Intercontinental Hotel, Berlin
Vefsíða hótels

Nútímalegt lúxushótel á fábærum stað, rétt við dýragarðinn og sædýrasafnið í Berlín. Veitingastaður, glæsileg heilsulind og skemmtilegur bar á hótelinu. Kurfurstendamm og Europa-verslunarmiðstöðin eru í léttu göngufæri og strætó sem gengur að Potsdamer-torgi stoppar fyrir utan hótelið.
Í hótelinu eru 498 fallega innréttuð herbergi og 60 svítur sem rúma tvo fullorðna og barn. Vistarverur eru nútímalegar og stílhreinar og búnar öllum sjálfsögðum þægindum. Teppi eru á gólfum. Loftkæling og upphitun er alls staðar, flatskjársjónvarp, smábar, öryggishólf sem rúmar fartölvur, straujárn og -borð, aðstaða til að laga te og kaffi, auk þráðlausrar nettengingar. Á baðherbergjum er baðker með sturtu, hárþurrka, baðvörur, baðsloppur og inniskór.
Morgunverður er í boði alla morgna á L.A. Café, auk hádegis- og kvöldverðar. Michelin-stjörnu veitingastaðurinn Hugos á 14. hæðinni býður ekki aðeins upp á sælkerarétti af matseðli heldur einnig dásamlegt útsýni. Barinn sem er tileinkaður Marlene Dietrich er einstakur, viðurinn dökkur og leðrið djúpt, líkt og þegar Dietrich var upp á sitt besta. Það er eiginlega ómissandi að setjast þar niður um stund, þó ekki nema bara til að njóta andrúmsloftsins, mögulega með einn af kokteilunum sem þeir sérhæfa sig í við hönd.
Í hótelinu er 1.000 fermetra heilsulind þar sem kostur gefst á að næra bæði líkama og sál. Þar er upphituð sundlaug, nuddpottur, gufubað, hvíldarhreiður og sólarverönd auk þess sem fjöldi nudd- og slökunarmeðferða er í boði. Líkamsræktaraðstaðan er opin allan sólarhringinn, alla daga vikunnar.
Í móttökunni er hraðbanki, farangursgeymsla og þvotta- og þurrhreinsiþjónusta, auk þess sem boðið er upp á bílaleigu og aðstoð við miðakaup og ferðatilhögun.
Intercontinental er glæsilegt hótel á frábærum stað við Tiergarten-almenningsgarðinn í hjarta borgarinnar. Hér gefst færi á fullkominni endurnæringu fyrir líkama og sál.
Dýragarðurinn og verslunarmiðstöðvar eru í léttu göngufæri auk þess sem almenningssamgöngur eru rétt við hótelið.
Fjarlægðir
- Flugvöllur: 9 km
- Veitingastaðir: Á hóteli og allt um kring
- Miðbær: Við Tiergarten
Aðstaða
- Sundlaug
- Veitingastaður
- Aðgengi fyrir fatlaða
- Bar
- Gestamóttaka
- Heilsulind
- Herbergi
- Líkamsrækt
- Lyfta
- Nettenging
Vistarverur
- Sjónvarp
- Öryggishólf
- Kaffivél
- Minibar
- Hárþurrka
- Loftkæling: og upphitun
Fæði
- Morgunverður