Sensimar Arona Gran Hotel & Spa, Los Cristianos
Vefsíða hótels

Mjög gott hótel og heilsulind á besta stað við strandgötuna í suðurhluta Los Cristianos. Aðeins ætlað fullorðnum. Verslanir, veitingastaðir og sandströndin í léttu göngufæri.
Í hótelinu eru 390 fallega innréttaðar vistarverur sem skiptast í tveggja manna herbergi og svítur. Innréttingar eru nútímalegar og stílhreinar, í hvítum og brúnum tónum. Parkett er á gólfum. Alls staðar er loftkæling, sími, 32 tommu flatskjársjónvarp með gervihnattarásum, þráðlaus nettenging og öryggishólf, hið minnsta. Smábar er gegn gjaldi. Á baðherbergjum er hárþurrka, baðvörur, baðsloppar og inniskór.
Veitingastaðurinn Las Vistas býður upp á morgunverðarhlaðborð með ríkulegu úrvali heitra og kaldra rétta og kvöldverðarhlaðborð með áherslu á alþjóðlega og Miðjarðarhafsmatargerð. Í hádeginu og tvö kvöld vikunnar eru ljúffengir réttir í boði af matseðli á veitingastaðnum Culinarium. Lifandi tónlist er á setustofubarnum á kvöldin.
Hótelgarðurinn er gróðursæll og þar eru þrjár upphitaðar sundlaugar, með sólbekkjum, sólhlífum og Balíbeddum í kring. Starfsfólk sér um afþreyingu fyrir þá sem vilja frá morgni fram á kvöld. Á Palapa-sundlaugarbarnum er hægt að fá síðbúinn kaldan morgunverð milli 10 og 11 og hádegisverð. Snarl og svalandi drykkir fást þar fram á kvöld.
Heilsulindin í hótelinu er öll hin glæsilegasta og býður upp á næringu fyrir bæði líkama og sál. Þar er innisundlaug, gufubað og þurrgufa og hvíldarhreiður. Ótal gerðir nudd- og líkamsmeðferða eru í boði, hægt er að slaka á við ilmolíuangan eða láta þekja sig með kavíar. Líkamsræktaraðstaðan er til fyrirmyndar með nýjum Technogym-tækjum og eróbikktímar eru þrisvar á dag.
Í gestamóttökunni sem er opin allan sólarhringinn er þvotta- og þurrhreinsiþjónusta og starfsfólk aðstoðar við bílaleigu, miðakaup og ferðaskipulag.
Arona Gran er mjög gott hótel á besta stað við strandgötuna í suðurhluta Los Cristianos. Það er einungis ætlað fullorðnum, með glæsilega heilsulind og því fullkomið til að næra bæði líkama og sál, fjarri skarkala og látum. Golfvöllur er í 3 km fjarlægð og bjóðast gestum sem vilja halda sveiflunni við sérkjör á hann. Nokkurra mínútna gangur er í miðbæ Los Cristianos þar sem veitingastaðir og verslanir eru á hverju horni.
Fjarlægðir
- Flugvöllur: 10 km
Aðstaða
- Veitingastaðir
- Aðgengi fyrir fatlaða
- Bar
- Heilsulind
- Herbergi
- Líkamsrækt
- Lyfta
- Nettenging
- Gestamóttaka: Opin allan sólarhringinn
- Sundlaug: Þrjár upphitaðar sundlaugar
Vistarverur
- Sjónvarp
- Öryggishólf
- Loftkæling
- Verönd/svalir
- Hárþurrka
- Herbergi
- Minibar: Gegn gjaldi
Fæði
- Hálft fæði