fbpx Matur og mannlíf | Vita

Matur og mannlíf

Kampavín og kaloríur

Ferðir
Flug
Báðar leiðir
Aðra leið

Myndagallerí

Róm - Borgin er að vakna!

20. - 24. október.
Helgarferð með leiðsögn Sigurlaugar M. Jónasdóttur.

Það er kyrrð yfir þessari borg sem ku aldrei sofa, loftið er tært eftir rigningar næturinnar.  Glaðbeittir þjónar raða út borðum og stólum og kaffiilmurinn kitlar nef ferðamanna.  Róm sem hefur svo margt að geyma og kemur manni sífellt á óvart verður okkar næstu fjóra daga.  Tilhugsunin er yndisleg, við ætlum í þessu ferðalagi að kynnast matarmenningu ítala, læra kannski örlítið að elda og ganga veg Caravaggio með vinsælasta barhoppi í heimi. Við drögum djúpt andann á Fiori torgi og látum auðveldlega  glepjast þegar granataeplabóndinn blikkar okkur og bíður okkur safa sem bætir heilsuna og gleður.  Á þessu  torgi sjáum við hvað við ætlum að taka með okkur heim og mátum í huganum parmesanostinn í töskuna okkar, hann hann hlýtur að komast fyrir.

En við ætlum ekki eingöngu að labba götur Rómar, það getur verið ljúft að hverfa aðeins úr stórborginni og heyra fuglasönginn og smakka vín í réttu umhverfi.  Við förum í lest í lítinn bæ sem stendur upp á kletti, bærinn heitir Orvieto og bara nafnið vekur forvitni.

Við höfum valið veitingastaði sem kæta og við lofum ykkur bragðgóðri skemmtun í Róm. 

Upplifðu „bragðið“ af Ítalíu í þessari skemmtilegu sælkeraferð til Rómar með Sigurlaugu Margréti Jónasdóttur.

Fimmtudagur 20. október -  Tema - Bragðgóð skemmtun. 

Hotel Ariston
Heimilisfang: Via Filippo Turati 16,Roma
Sími: +3906 4465399
Flogið í beinu leiguflugi með Icelandair og áætlað að lenda í Róm um kl. 14:40. Ekið á hótel Ariston þar sem dvalið verður í fjórar nætur. Síðdegið notum við til að undirbúa okkur fyrir kvöldið.
Um kvöldið verður bragðgóð skemmtun þegar við upplifum, „matar- og vínsmökkun“ á veitingastaðnum Tema sem er í göngufæri við hótelið, þar fáum við að smakka ýmislegt gott og dreypum á ljúfum vínum.

Mæting í gestamóttöku kl. 19:00 og gengið saman á veitingastaðinn.
Innifalið: Matur og vínsmökkun.

Heimilisfang: Tema  Via Panisperna 96-97-98, 00184 Roma.


rome_italy_12.jpg

 

Föstudagur 21. október - Matreiðslunámskeið í Trastevere hverfinu

Þetta er lítill matreiðsluskóli í hliðargötu rétt hjá aðaltorginu í Trastevere hverfinu. Skólinn er rekinn af ítölskum hjónum, Chef Andrea og Erica, snillingar í matargerð og skemmtilegir kennarar. Þau byrja daginn á að heimsækja markaðinn til að velja ferskt og gott hráefni fyrir matargerðina og taka svo á móti okkur, við eldum saman bragðgóða og hefðbundna rómerska rétti.  Við endum námskeiðið á því að borða saman og gleðjast yfir matseldinni.  Hægt er að kaupa vín með matnum fyrir sanngjarnt verð.
Hér er hægt að fá nánari upplýsingar um skólann. 

Mæting í gestamóttöku 08:15 og ekið með strætó/leigubílum í skólann.

Heimilisfang: Cooking classes in Rome  Chef Andrea og Erica Consoli  Via dei Finearoli, 5 Trastevere.


matur_og_mannlif_matreidslunamskeid.jpg

 

Laugardagur 22. október - Orvieto, Umbria

Þennan laugardagsmorgun tökum við daginn snemma og förum með lest til fallega bæjarins Orvieto, oft kallaður „kærleiksbarn Rómar og Flórens“, þar sem bærinn hreiðrar um sig mitt á milli borganna tveggja. 
Bærinn stendur á móbergi og undir bænum er að finna net af 440 hellum sem hafa í margar aldir verið notaðir af bæjarbúum til ýmissa þarfa s.s. kælar, brunnar og ekki síst dúfnarækt.
Sagan svífur yfir steinilögðum strætunum og miðaldartorgunum og guðdómlega fallegu kirkjunum.

Borðaður verður hádegisverður kl. 14:00 á vinalegum veitingastað, L´antica Rupe og síðast en ekki síst verður smakkað á hinu fræga Orvieto hvítvíni.

Haldið tilbaka til Rómar seinnipartinn og þá er kjörið fyrir ykkur að fara út að borða um kvöldið ef þið eruð ekki orðin of þreytt. T.d. er gaman að fá sér göngutúr í Monti hverfið sem er í göngufæri frá hótelinu. Einnig eru margir góðir veitingastaðir nálægt Ariston.

