Sigmundur M. Andrésson
Sigmundur hefur stundað fararstjórn til fjarlægra staða fyrir hinar ýmsu ferðaskrifstofur.
Sigmundur er fæddur vestur í Dölum. Eftir nám við Verslunarskóla Íslands hóf hann störf hjá Búnaðarbanka Íslands og síðar hjá Verslunarbankanum. Hann starfaði um árabil hjá Seðlabankanum, lengst sem deildarstjóri aðalbókhalds. Hann lauk prófi atvinnuflugmanns og starfaði m.a. við flug með ferðamenn um Ísland og einnig sem flugkennari og svifflugkennari, en í þeirri íþrótt hefur hann verið Íslandsmeistari og sett fjölda meta.
Hann vann á árum áður fyrir Samvinnuferðir-Landsýn, en snéri sér síðan að eigin atvinnurekstri sem forstjóri Max hf.
Ferðalög hafa lengi heillað hann og hafa þau hjónin ferðast um allar álfur heimsins og eftir að hann seldi fyrirtæki sitt hefur hann stundað fararstjórn til fjarlægra staða fyrir, m.a. fyrir Heimsklúbb Ingólfs og ferðaskrifstofurnar Prima, Embla og Úrval Útsýn og VITA.
Hann hefur m.a. farið fyrir hópum til Norður-, Mið- og Suður-Ameríku (Bandaríkjanna, fjölmargra eyja í Karíbahafi, Mexikó, Belize, Kosta Ríka, Gvatamala, Panama, Kólumbíu, Brasilíu, Argentínu og Ekvador ásamt Galapagos eyjum), Afríku (Suður-Afríku, Lesoto, Marokkó og Egyptalands), Asíu (Sameinuðu Arabísku furstadæmanna, Óman, Indlands, Kína, Thaílands, Malasíu, Bali, Singapúr, Víetnam og Kambódíu) ásamt skemmtisiglingum með Carnival Cruises, Celebrity Cruises og Royal Caribbean International um Kyrrahafið, Panamaskurðinn, Karabíska hafið, Suður-Kínahaf, Arabíska flóann, Indlandshaf og Miðjarðarhaf.
Sigmundur er kvæntur og á tvö börn.