Iberostar Sábila, Costa Adeje

Vefsíða hótels

Stórglæsilegt hótel á Tenerife. Staðsetningin er einstök, með beinu aðgengi að strandgötunni við Torviscas-ströndina í Costa Adeje.
16 ára aldurstakmark er á hótelinu. 

Í hótelinu eru 470 fallega innréttuð herbergi og svítur sem rúma tvo eða þrjá fullorðna. Herbergin eru björt, innréttingar nútímalegar og stílhreinar, í ljósum við og hvítum litum. Flísar eru á gólfum. Alls staðar er loftkæling og upphitun, sími, flatskjársjónvarp með gervihnattarásum, lítill ísskápur og þráðlaus nettenging. Smábar og öryggishólf eru gegn gjaldi. Á baðherbergjum er sturta, hárþurrka og baðvörur. Hægt er að fá herbergi sem fylgir Nespresso kaffivél, baðsloppur og inniskór og séraðgangur að heilsulind. Við öll herbergi eru svalir eða verönd með útsýni yfir sundlaugina, á haf út eða til fjalla.

Hlaðborðin svigna undan heitum jafnt sem köldum réttum að morgni, í hádegi og á kvöldin og hægt er að fylgjast með kokkunum að störfum. Þema er breytilegt eftir dögum en áherslan á staðbundna og alþjóðlega rétti í bland. Snarl er og svalandi drykkir eru í boði á sundlaugarbarnum. Tveir aðrir barir sjá um að hótelgestir þjáist ekki af þorsta.
Í hótelgarðinum eru tvær sundlaugar og sólbekkir og sólhlífar allt um kring. Á þakveröndinni er sundlaug og hvíldarhreiður með bar, Balíbeddum og sérstöku nektarsvæðis. Starfsfólk sér gestum fyrir afþreyingu frá morgni til kvölds með lifandi tónlist og skemmtiatriðum.
Vinsamlega athugið, á Iberostar hótelunum er krafa um snyrtilegan klæðnað. Ekki er leyfilegt að vera í sundfötum á veitingastöðunum. Á kvöldin í matsal er mælt með að gestir séu til dæmis ekki í stuttbuxum.

Á Iberostar Sábila er aldeilis hægt að slaka á og dekra við sig því að heilsulindin er til fyrirmyndar með nuddpottum og gufu og áherslu á vatnsmeðferðir af ýmsu tagi, auk úrvals annarra nudd- og líkamsmeðferða. Þeir sem þurfa á útrás frekar en slökun að halda geta sótt eróbikktíma, lyft lóðum eða sprett úr spori á hlaupabretti. 
Móttakan er opin allan sólarhringinn og þar er kjörbúð, bílaleiga og þvotta- og þurrhreinsiþjónusta.

Hótelið er á einstökum stað við Torviscas ströndina í Costa Adeje og er aðeins ætlað 16 ára og eldri. Það er frábær kostur fyrir þá sem vilja hvort sem er slaka á í dekri á sundlaugarbakkanum, í heilsulindinni eða á gylltum sandinum við sjóinn, en einnig þá sem kjósa afþreyingu, útrás í vatnasporti eða öðrum hamagangi, stutt frá veitingastöðum og verslunum í bænum.

Fjarlægðir

 • Flugvöllur: 18.5 km
 • Strönd: Við Torviscas ströndina
 • Veitingastaðir: Á hótelinu og í næsta nágrenni

Aðstaða

 • Sundlaug
 • Skemmtidagskrá
 • Veitingastaðir
 • Bar
 • Gestamóttaka
 • Heilsulind
 • Herbergi
 • Líkamsrækt
 • Lyfta
 • Nettenging

Vistarverur

 • Sjónvarp
 • Loftkæling
 • Ísskápur
 • Verönd/svalir
 • Hárþurrka
 • Öryggishólf: Gegn gjaldi
 • Minibar: Gegn gjaldi
 • Kaffivél: Hægt að fá herbergi með Nespresso kaffivél

Fæði

 • Hálft fæði
 • Morgunverður

Við notum vefkökur (e.cookies) t.d. til að greina umferð um vefinn og til að bæta upplifun notanda á síðunni. Með því að halda áfram að vafra um síðuna samþykkir þú vefkökuskilmála VITA

Nánari upplýsingar um vefkökunotkun