fbpx Hin rómaða Róm | Vita

Grein sem birtist í morgunblaðinu

Allar leiðir liggja til Rómar segir málshátturinn. Og það má með sanni segja. Einhvernvegin hefur maður það alla vega á tilfinningunni í hvert sinn sem maður kemur þangað, að allt það sem við mennirnir höfum verið að bauka og erum að bauka eigi sér upphaf og endi þar. Komi þaðan. Eða sé á leiðinni þangað ef ekki vill betur. Þannig er Róm, undarleg borg, söguleg, töfrandi. Engri annarri borg lík. Og samt einhvernvegin öllum lík. Því hún hefur staðið þarna svo lengi við fljótið Tíber á miðjum Ítalíuskaganum, gefið af sér og skreytt sig með því sem hún hefur tekið af öðrum. 2700 ára segir sagan að hún sé. Þar hafa listamenn, keisarar, páfar, víkingar, ræningjar, þrælar, vandalar, fasistar, endurreisnarmenn og allra þjóða ævintýramenn sprangað um göturnar og skilið eitthvað eftir sig. Og gera enn. Borgin sem einu sinni var höfuðborg langlífasta keisaraveldis sögunnar, er nú höfuðborg tveggja ríkja. Ítalíu og Vatikansins eða páfaríkisins. Sem er víst minnsta ríki á jörðu, en hefur fleiri fylgjendur en flest ef ekki öll önnur. Enda gnæfa kirkjuturnar páfa yfir borginni hvert sem litið er. Og kirkjusagan er yfir og allt um kring.

 


rome_vita.jpg

Ég hef sjálfur verið svo lánsamur að mínar leiðir hafa oft legið til Rómar í gegnum tíðina. Einn og með öðrum hef ég gengið um götur hennar og torg, upp í turna, niður í borg hinna dauðu undir Vatikaninu og alla leið að gröf Péturs postula. Ég hef setið þar nokkrar páfamessur, verið í móttöku hjá Benediktusi XVI og setið samkirkjulegt þing við borgarmúranna. Og hvert sem erindið er, alltaf finnst mér borgin eins og ótæmandi fjársjóðskista. Samtímis því að hún sé allt það sem ég hef talið upp hér að ofan er hún líka nútímaleg tískuborg. Borg hinna frægu og ríku. Tísku og tildurs. Og borg hinna fátæku. Ekki má gleyma þeim. "Ástandið hér í Róm er orðið svo slæmt, að rómverskar konur eru hættar að kaupa sér nýja skó". Þetta tjáði mér ung kona, leiðsögumaður í Rómaborg, sem aðstoðaði mig við að leiða hóp Íslendinga um borgina á liðinni aðventu. Hún hélt yfir mér langa ræðu um efnahagshrunið sem hún taldi yfirvofandi, atvinnuleysið og stjórnmálin á Ítalíu, spillingu og listasýningar, á milli þess sem hún hjálpaði mér að benda hópnum mínum á ódauðleg listaverk og einstakar byggingar borgarinnar. En þannig er Róm. Stórkostleg, og um leið persónuleg. Og snertir alla fleti hugarflugsins. Eins og það að efnahagsástandið sé mælt í seldum skópörum. Sem segir mikið, því þó borgin sé heimsborg er hún samt svo lítil um sig að hægt er að ganga um kjarna hennar á einum degi, með glans. Alla vega ef maður er vel skóaður.

En þegar allt hefur verið sagt um Róm, elska ég eitt öðru fremur við borgina. Það eru kaffihúsin. Fátt er betra en að tylla séri á kaffihúsi einhversstaðar á þröngum götum gömlu borgarinnar og fá sér rómverska köku með ítölsku kaffi eða glasi af  einhverju köldu og freyðandi. Og seiðandi. Og gleyma sér í mannhafinu á meðan kakan bráðnar í munni og fólkið á næsta borði tapar sér yfir skóverðinu í borginni. Eða pantar sér bara eina köku enn og lætur hugann líða.

 


rome_vita.jpg

Sr. Þórhallur Heimisson
rome_vita.jpg

Við notum vefkökur (e.cookies) t.d. til að greina umferð um vefinn og til að bæta upplifun notanda á síðunni. Með því að halda áfram að vafra um síðuna samþykkir þú vefkökuskilmála VITA

Nánari upplýsingar um vefkökunotkun