Mæting í gestamóttöku kl. 08:10 og gengið að lestarstöðinni (lestin fer 08:58).
Haldið tilbaka til Rómar með lest kl: 17:23
Innifalið: Lestarferðir, kláfur/strætó, hádegisverður, fjögurra rétta máltíð, vínsmakk, vatn og kaffi.


rome_italy_3.jpg

 

Sunnudagur 23. október -  Caravaggio barhopp og Falchetto

Meistaranum Caravaggio þótti ofurvænt um Róm og mörg af hans merkustu verkum eru í kirkjum Rómar og það er eitthvað við það að geta gengið inn í kirkjur borgarinnar án þess að þurfa að borga og geta í friði staðið fyrir framan meistaraverk þessa mikla málara sem hafði ekki hugmyndum um það að hann breytti listasögunni . Hann var snillingur, en ægilega uppreisnargjarn og sérlega skapstór sem kom honum í mikil og alvarleg vandræði.

Við hittumst  í gestamóttökunni klukkan 10:00, töltum upp á brautarstöð og tökum Metro niður á Popolotorg og þar byrjar Caravaggio-barhoppið. (Ég veit að þetta er snemmt fyrir marga, en við erum nú í Róm!) Við skoðum verkin hans í tveimur kirkjum og þess á milli stoppum við á heillandi börum sötrum vín eða kaffi og gleðjumst saman. Fyrri kirkjan er á Poppolotorginu og sú seinni er rétt hjá Navona torginu. Við endum svo á hinu ágæta Fiori torgi og þar er hægt að finna sér staði til að setjast niður og skoða mannlífið og jú fá sér eitthvað létta að borða. 

Um kvöldið hittumst í gestamóttökunni og tökum saman leigubíla á veitingastað kvöldsins, Falchetto.  Þetta er frábær veitingastaður sem stofnaður var 1916 þar sem maturinn er í algjörum sérflokki. Ilmurinn úr eldhúsi er sérlega góður og það er skynsamlegt að koma svolítið svangur á staðinn.  Með matnum þetta kvöld fáum við að smakka á vel völdum vínum sem vínþjónninn velur af kostgæfni.
Eftir matinn ætlum við að ganga að Trevi gosbrunninum og upplifa stemninguna sem er þar og fylgjast með ótrúlegu mannlífi þar sem fólk safnast saman við þennan stórkostlega gosbrunn og horfum með gleði og tökum að sjálfsögðu þátt í að henda smápeningum í brunninn,sem tryggir það auðvitað að við komum aftur til Rómar, fáum okkur kannski ís eða gerum eins og innfæddir ,drekkum rauðvín af stút og hlæjum dátt.

Mæting í gestamóttöku kl. 19:30 og ekið með leigubílum á veitingastaðinn.
Heimilifang: Falchetto,  Via di Montecatini 12 00186 Roma
Innifalið: Kvöldverður, fjögurra rétta, vín og vatn og kaffi.

Heimilisfang Falchetto: Via di Montecatini 12 00186 Roma.


trevi_gosbrunnur_af_italian_notes.is_.jpg

 

Mánudagur 24. október -  Krydd, ostur, svart pasta og nýbakað brauð!

Gaman væri að kíkja á Campo di Fiori torgið og versla þar góðgæti til að hafa með heim. 
Það er eitthvað við það að versla á torginu, enda sögufrægt torg þar sem almúgamenn og höfðingjar hafa í gegnum aldirnar nuddað saman nefjum og keypt í matinn. Við mælum með að þið farið þangað og verslið fyrir heimferðina, það er ekkert betra en að koma heim með góðan parmesan ost , bragðgóða skinku , ilmandi krydd, ferskan aspas, ævintýralegt pasta og svo eru reyndar skemmtilegar skóbúðir sem ættu að kæta einhvern! Svo mæli ég með bakaríinu Forno Campo de ´fiori við hliðina á veitingastaðnum La Carbonara, þetta bakarí er algjörlega guðdómlegt, og hefur verið á þessum stað síðan 1970. Það gæti verið góð hugmynd að kveðja Róm með því að standa þolinmóður í röð með öðrum Ítölum og kaupa sér sætabrauð og borða á torginu meðan mannlífið er skoðað og við lofum okkur því að koma aftur til Rómar.


Rom_rome.jpg

 
Sjá nánari ferðalýsingu
Ferðir
Flug
Báðar leiðir
Aðra leið

Gististaðir

Sjá alla gististaði
 • Veðrið

 • Flugtími

  Kef FCO

  4,5 klst

  Morgunflug

 • Gjaldmiðill

  Evra

  Gengi

 • Rafmagn

  220 volt

 • Bjórverð

  Meðalverð 4-6 EUR

Sjá Kortasýn Sjá gististaði

Við notum vefkökur (e.cookies) t.d. til að greina umferð um vefinn og til að bæta upplifun notanda á síðunni. Með því að halda áfram að vafra um síðuna samþykkir þú vefkökuskilmála VITA

Nánari upplýsingar um vefkökunotkun