fbpx Madrid, borgarferð

Madrid

Fótbolti, tapas, menning og listir

Bókaðu þína ferð
Báðar leiðir
Aðra leið

Myndagallerí

Höfuðborg Spánar - Fótbolti, tapas, menning og listir

Ferðir á eigin vegum.

Borgarferð til höfuðborgar Spánar! Madríd er borg menningar og lista, fótbolta, matar og mannlífs, og það fram á rauða nótt. Borg sem kemur skemmtilega á óvart með sín breiðstræti, öngstræti, göngugötur, fögru hallir og kirkjur, heimsfrægu myndlistarsöfn, gróðursælu almenningsgarða, hjalandi gosbrunna, og síðast en ekki síst iðandi mannlíf.

„Ég hef fengið hundruð íslenskra ferðamanna til Madrídar þau ár sem ég hef tekið að mér fararstjórn," segir Kristinn R. Ólafsson, sem hefur verið yfirfararstjóri í slíkum ferðum. „Mjög margir hafa komið að orði við mig og sagt mér hve borgin hafi komið þeim skemmtilega á óvart: mannlífið, menningin, umhverfið, maturinn eða hve hreinleg hún sé -já, fleiri en einn og fleiri en tveir hafa einmitt haft orð á því við mig svona í framhjáhlaupi." 

Það er í raun ekki að undra að borgin komi á óvart. Madríd er falleg og fjölbreytt, ein af stórborgum Evrópu. Hún ber þess merki að hafa verið höfuðborg Spánar síðan á 16. öld og í reynd alls hins spænska heimsveldis á sínum tíma.
Borgin er ennþá konungsborg þó að Jóhann Karl, núverandi Spánarkonungur, búi rétt fyrir utan hana en ekki í Konungshöllinni í miðborginni (El Palacio Real).

Að setjast niður á torgi einsog La Plaza de Santa Ana og fá sér hressingu er frábært, kannski á ljúfu vorkvöldi, eða rölta um göngugöturnar í „El Barrio de las Letras" (Bókmennahverfinu) þar sem skáldjöfrar á borð við Cervantes sjálfan bjuggu. Þetta hverfi verður sérlega líflegt um helgar. Ekkert er heldur að því að líta inná La Plaza Mayor, steinsnar í burtu, eða fara og „smætlast" (fara í tapasleiðangur) á veitingastöðunum við götuna Calle Cava Baja sem er skammt undan.

Chueca er hýra hverfið í borginni, rétt við La Gran Vía, eitt elsta stræti miðborgarinnar. Þar er fullt af lífi og fjöri fyrir alla, með veitingastaði og verslanir...

El Retiro er 120 hektara skrúðgarður í miðborginni, græn vin sem afar notalegt er að sækja, hvort sem það er til að ganga sér til skemmtunar eða setjast niður og fá sér eitthvað hressandi -nema hvort tveggja sé.

Höfuðborg Spánar er ein fjörugasta kvöld- og næturlífsborg í Evrópu og mannlífið er einstaklega fjölskrúðugt. Veitingahúsin, kaffihúsin, barirnir og diskótekin eru á hverju strái og langi mann á flamenkó eru staðirnir í Madríd meðal þeirra albestu á Spáni.

Maturinn

Það þarf ekki að nefna það lengur við Íslendinga að maturinn á Spáni er góður, hvort sem það eru nautasteikur eða ýmiskonar fiskmeti. Spánarvínin standa einnig fyrir sínu. Madríd er engin undantekning í þeim efnum nema síður væri.
Ekki vantar tapas-barina og „smætlurnar" þar, fjölbreyttar og gómsætar. Búðirnar skortir ekki heldur, hvort sem það eru merkjavörubúðir eða stórverslanir á borð við keðjuna El Corte Inglés.

Fótboltinn

Fótboltinn er að sjálfsögðu í hávegum hafður: Real Madrid, Atlético de Madrid o.fl. Hjá Real Madrid gera t.a.m. garðinn frægan menn á borð við Cristiano Ronaldo og Sergio Ramos.

Listin

Menningarlífið er afar fjölbreytt, söfnin skipta tugum, leikhús og söngleikahús eru mörg; jafnvel frægasta nautatorg heims, La Plaza de Toros de las Ventas, er í Madríd.
Fjögur listasöfn standa upp úr, öll nánast á sömu torfunni í miðborginni:

El Museo del Prado, eitt besta málverkasafn heims sem geymir verk eftir menn á borð við Goya, Velázquez, El Greco, Rubens, Rafael, Bosch, Zurbarán, Dürer og marga fleiri. 
Ekki ónýtt að geta barið augum mestarastykki á borð við hátind barokkmálaralistarinnar: Las Meninas eftir Velázquez.

El Museo Reina Sofía, nýlistasafn Spánar, þar sem sjá má m.a. Gernika eftir Picasso, þetta stríðsóp gegn stríði sem hann málaði 1937 eftir loftárás Þjóðverja á nefndan bæ í Baskalandi.
Fleiri góðir eru þarna: nægir að nefna Salvador Dalí og Joan Miró.

El Museo Tyssen-Bornemisza flíkar merkum verkum eftir helstu meistara málaralistarinnar allt frá miðöldum fram til 21. aldar og menningarmiðstöðin CaixaFórum.

Borgarferð til Madríd er eitthvað sem má ekki láta framhjá sér fara. 

Sjá nánari ferðalýsingu
Bókaðu þína ferð
Báðar leiðir
Aðra leið
 • Hagnýtar upplýsingar

 • Verslun og þjónusta

 • Veðrið

 • Flugtími

  Kef MAD

  3,45

  Morgunflug

 • Gjaldmiðill

  Evra

  Gengi

 • Bjórverð

  2-4 EUR

 • Rafmagn

  220

Sjá Kortasýn Sjá gististaði

Við notum vefkökur (e.cookies) t.d. til að greina umferð um vefinn og til að bæta upplifun notanda á síðunni. Með því að halda áfram að vafra um síðuna samþykkir þú vefkökuskilmála VITA

Nánari upplýsingar um vefkökunotkun