkisparadísinni - fyrir fólkið sem hefur lengi þráð að komast í sólrík og endurnærandi skíðafrí. Hún hefur ferskan skilning á því hvernig er að vera byrjandi í brekkunum og hyldjúpan skilning á lofthræðslu - enda hefur hún á örfáum árum komið sér úr plógnum og getur nú rennt sér sómasamlega niður allar bláar og rauðar brekkur. Hún dvaldi lungann af síðustu skíðavertíð í Madonna og kolféll fyrir svæðinu þar sem sólin skein nánast alla daga, lognið hreyfðist varla og betra úrval af bláum og ljósrauðum brekkum hafði hún aldrei kynnst fyrr.
Hún er fædd 1970, ólst upp sem antísportisti en byrjaði að hlaupa á fertugsafmælinu. Steig á racer í fyrsta skipti sumarið 2014 og tók þátt í tveimur hjólakeppnum sama sumar. Um svipað leyti tók hún fram skíðin (sem hún fékk í jólagjöf 11 ára gömul) og fór að renna sér niður brekkur í plóg. Þar til hún hitti Jónas. Sem hefur síðan þá verið með hana í stífri einkaskíðakennslu.
Hún hefur starfað við fjölmiðla undanfarin tæp 30 ár, við dagblöð, tímarit, útvarp og sjónvarp. Síðustu 12 ár hefur hún einbeitt sér að því að leikstýra heimildaþáttaröðum í sjónvarpi. Í störfum sínum hefur hún ferðast víða um heim - og svo heppilega vill til að það er einmitt það langskemmtilegasta sem hún gerir; að ferðast og dvelja á nýjum slóðum….
Lóa er í sambúð með Jónasi Valdimarssyni verkfræðingi, leiðsögumanni og fararstjóra. Þau eiga samanlagt 5 uppkomin börn og 2 barnabörn.
Ferðir:
-
Madonna di Campiglio
Einstaklega þægilegt svæði og heillandi skíðabær.
» Nánar
Stutt í skíðalyftur og kláfa úr miðbænum.Verð frá
188.600kr
á mann m.v 2 í tvíbýli með morgunmat, 11.janúar - nætur