Melia Bilbao
Vefsíða hótels

Glæsilegt hótel á frábærum stað í miðborginni, rétt við Nervión-ána og 300 metra frá Guggenheim-safninu. Michelin-veitingastaður og sérhannaðar innréttingar á hótelinu öllu.
Í hótelinu eru 211 rúmgóðar vistarverur, sem skiptast í herbergi sem eru 22 fermetrar hið minnsta og rúma tvo eða þrjá fullorðna, fjölskylduherbergi sem rúma fjóra og svítur. Innréttingar eru í millibrúnum við, leðri og rauðum litum, sérhannaðar, eins og hótelið allt, af arkitektinum Ricardo Legorreta. Teppi eru á gólfum. Stillanleg loftkæling og upphitun er í öllum herbergjum, 3 símar, 37 tommu LCD-sjónvarp, öryggishólf þar sem hægt er að hlaða tölvu og smábar sem fyllt er á gegn gjaldi. Þráðlaus nettenging er gestum að kostnaðarlausu. Á baðherbergjum er bæði baðker og sturta, kraftmikil hárþurrka og snyrtispegill. Útsýni er úr öllum herbergjum, yfir ána eða borgina eða upp til fjalla.
Morgunverður er af hlaðborði í veitingasal með útsýni yfir Doña Casilda lystigarðinn. Veitingastaðurinn Aizian er ekki af verri endanum, margverðlaunaður og fékk Michelin-stjörnu árið 2014. Þar er áherslan á baskneska rétti af matseðli og ferskt hráefni. Quatre býður einnig upp á baskneska og spænska matargerð og þar er hægt að borða úti á verönd. Á Q Lounge er tilvalið að slaka á við lifandi tónlist, ljúffenga drykki og úrval tapas- og pintxos-rétta.
Heilsulind er í hótelinu með upphitaðri útisundlaug og gufuböðum. Líkamsræktaraðstaðan er með góðum tækjum og þar er nettenging. Nudd og aðrar líkamsmeðferðir þarf að panta með fyrirvara í gestamóttöku.
Móttakan er tilkomumikil, með 40 metra lofthæð. Hún er að sjálfsögðu opin allan sólarhringinn og þar er þvotta-, þurrhreinsi og strauþjónusta.
Meliá Bilbao er mjög gott hótel, rétt við Nervión-ána sem rennur í gegnum borgina og Doña Casilda lystigarðinn og stutt frá Guggenheim-safninu. Hér er hægt að slaka á í heilsulindinni eftir langan dag og njóta kræsinga á Michelin-veitingastað. Auðvelt er að komast með almenningssamgöngum í verslunarhverfið og að öllum helstu söfnum og kennileitum.
Fjarlægðir
- Flugvöllur: 13 km
- Miðbær: Rétt við Nervión ána í miðborginni
Aðstaða
- Sundlaug
- Veitingastaður
- Bar
- Gestamóttaka
- Heilsulind
- Herbergi
- Líkamsrækt
- Nettenging
Vistarverur
- Sjónvarp
- Öryggishólf
- Loftkæling
- Minibar
- Hárþurrka
Fæði
- Morgunverður